Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:41:31 (1824)

2001-11-20 16:41:31# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:41]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér erum við að ræða frv. sem ætlað er að breyta núgildandi lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Það gengur aðallega út á að heimila eða réttara sagt skylda nú að sýktur, selbitinn og skemmdur fiskur skuli koma að landi, hann skuli ekki reiknast til aflamarks skipsins og að aðeins sé heimilt að nýta þannig fisk, sýktan, selbitinn og skemmdan, til bræðslu.

Í þessari málsgrein sem er síðasta málsgrein 1. gr. frv. og er ætlað að breyta 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, er auðvitað orðið ,,skemmdur`` í raun víðtækast. Það er nokkuð ljóst að menn sjá að fiskur er sýktur og það er líka nokkuð ljóst ef hann er selbitinn. En fiskurinn þarf ekkert endilega að vera allur ónýtur þó að hann sé selbitinn. En svo er ef hann er skemmdur. Það er auðvitað túlkunaratriði hvað er skemmdur fiskur. Ég hygg að þeir sem stunda netaveiðar og lenda í því að draga þriggja nátta net muni hallast að því að sá fiskur sem er dauður í veiðarfærum sé skemmdur fiskur þó hann hafi ekki verið talinn það á árum áður þegar mikið var hengt upp í skreið af dauðblóðguðum fiski.

Tilgangurinn með frv. er að gera það að verkum að sjómenn fiskiskipa hafi engar heimildir til þess að láta fisk fyrir borð og þar af leiðandi verði hægt að auðvelda eftirlitsstörf veiðieftiritsins. Þetta nær að vísu ekki til skipa sem fullvinna afla á Íslandsmiðum. Þau mega áfram samkvæmt frv. varpa fyrir borð verðlausum fiski og innyflum, hausum og öðru því sem til fellur við verkun eða vinnslu um borð í veiðiskipum.

Þarna er auðvitað líka mjög rúm túlkun á texta. Ég tel að í sjútvn. hljótum við að fara vandlega yfir þessi markmið. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um að auðvitað verði betri svipur á því ef hægt er að setja þessi markmið í lagatexta þannig að minna sé um hið algilda mat ráðherrans, samanber það sem stendur í lokamálsgreininni, með leyfi forseta:

,,Ráðherra setur frekari reglur um framkvæmd þessarar málsgreinar.``

Síðan segir þarna ofar, það er í 1. efnismálsgreininni, með leyfi forseta:

,,Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um notkun einstakra veiðarfæra.``

Markmiðið er að þá verði veiðum hagað þannig að afli skemmist ekki í veiðarfærum. Mig langar til að taka umræðu um það hér á eftir.

Síðan segir í 2. efnismálsgrein, með leyfi forseta:

,,Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að sleppa skuli lifandi afla ...``

[16:45]

Í þessari grein frv. eru í raun og veru þrjár mismunandi reglugerðarheimildir. Ég hefði talið æskilegt að sjútvn. reyndi að fara yfir það og skoða hvaða hugmyndir ráðherrann hefur í sambandi við reglugerðarheimildir og reglugerðarútfærslur á þessu og menn reyndu þá að setja meira af því í lagatextann. Ég tel að það sé almennt til bóta að slík ákvæði séu meira bundin í lögum en í reglugerðum ef hægt er að koma því við með góðu móti.

Hér hefur spunnist nokkur umræða um þetta mál og blandast inn í hana brottkast og svífandi fiskur og síðan hefur náttúrlega skotið upp kollinum hin algilda samlíking um að hvergi á jarðríki hafi verið annað eins brottkast og í Smugunni. Það hefur líka borið á góma í umræðunni. Ég ætla alla vega að lýsa því yfir fyrir mína parta af því að ég hef farið þrjár veiðiferðir í Smuguna, að í þeim veiðiferðum sem ég fór þangað þurfti ég ekki að taka þátt í einu einasta brottkasti. Það var allt hirðanlegt sem ég veiddi í þessari blessaðri Smugu. Ég get líka alveg hiklaust sagt að ég hef þurft að taka þátt í meira brottkasti á Íslandsmiðum en í Smugunni, a.m.k. þann tíma sem ég var þar. Ég veit hins vegar hvaða tímabil menn eiga við varðandi Smuguna. Það var fyrsta árið þegar mikill afli var þarna og menn höfðu ekki undan að vinna aflann. Þá kom upp sú staða sem oft ber við veiðar ef mikill afli er að menn velja úr aflanum það sem heldur ferskleika sínum og hinu er laumað fyrir borð.

Því miður óttast ég að slíkt ástand geti enn þá varað á Íslandsmiðum í ákveðnum tilfellum. Þegar mikið aflast, þá sé afli settur fyrir borð ef hann skemmist í höndum manna eða þá sem almennt er að meiri tilhneiging sé til þess að velja úr afla þegar mikið aflast. Ég hygg að það sé kannski almennt og rétt að draga það inn í umræðuna úr því að hún fór í þann farveg að ræða um brottkast almennt, þá er það örugglega þannig að það brottkast sem m.a. hefur verið kannað í nefndarstarfi á vegum sjútvrn. er örugglega því marki brennt að meira brottkast er þegar menn hafa úr nógu að moða og hafa jafnvel ekki undan. Ég hygg að það sé almennt í þessum dæmum. Þess vegna er það auðvitað að ef menn fá mikinn og blandaðan afla þá er hætt við að brottkaststilhneigingin sé meiri og jafnvel verðmætari fiskur sem fer fyrir borð en ella væri.

Hins vegar er verið að tala um það sem þetta frv. gengur út á að reyna að setja eina skósólana enn undir það að framkvæmd kvótakerfisins geti batnað og eftirlit aukist og verið markvissara. Það sem hér er lagt til er að reikna megi afla utan aflamarks. Það er samstofna þeirri tillögu sem er í frv. hæstv. ráðherra um veiðar smábátanna þar sem hann leggur til að 5% afla í hverri veiðiferð megi reiknast utan aflamarks. Hér er sem sagt verið að veita heimild til þess að reikna afla utan aflamarks en að þann afla megi eingöngu nýta til bræðslu, þannig að hér er útfærsla þar sem tekið er á hluta af þessu vandamáli og það er í raun og veru kannski aðalvandamál allrar þessarar umræðu um stjórn fiskveiða að menn skuli aldrei fást til að ræða vandamálið í heild sinni. Það er alltaf verið að koma með einhverjar smálagfæringar hingað og þangað og það er búið að gera það í fleiri og fleiri ár, að koma með smálagfæringar hingað og þangað það sem menn hafa talið vera lagfæringar, stundum hafa þær reynst lagfæringar en stundum ekki og er hægt að halda langa ræðu um það hvað ekki hefur tekist og hvað e.t.v. hefði tekist.

Í frv. er hins vegar vikið að notkun veiðarfæra, að það skuli skylt að hirða og koma með og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Síðan segir í grg. og tek ég dæmi af því, þ.e. vikið er að togtímanum og hér segir m.a. að það sé mjög langur togtími t.d. við humarveiðar og að meðafli þar verði mun lakari en ef togtími væri styttri og lagt til að ráðherra setji nánari reglur um notkun veiðarfæranna með reglugerð. Veiðum skuli hagað þannig að afli skemmist ekki í veiðarfærunum.

Ég held að rétt sé að taka smáumræðu um það hvenær og hvernig afli getur skemmst í veiðarfærum. Við skulum byrja á því að taka trollið til umfjöllunar.

Nú er það þannig að möskvum í trollinu er ætlað að vernda að nokkru að smæsti fiskurinn fari ekki aftur í poka veiðarfærisins og lendi út fyrir veiðarfærið og m.a. hafa möskvastærðarákvarðanir Íslendinga á undanförnum árum verið að fara úr 120 mm sem við vorum með í kringum 1970, upp í 135 mm og síðan í 155 mm í gerð vörpunnar. Síðan hefur auðvitað þróun vörpunnar sjálfrar oft og tíðum verið sú að menn hafa stækkað þessa möskva meira en þetta og meira en lágmarksmöskvastærðin segir til um. Það hefur líka orðið reyndin í þorskanetunum. Þar höfum við verið með reglur sem hafa kveðið á um lágmarksmöskvastærð en við höfum hins vegar þróað veiðarfærin þannig að við höfum með nýtingu á þorskstofninum stækkað möskvann á þorskanetunum. Það hefur aftur leitt til þess að við höfum farið að veiða ofan af stofninum eins og sagt er. Við höfum veitt stærsta fiskinn, verðmætasta fiskinn og líka þann fisk sem gefið hefur af sér mesta hrygningu og sjálfsagt er mestur ávinningur í að hafa til viðhalds stofnunum.

Á undanförnum árum hafa menn verið að stunda þorskveiðar með möskva sem er 8, 9 og jafnvel upp í 10 tommur til þess eingöngu að veiða stærsta fiskinn. Net hafa líka verið dýpkuð þannig að þau ná hærra í sjóinn, heldur fleiri möskvar. Allt er þetta gert til þess að ná í stærri fisk. Það út af fyrir sig hefur það markmið að nálgast verðmætari fisk en breytir hins vegar verulega nýtingu okkar á þorskstofninum. Við erum auðvitað að tala um það m.a. þegar við ræðum þær reglur sem hér er fyrirhugað að setja.

En svo ég víki aftur að togveiðarfærunum, þá vil ég a.m.k. láta þá skoðun mína í ljósi að of stór möskvi í trollpokanum sjálfum skemmi fisk og að sorteringin sem veiðarfærinu er ætlað að gera fari ekkert mjög vel fram í pokamöskvanum sjálfum nema því aðeins að afli sé lítill. Þetta þekkja allir sem hafa eitthvað séð til slíkra veiðarfæra, að þegar fleiri tonn komast aftur í trollpokana, þá strekkir á netinu og verður til þess að það kremur og skemmir þann fisk sem stendur hálfur og heill út um möskvana í trollpokanum. Þetta hafa menn örugglega séð á myndum þegar verið er að draga inn veiðarfærið troll.

Æskilegasta sorteringin á afla væri vissulega sú að geta sorterað aflann niður í sjónum og losnað við að fá það upp sem við ekki viljum fá upp. Það eru ekkert öll veiðarfæri sem bjóða upp á það. En það hefur, eins og ég vék að áðan varðandi þorskanetin, þann ókost að við erum kannski að taka miklu meira af stórfiskinum en við ætlum okkur. Þar af leiðandi komum við að því að ekki er hægt að stýra þessum veiðum með kvótakerfi. Kvótakerfið eitt og sér tryggir ekki þá nýtingu á stofni sem menn vilja ná fram.

Sama má segja um togveiðarnar, a.m.k. eins og þær eru stundaðar nú og með þeirri tækni sem við enn þá búum yfir. Við höfum smáfiskaskiljur sem stýra sð stórum hluta smæsta fiskinum úr vörpunum, en það dugar heldur ekki til, bæði þegar afli er mikill og eins getur margt orðið til þess að streymið í gegnum skiljuna er ekki nákvæmlega það sem það þarf að vera til að skiljan virki.

Það eru því fjöldamörg atriði sem varða veiðarfæri og notkun þeirra sem þarf að huga að og þess vegna hefði ég talið að það sem hér er vikið að í örstuttu máli, að ráðherrann setji nánari reglur um notkun veiðarfæra sé bara heilmikið mál hvernig með á að fara og það þurfi að skoðast mjög vandlega með yfirvegun hvernig megi nálgast það markmið.

Ég ætla að lýsa því sem skoðun minni að mjög æskilegt væri ef okkur tækist að láta veiðarfærin velja það úr hafinu sem við vildum fá upp en ekki er nóg að þau velji það bara. Við verðum líka að vera þess viss að það sem sleppur í gegnum veiðarfærin lifi af. Það hefur engan tilgang að láta veiðarfærin velja úr aflanum niðri í sjónum ef það sem valið er frá er allt dautt, það hefur engan tilgang. Þess vegna er það oft sem maður hefur spurt m.a. hafrannsóknamenn: Hvað þolir ýsan að fara í margar salíbunur í gegnum smáfiskaskilju áður en hún drepst? Svörin við því liggja ekki ljós fyrir. Það eina sem menn vita er að ýsan þolir miklu færri ferðir en þorskurinn.

En hvað lærir þá þorskurinn af því að fara tíu bunur í gegnum skiljuna? Getur verið að hann læri að forðast veiðarfærið í framtíðinni og menn þurfi þá að halda því áfram að stækka veiðarfærin ár eftir ár til að koma í veg fyrir það að lærður þorskur, ef hægt er að orða það svo, hæstv. ráðherra, fari ekki inn í troll. (Gripið fram í: Lærður í lífsins skóla?) Já, lærður í lífsins skóla. Hv. þm. halda kannski að ég sé að grínast en ég er ekkert að grínast. Það getur nefnilega verið mjög líklegt að fiskur læri smátt og smátt að forðast veiðarfæri. Bara örstutt dæmi um það.

Á síldarárunum frá 1964--1968 fórum við alltaf á hverju vori fullir bjartsýni á síld með nótina sem við fiskuðum svo vel í í fyrra. Þegar við vorum komnir austur á firði, þá leið venjulega um mánuður og þá fundum við einhverjar hafnir þar sem við gátum farið og dýpkað nótina um 8--10 faðma. Ég veit að menn muna þá tíð, einhverjir með mér. Niðurstaðan varð sú að þegar við komum sumarið eftir var nótin of grunn. Þeir sem voru með dýpstu næturnar héldu áfram að fiska og við fórum allir í það að dýpka næturnar. Svona gekk þetta fram til 1968 en eftir það veiddist engin síld, hverju sem það var um að kenna. En staðreyndin var að síldin dýpkaði á sér á hverju ári. Og mér er sagt, ég veit ekki sannleiksgildi þess, mér hefur verið sögð sú saga af reyndum skipstjórnarmanni á nótaveiðum að við Bandaríkin hafi menn byrjað að nýta síldarstofn á síðustu öld með nótaveiðum en síðan farið með notkunina eingöngu yfir í togveiðar og nú sé hegðun þess síldarstofns þannig að sá síldarstofn myndi ekki lengur torfur heldur sé í dreif, annaðhvort á botni eða upp í sjó. Það gæti auðvitað bent til þess að það sem var innbyggt í síldarstofninn að það væri öryggi síldarinnar að þétta sig í torfur og verjast þannig innan frá eigi ekki lengur við vegna þess að henni sé ævinlega splundrað með togveiðarfærum. Ekki veit ég hvort þetta er satt en gæti vel trúað að á 50 árum væri hægt að breyta hegðun fiskstofns.

Það sem ég hef gert að umræðu í máli mínu eru fjöldamörg atriði sem snúa ekki endilega að því hvort við búum við heimsins besta kvótakerfi eða hvort við búum við kerfi þar sem alltaf verður brottkast og að brottkast verði í öllum kerfum. Ég ætla bara að segja að í öllum kvótakerfum er innbyggður ákveðinn hvati til brottkasts. Hann er misjafn eftir því hvernig reglurnar eru útfærðar og það má vafalaust taka á einhverjum þeim vandamálum sem þar eru, en það er augljóst að sumar veiðar í kvótakerfi munu valda brottkasti. Þess vegna er ég afar ósammála hæstv. sjútvrh. að vera að fara núna með strandveiðatrilluna yfir í kvótakerfið. Það mun auka brottkast.