Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:26:33 (1819)

2001-11-20 16:26:33# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru tvö eða þrjú atriði úr ræðu hv. þm. sem mig langar að minnast á. Í fyrsta lagi að þeir sem hafa ekki efni á að leigja til sín kvóta eigi ekki að vera að því. Fram hefur komið að menn eru að leigja til sín kvóta á 150 þús. kr. tonnið og einnig hefur verið talað um að menn þyrftu þá að koma með afla, 4--5 kg fisk, að landi fyrir 230--240 þús. Hefur hv. þm. einhverjar leiðbeiningar til handa þeim útgerðarmönnum sem neyðast til að leigja til sín kvóta hvernig þeir eigi að haga útgerð sinni miðað við þetta leiguverð á kvóta? Þeir geta m.a. verið að leigja til sín kvóta frá bátum sem eru með lítinn kvóta en róa aldrei, smábátum sem uppfylla veiðiskyldu með því að kaupa dauða loðnu í Breiðafirði. Eins og við vitum er loðna ekki veidd á smábáta og allra síst þegar hún er dauð. Þetta gerir það að verkum að menn geta í raun og veru braskað þannig með kvóta, leigt frá sér réttindi sín til þeirra sem eru að reyna að basla við að gera út, skapa verðmæti og koma með afla að landi. Þeir leigja þetta sem sagt á 150 þús. kr. tonnið. Hvaða leið sér hv. þm. fyrir þá sem neyðast til að fara í þetta sem voru ekki fæddir það snemma að þeir fengju veiðireynslu miðað við það sem var?

Herra forseti. Einnig vil ég biðja hv. þm. að útskýra betur fyrir okkur það sem hún sagði í ræðu sinni um að þetta væru vísvitandi falsaðar fréttir af brottkasti. Herra forseti. Mér finnst þetta mjög stór orð og ég vil ekki trúa því að fréttamenn eða myndatökumenn hjá sjónvarpsstöð séu vísvitandi að falsa fréttir. Ég vil fá skýringu á því hvort þetta sé ekki fullmikið sagt.