Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 18:04:51 (1840)

2001-11-20 18:04:51# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kerfi sem við höfum lagt til mundi alveg virka þótt við fækkuðum tegundunum, það er ekkert vandamál. Ég sé í sjálfu sér ekki annað en að það sé full ástæða til að ræða alla möguleika til að einfalda kerfið, þó að við hefðum svona fyrirkomulag eins og við erum að leggja hérna til.

Það er ástæða til að velta þeim hlutum fyrir sér áfram en ég ætla samt sem áður að snúa mér að því að tala um það sem hæstv. ráðherra sagði hérna um þennan fréttaflutning. Mér finnst eiginlega algjör óþarfi að vera í þessum umræðustellingum um málið. Við sáum skip sem var greinilega alfarið útbúið til þess að hægt væri að henda fiski í sjóinn. Það voru færibönd og rennur sem virtust vera gjörsamlega hugsaðar til þess að koma fiski fyrir borð. Aðfarirnar voru að mínu viti trúverðugar, maður trúði því að menn færu svona að. Og ég trúi því að þarna hafi okkur verið sýnt í raunveruleikanum það sem menn hafa verið að gera. Og af hverju trúi ég því? Af því að við höfum þessa Gallupkönnun og hún segir nákvæmlega þetta sama. Hún segir að menn séu að henda þetta stórum fiski í sjóinn og í miklu magni í einstökum sjóferðum á dragnótaskipum.

Þess vegna finnst mér það vera deilan um keisarans skegg hvort þetta hafi verið sviðsett frá hendi skipstjórans eða ekki. Fréttamaður sem fer um borð og tekur myndir af þessu ber auðvitað enga sök á því ef skipstjórinn hefur í huga sínum ákveðið þetta sem einhverja aðför að kvótakerfinu, þ.e. að sýna þetta á myndum. En hann er að sýna að mínu viti þann raunveruleika sem má lesa út úr þeim gögnum sem komu út úr Gallupkönnuninni.