Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:05:11 (1809)

2001-11-20 16:05:11# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., SI
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frv. sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram. Ef þetta frv. verður að lögum leikur enginn vafi á því að allt brottkast er bannað. Brottkast hefur verið bannað en þó með þeim undantekningum að henda hefur mátt selbitnum, sýktum og skemmdum afla. En þetta frv. gerir ráð fyrir að öllum afla skuli landað en ónýtum afla landað sér og er hann undanþeginn kvóta. Þar með er allt brottkast bannað með lögum.

Menn eiga að umgangast miðin og fiskstofnana af nærgætni. Því miður er það staðreynd sem við verðum að horfast í augu við að fiski er kastað aftur í sjóinn í einhverjum mæli. Sú umgengni við auðlindina er óásættanleg og það er hættulegt þegar það viðhorf er ríkjandi að brottkast sé í lagi undir ákveðnum kringumstæðum.

Sem betur fer held ég að ekki margar útgerðir stundi skipulagt brottkast. Samt sem áður eru þær of margar og það er einbeittur brotavilji að baki hjá þeim útgerðum sem eru að gera út á lítinn og afmarkaðan kvóta og kasta kerfisbundið litlum fiski sem og millistærð af fiski. Það getur ekki verið vilji útgerðarmanna í heild að umgangast auðlindina með slíkum hætti.

Það er vissulega staðreynd að brottkast á afla í einhverjum mæli á sér stað og það er einnig staðreynd að brottkast hefur viðgengist í áranna rás í öllum fiskveiðistjórnarkerfum sem og við frjálsar veiðar og liggja þar ýmsar ástæður að baki. Þar með er ég ekki að mæla því bót, síður en svo, heldur benda á að brottkast er alls ekki kvótakerfinu einu um að kenna. Það er allt of mikil einföldun að setja samasemmerki á milli brottkasts og kvótakerfisins og víst er að dagakerfi eða sóknarkerfi er engin lausn á brottkastsmálum.

Íslendingar voru atkvæðamiklir í svokölluðum Smuguveiðum hér á árum áður og er það mál manna að sjaldan eða aldrei hafi jafnmikið brottkast verið stundað og þá og voru Íslendingar ekki barnanna bestir í þeim efnum. Þó var þar um að ræða frjálsar veiðar. Þá eins og svo oft áður var eingöngu verið að hugsa um að taka verðmætasta aflann um borð og henda hinum því geymsluplássið var dýrmætt. Slík umgengni um auðlindina er forkastanleg.

Ýmsar leiðir eru færar til að hagræða í útgerð. Við erum með framsalið til að hægt sé að hagræða. Útgerðarmenn geta keypt, selt og skipt á jöfnum veiðiheimildum og því á enginn að þurfa að henda verðmætum nema þeir sem vilja henda í græðgi. Þannig eru þeir sem brottkastið stunda að grafa undan eigin atvinnurekstri og til lengri tíma litið þjóðarhag. Til að hafa virkt eftirlit með brottkasti tel ég heppilegast að Fiskistofa fylgist vel með aflasamsetningu skipa á grundvelli löndunarskýrslna. Þannig er hægt að sjá hvort útgerðir stundi brottkast. Það er t.d. ekki eðlilegt að bátar sem stunda netaveiðar eða veiðar í troll landi eingöngu þorski og það jafnvel bara í ákveðnum stærðarflokkum. Nú er ekki lengur hægt að skýla sér á bak við það að sá afli sem hent var hafi verið skemmdur á einhvern hátt.

Eðlilega hafa brottkastsmyndir þær sem birtust í sjónvarpinu vakið mikla athygli og umtal. Ekki finnst mér þó ólíklegt að þarna sé um skipulagða aðför að fiskveiðistjórnarkerfinu okkar að ræða. Myndatökumönnum var boðið sérstaklega um borð af útgerðarmönnum á kvótalausum eða kvótalitlum bátum til að mynda er stórum og fallegum fiski var hent hátt í loft upp svo hann svifi betur fyrir framan linsur myndavélanna. Þó það sé óskylt mál er mjög alvarlegt þegar fréttir eru falsaðar vísvitandi og rýrir það afskaplega trúverðugleika þeirra fjölmiðla sem hlut áttu að máli.

Stærsta vandamálið er að of mikið af kvótalausum eða kvótalitlum bátum eru að gera út og eru að leigja til sín afar takmarkaðar veiðiheimildir og hugsa eingöngu um að koma að landi með verðmætasta fiskinn með skammtímagróðasjónarmið að leiðarljósi. Ef menn eiga ekki kvóta eða hafa ekki burði til að leigja til sín aflaheimildir þá eiga þeir einfaldlega ekki að gera út.

Í umræddu frv. kemur einnig fram mjög mikilvægt ákvæði, þ.e. í 1. efnismgr. 1. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Veiðum skal hagað þannig að afli skemmist ekki í veiðarfærum. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um notkun einstakra veiðarfæra.``

Við vitum vel að veiðarfæri eru misjafnlega vistvæn ef svo má að orði komast. Krókaveiðar fara t.d. vel með fiskinn en notkun eða beiting annarra veiðarfæra getur haft mikil áhrif, svo sem lengd togtíma, hversu lengi net liggja í sjó og hvar hinum ýmsu veiðarfærum er beitt, t.d. með tilliti til hrygningarstöðva og smáfisks. Það skiptir afar miklu máli að reyna að vernda smáfiskinn og gefa honum tíma til að stækka því þyngdaraukning þorsks er t.d. talin vera yfir 80% á milli þriðja og fjórða árs. Um 40% á milli fjórða og fimmta árs og um 20% á milli fimmta og sjötta árs. Til að ná hámarksafrakstri þorskstofnins þarf því að minnka sóknarþunga í smáfisk ásamt því að viðhalda stórum hrygningarþorski.

Þau stjórntæki sem hæstv. sjútvrh. hefur eru t.d. svæðalokanir, möskvastærðir, skiljur, aflamark, sóknarstýring og nú með þessum lögum getur hann einnig kveðið nánar á um notkun einstakra veiðarfæra eins og fyrr segir.

Við höfum verulega umframafkastagetu í flota, bæði hvað varðar smábáta og stærri skip og vegna tæknibreytinga og þróunar eykst afkastageta hans um um það bil 4--5% árlega. Þetta er einmitt vandamálið í hnotskurn. Flotinn er of stór miðað við fiskstofnana. Það kallar á aukinn þrýsting í auknar veiðiheimildir. Mun fleiri vilja hafa atvinnu af sjávarútveginum en fiskstofnarnir geta staðið undir. En í kjölfar Valdimarsdómsins svokallaða er því miður ekki lagaumhverfi til þess að leggja til flotaminnkun. Við erum sem sagt með hæstaréttardóm þar sem okkur er bannað að takmarka flotastærðina þrátt fyrir að við vitum að flotastærðin hefur áhrif á heildarfiskstofnana við landið og hann hefur í för með sér aukið brottkast, sérstaklega hjá þeim útgerðum sem hafa litlar eða engar veiðiheimildir. Menn þurfa ekki að halda að með breyttu fiskveiðistjórnarkerfi verði allt í einu til nægur fiskur handa öllum flotanum og þar með öllum byggðarlögum. Nei, það þarf að aðlaga kvótakerfið okkar að aðstæðum og sníða af því vankanta eins og nú er verið að gera. Við verðum að skapa sjávarútveginum góða umgerð og sanngjarnar leikreglur svo hægt sé að horfa til framtíðar og hann geti vaxið og dafnað eðlilega og þannig skapað þjóðinni góð lífskjör hér eftir sem hingað til.