Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 18:02:40 (1839)

2001-11-20 18:02:40# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[18:02]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Gallupkönnunin var auðvitað ekki skipuleg aðför að kvótakerfinu.

Ég á við að ef fréttin var sviðsett, og í ljósi þeirra fullyrðinga eða þeirra upplýsinga sem fréttamaðurinn sjálfur hefur látið hafa eftir sér um tilgang sinn, er ekki hægt að draga aðra ályktun en að þessi fréttaflutningur sé skipuleg aðför að kvótakerfinu, að fréttamaðurinn búi til frétt til þess að kasta rýrð á kerfið, lýsi því yfir í innlendum fjölmiðlum að hann sé að berjast á móti kerfinu með fréttaflutningnum og láti síðan fljóta með að hann ætli að senda þetta út um víða veröld til þess að kasta rýrð á kerfið og það sem íslensk stjórnvöld eru að gera í fiskveiðistjórnun.

Ef hægt er að draga einhverja aðra ályktun af þessu er hún mér hulin, ég verð bara að segja það.

Varðandi síðan þann þráð sem hv. þm. vildi spinna áfram er hann athyglisverður, og athyglisvert að hann skuli taka svona jákvætt undir, sérstaklega í ljósi þess að hann hefur sl. þrjú þing verið 1. flm. að frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Við höfum rætt það margsinnis í þinginu og ég sé eiginlega ekkert sem ég get kallað að séu svona hugmyndir í því frv. Það er bara gengið út frá, að manni virðist, stöðunni eins og hún er í dag og ef það er gengið út frá einhverri breytingu er hún sú að fleiri tegundir sjávardýra, eins og það er orðað þar, geti verið teknar upp í kvóta. Og kannski er það eina sem það á sameiginlegt með þeim hugmyndum sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi að skipta eigi flotanum upp í flokka. En þessir flokkar flotans, herra forseti, eiga að kaupa kvóta á uppboði.