Áhrif framræslu votlendis á fuglalíf

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:10:36 (1846)

2001-11-21 13:10:36# 127. lþ. 33.1 fundur 61. mál: #A áhrif framræslu votlendis á fuglalíf# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:10]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svar sem var í alla staði mjög prýðilegt. Hæstv. ráðherra tekur undir með mér að röskun og útrýming votlendis hefur haft áhrif á flestar tegundir fugla. Svo er, herra forseti, að við höfum þegar tapað einni fuglategund úr lífríki Íslands, þ.e. keldusvíni, vegna þessa en aðrar eru í hættu. Það liggur alveg fyrir.

Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega Suðurland. Á fyrri hluta síðustu aldar var flórgoði ákaflega útbreiddur fugl á Suðurlandi. Nú eru eftir fjögur til fimm pör þar og þau eru öll í Hafnarfirði. Á þessum miklu mýrum sem áður var að finna á Suðurlandi er flórgoðinn sem sagt algerlega horfinn. (Gripið fram í: ... í Hafnarfirði?)

Jaðrakan er líka svo að segja að hverfa af Suðurlandi og af því að hæstv. ráðherra nefndi andategundir þá vil ég geta þess að t.d. hávella og grafönd hafa horfið sem varpendur á Suðurlandi. Ég tek Suðurland sérstaklega sem dæmi vegna þess að mér finnst að ráðast þurfi í sérstakt átak þar. Þar er eins og ég sagði búið að eyðileggja 98% af öllum mýrum. Þar var ákaflega auðugt fuglalíf og það er fyrst og fremst þar sem við sjáum merki þess að framræsla mýra hefur haft mjög slæm áhrif.

Þess má geta af því að hv. þm. Tómas Ingi Olrich kom inn í umræðuna áðan að í hans kjördæmi var áður talið að flórgoðanum stafaði sérstök hætta af kísilgúrnámi við Mývatn. Nú hefur komið í ljós að flórgoðastofninn þar er góðu heilli á uppleið og hefur verið síðustu ár sem er ákaflega jákvætt merki.

Flórgoðinn er einhver sérstæðasti fugl í okkar góða lífríki og er mikilvægt að grípa til aðgerða til þess að vernda hann. Ég spurðist einmmitt fyrir um afkomu hans og sú fyrirspurn leiddi í ljós að kísilgúrnámið hafði að líkindum ekki þau skelfilegu áhrif sem ýmsir töldu áður.