Skógræktarmál og Bernarsamningurinn

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:40:02 (1862)

2001-11-21 13:40:02# 127. lþ. 33.3 fundur 109. mál: #A skógræktarmál og Bernarsamningurinn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er óneitanlega broslegt þegar allir skógræktarfræðingar, skipulagsfræðingar og umhverfismatsfræðingar Alþingis stíga á stokk í sömu umræðunni, en það er greinilegt að hv. fyrirspyrjandi, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur komið einhvers staðar við líkþorn fólks, þannig að hér rjúka allir til og allt í einu verður mjög gaman í umræðunni.

Mig langar til að vita í tilefni þess sem hér hefur verið sagt í sambandi við landshlutabundin skógræktarverkefni sem, eins og menn vita, voru lögum samkvæmt umhverfismatsskyld þar til lögum um mat á umhverfisáhrifum var síðast breytt og þá minni ég á að ég og hv. fyrirspyrjandi lögðum til að slíkt ákvæði yrði sett í lögin um mat á umhverfisáhrifum, að landshlutabundin skógræktarverkefni yrðu áfram matsskyld. Þeirri tillögu var hafnað hér á Alþingi.

En mig langar til að spyrja hæstv. umhvrh.: Í hvaða tilfellum hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum landshlutabundinna skógræktarverkefna? Og það væri gaman að fá að vita það hjá hv. skógræktarfræðingi, Ísólfi Gylfa Pálmasyni, hversu oft hefur verið leitað formlega til Skipulagsstofnunar varðandi þau verkefni sem komið hafa til.

(Forseti (HBl): Ekki er ætlast til að ný efnisatriði séu tekin til eftir að rautt ljós hefur kviknað.)