Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:24:27 (1817)

2001-11-20 16:24:27# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:24]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af því að kvótalitlir og kvótalausir eigi ekki að stunda veiðar er rétt að draga það inn í umræðuna að íslensk stjórnvöld settu á sínum tíma þær leikreglur að hægt væri að taka allan kvóta af skipum, selja hann sérstaklega og gera skipin kvótalaus. Síðan væri hægt að selja skipin. Þetta var gert með lögum nr. 38/1990 þegar tekið var upp algerlega frjálst framsal aflaheimilda án þess að fyrst þyrfti að selja skipin með.

Framsalið hefur búið til kvótalitlar útgerðir og kvótalausar útgerðir. Þeir menn sem hafa gert þau skip út eða stjórnað þeim, þótt þeir væru ekki eigendur, eða unnið á þeim hafa unnið undir þeim kringumstæðum sem stjórnvöld hafa skapað þeim. Mér finnst að ekki sé hægt að segja í dag, eftir að íslensk stjórnvöld hafa látið menn búa við þetta í áratug, að þessir menn eigi engan rétt, þeir hafi fengið réttinn.