Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 15:56:48 (1805)

2001-11-20 15:56:48# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst er til að taka það mál sem hv. þm. nefndi hér til sögunnar, að ráðherra hefur í dag heimildir til að ákveða hvað eigi að koma með að landi og hvað ekki. Í frv. er því ekki verið að breyta í neinum efnisatriðum stórlega frá því sem er nú þegar.

Hins vegar hef ég nýlega farið þess á leit við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, eftir að nefnd sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson veitti forustu og fjallaði um framtíð fiskvinnslunnar í landinu skilaði af sér, að hún legði fram hugmyndir um hvernig hægt væri að auka verðgildi sjávarafla, þ.e. þess afla sem kemur að landi, þess afla sem við drögum úr sjó. Eitt af því sem ég á von á að verið sé að vinna með á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins er einmitt nýting þessa afla, þess hluta fisksins sem ekki hefur að fullu verið nýttur til þessa.

Ég á von á því að fá niðurstöðu frá rannsóknastofnuninni mjög fljótlega og get vel séð fyrir mér að niðurstaðan úr þeirri vinnu verði sú að breytingar verði gerðar á þessu þannig að fiskiskip verði skylduð til að koma með meira af þessum hluta fisksins að landi. Rétt er þó að hafa í huga að vegna þeirra úreldingarákvæða sem við bjuggum við um langt skeið geta verið takmörk fyrir því hvað hægt sé að geyma af þessu hráefni um borð í vinnsluskipum til að vinna síðar í landi.