Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:30:19 (1821)

2001-11-20 16:30:19# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:30]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að í andsvari hv. þm. komu ekki neinar leiðbeiningar gagnvart fullyrðingu sem hér kom fram um þá sem neyðast til þess að leigja til sín kvóta. Þetta geta verið aðilar sem eru að leigja til sín kvóta í lok kvótaárs. Þeir geta haft nóg en vilja gera meira.

Tökum sem dæmi kvótahafa með 100 tonn. Menn geta verið að leigja þetta fyrir 15 millj. kr. Það eru ekki dágóð árslaun fyrir það. En þeir sem leigja til sín, hvernig í ósköpunum eiga þeir að láta enda ná saman? Þeir geta ekki sent skilaboð niður með veiðarfærunum um að aðeins sé leyfður 4--5 kg þorskur á þennan drátt.

Svo er eitt í lokin. Hér var talað um að stóri hrygningarstofninn væri of mikið veiddur. Er hv. þm. þá sammála mér um að hæstv. fyrrv. sjávarútvegsráðherrar Sjálfstfl. hafi ekki brugðist við hvað varðar möskvastærð til þess að koma í veg fyrir að allur stærsti og besti fiskurinn væri veiddur?