Verndaráætlun fyrir Breiðafjörð

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:22:03 (1852)

2001-11-21 13:22:03# 127. lþ. 33.2 fundur 62. mál: #A verndaráætlun fyrir Breiðafjörð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:22]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég sé að Framsfl. hefur loksins eignast sína töframenn. Ekki þarf annað en nefna nafn hv. þm. Magnúsar Stefánssonar og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og þá ljúkast upp allar gáttir umhvrn. og búið er að staðfesta alla þá samninga sem við höfum barist fyrir missirum saman.

Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. umhvrh. að hún hefur staðfest verndaráætlunina. Ég ætla ekki að fara að ergja hana með því að biðja hana um að greina frá því hvenær hún staðfesti hana. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið gert fyrir mörgum missirum síðan og það hafi verið hreinn óþarfi hjá mér að leggja fram þessa fyrirspurn. Ég er alveg sannfærður um að hún staðfesti hana ekki eftir að ég lagði fyrirspurnina fram. Að vísu á eftir að ganga frá smáatriðum, en ég hirði lítt um þau, eins og að afla fjár til þess að standa við þetta. En hæstv. ráðherra hefur komið og lýst því yfir að hún muni ganga fyrir þingið og óska eftir samstarfi við þingið um að afla fjárveitinga til þess að ganga frá málinu og það er vel.

Ég mun fyrir mitt leyti reyna að beita þeim smávægilegu áhrifum sem ég hef í þinginu og í fjárln. til þess að takast megi að gera þetta sameiginlega ætlunarverk mitt og hæstv. ráðherra að veruleika. Ég tel ákaflega mikilvægt að gera þessa verndaráætlun.

Það mannval sem hæstv. ráðherra taldi upp og á sæti í Breiðafjarðarnefndinni er auðvitað alveg einstakt og ég er þeirrar skoðunar að þær hugmyndir sem þaðan hafa komið séu mjög jákvæðar.

Það er mikilvægt fyrir okkur að huga að því að vernda svæði af þessu tagi, sérstaklega eins og við lögðum upp með það, þ.e. þannig að það yrði gert í sátt við atvinnulíf og mannlíf á þessu svæði.

Herra forseti. Ég vil að endingu þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hennar og segi það bara um hana og jafnvel hennar flokk í þessum efnum að batnandi fólki er best að lifa.