Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 18:07:00 (1841)

2001-11-20 18:07:00# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm., myndatakan skiptir engu sérstöku máli upp á þessa brottkastsumræðu. Ég tek alveg heils hugar undir það enda hefur þessi skipulagning, eða hvað við eigum að kalla þetta, ekki verið neinn kjarni eða uppistaða í mínum málflutningi eða haft áhrif á hann. Ég er einfaldlega að vinna í þessu máli eftir bestu getu og bestu samvisku og hef verið að gera það nokkur undanfarin missiri.

Mér finnst hins vegar skipta máli upp á virðingu manns fyrir fréttaflutningi og fyrir fréttamönnum og fyrir fréttastofu ef maður getur átt von á því að fréttir séu sviðsettar. Fréttir hafa áður verið sviðsettar í íslenskum fjölmiðlum. Og það endaði með því að viðkomandi fréttamaður var rekinn. Þetta hefur komið fyrir erlendis. Þar fengu fréttamenn verðlaun, Pulitzer-verðlaunin, fyrir frétt sem síðan reyndist hafa verið sviðsett. Þegar það kom í ljós voru þeir auðvitað reknir af blaðinu sem þeir unnu hjá og þurftu að skila verðlaununum.

Það skiptir engu máli upp á þessa brottkastsumræðu, þetta skiptir máli upp á fréttaflutninginn og upp á það að maður þurfi ekki að spyrja sig þegar maður sér frétt í fjölmiðlum: Jæja, er hún sviðsett, þessi?