Verndaráætlun fyrir Breiðafjörð

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:16:54 (1849)

2001-11-21 13:16:54# 127. lþ. 33.2 fundur 62. mál: #A verndaráætlun fyrir Breiðafjörð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:16]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Spurt er:

,,Hvað líður gerð verndaráætlunar fyrir Breiðafjörð sem ber að gera samkvæmt lögum um vernd Breiðafjarðar sem samþykkt voru árið 1995?``

Svarið er að í samræmi við ákvæði laga um vernd Breiðafjarðar skal skipuð nefnd umhvrh. til ráðgjafar um framkvæmd laganna, svokölluð Breiðafjarðarnefnd. Nefndina skipa eftirtaldir og ætla ég nú að telja þá upp: Friðjón Þórðarson formaður, Guðríður Þorvarðardóttir varaformaður, samkvæmt tilnefningu þjóðminjaráðs, Magnús A. Sigurðsson, samkvæmt sameiginlegri tilnefningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrustofu Vesturlands og Náttúrustofu Vestfjarða, Ævar Petersen, samkvæmt tilnefningu héraðsnefndar Snæfellinga, Jón Baldur Sigurðsson, samkvæmt tilnefningu héraðsnefndar Austur-Barðastrandarsýslu, Jóhannes Geir Gíslason, samkvæmt tilnefningu héraðsnefndar Dalabyggðar, Sigurður Þórólfsson, og samkvæmt tilnefningu héraðsnefndar Vestur-Barðastrandarsýslu Þórólfur Halldórsson.

Verndaráætlun fyrir Breiðafjörð sem Breiðafjarðarnefnd skal í samráði við sveitarfélögin láta gera, sbr. 4. gr. laga nr. 54/1995, um vernd Breiðafjarðar, hefur verið send ráðherra til staðfestingar og hefur þegar verið staðfest.

Verndaráætlunin skiptist í þrjá meginhluta, þ.e. almenna lýsingu á staðháttum, ástand og markmið og í þriðja lagi framkvæmdaáætlun.

Með upphaflegum tillögum Breiðafjarðarnefndar fylgdi ekki forgangsröðun verkefna á framkvæmdaáætluninni, en nefndin hefur síðar lagt til forgangsröðun verkefna og er nú unnið að því að gefa áætlunina út. Hún er sem sagt í prentun og gert er ráð fyrir því að hún verði tilbúin til kynningar á næstunni.

Breiðafjarðarnefnd hefur gert samkomulag við Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi um aðstöðu og aðstoð fyrir nefndina og því hefur nefndin nú starfsaðstöðu í Stykkishólmi.

Það er ljóst að framkvæmd áætlunarinnar, sem er nú búið að forgangsraða og hún nær til fimm ára, mun hafa í för með sér einhvern útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Málið mun því koma til kasta fjárln. Alþingis. En vegna þess að nú er komin forgangsröðun og þessi verndaráætlun er tilbúin til kynningar þá hef ég lagt áherslu á að Breiðafjarðarnefndin fái fjármagn til að byrja efst á listanum í forgangsröðinni, þó ekki væri nema það. Og verði frv. um að leggja niður Náttúruverndarráð að lögum tekst að skapa smárými þar, bæði fyrir frjáls félagasamtök og fyrir önnur náttúruverndarmál sem ég tel svo sannarlega að þessi verndaráætlun fyrir Breiðafjörð sé. Við erum því að skoða það núna í fjárlagagerðinni hjá okkur hvort við getum látið Breiðafjarðarnefndina fá örlítið fjármagn til að geta hafið þetta starf.