Verndaráætlun fyrir Breiðafjörð

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:14:11 (1848)

2001-11-21 13:14:11# 127. lþ. 33.2 fundur 62. mál: #A verndaráætlun fyrir Breiðafjörð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:14]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Árið 1995 samþykkti hið háa Alþingi lög um vernd Breiðafjarðar. Tilgangur laganna var að stuðla, eins og segir í heiti laganna, að verndun Breiðafjarðar, einkum landslags, hvers kyns jarðmyndana, lífríkis en einnig menningarminja. Sérstök nefnd, Breiðafjarðarnefnd, sem er undir forsæti eins af fyrrv. kollegum okkar, Friðjóns Þórðarsonar sem um árabil gegndi ráðherraembætti og er mikill áhugamaður um allt það sem lýtur að hans heimahéraði í kringum Breiðafjörð, á samkvæmt 4. gr. laganna að vera umhvrh. til ráðgjafar um allt sem lýtur að framkvæmd laganna og hún á m.a. í samráði við sveitarfélög að láta gera verndaráætlun þar sem kemur fram hvernig eigi að ná þeim markmiðum sem voru sett með vernd svæðisins.

Nú minnist ég þess, herra forseti, að þegar lögin voru sett fengu Íslendingar nokkuð ríflega fjárhæð að styrk frá erlendum sjóði sem lætur sig náttúruvernd varða, sem m.a. átti að verja og var varið til umhverfisvöktunar og ýmissa þarfra hluta sem tengjast verndaráætluninni. En nú langar mig, herra forseti, vegna þess að meira en hálfur áratugur er liðinn frá því að lögin voru samþykkt að spyrja hæstv. ráðherra hvað líði gerð þessarar verndaráætlunar. Mig langar sérstaklega til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort rétt sé að Breiðafjarðarnefnd hafi fyrir nokkrum missirum skilað inn ramma að verndaráætlun og sá rammi liggi og rykfalli í skúffum ráðuneytisins. Það er ekki gott afspurnar ef rétt er. Ég velti því fyrir mér hvort þeir ágætu þingmenn sem hér eru staddir og tengjast þessu kjördæmi, menn eins og hv. þm. Magnús Stefánsson sem er áhugamaður og unnandi breiðfirskrar náttúru svo aðeins einn sé nefndur, séu ekki heldur óhressir með það ef það er frammistaða flokkssystra þeirra. Ég er nú ekki að tala um hv. þm. Kristin H. Gunnarsson sem við vitum líka að hefur m.a. látið sig varða einn tiltekinn hlut af náttúru og lífríki Breiðafjarðar sem er það lífríki sem þar er að finna á grunnsævi og menn geta veitt á króka.

Herra forseti. Ég spyr því hæstv. umhvrh. hvað líði gerð þessarar verndaráætlunar og hvort það sé rétt að hún sitji á rammanum sem Breiðafjarðarnefnd sendi ráðuneytinu og ráðuneytið hafi ekkert gert í nokkur missiri.