Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 17:58:08 (1836)

2001-11-20 17:58:08# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[17:58]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit nú ekki alveg hvernig ég á að orða þennan skilning hæstv. ráðherra. Ég held þetta sé bara rangur misskilningur. Ég kemst helst að þeirri niðurstöðu að sé svoleiðis hjá ráðherranum, að hann sé með rangan misskilning í þessu máli.

Nú erum við auðvitað bara að tala um eitthvert ,,ef``, eitthvert ,,ef-kerfi``. Ef það væri þannig að skipum væri ekki heimilt að halda til veiða í ákveðnum útgerðarflokki, eða þeim sem stunda veiðar með ákveðið veiðarfæri, nema því aðeins að þau hefðu kvóta í einhverjum ákveðnum tegundum, þá sé ég ekki að menn þyrftu að hafa svo miklar áhyggjur af meðaflanum. Meðaflinn er þá yfirleitt eitthvað sem fylgir með og menn fá illa ráðið við. Ef krafan er um þessa útfærslu þá er ég ekki alveg sammála ráðherranum um það að svona ,,ef-kvótakerfi`` eins og við erum að ræða sé flókið í útfærslu. En það er auðvitað háð því að sama krafa sé gagnvart öllum í viðkomandi útgerðum, að þær hafi kvóta í burðartegundunum.