Skógræktarmál og Bernarsamningurinn

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:44:23 (1865)

2001-11-21 13:44:23# 127. lþ. 33.3 fundur 109. mál: #A skógræktarmál og Bernarsamningurinn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég skil vel að hv. þm. líti svo á að umræðan og þetta mál, þ.e. þessi kæra á hendur íslenskum stjórnvöldum, að þau hafi brotið Bernarsamninginn út af skógræktarmálum --- ég skil vel að íslenskir þingmenn taki það óstinnt upp margir hverjir, enda er það svo eins og hér kom fram að 27% landsins var skógi vaxið hér áður fyrr og núna á að fara í átak á næstu 40 árum til að hysja okkur upp um 5% eftir að skógurinn og landið hefur fokið meira eða minna burt vegna athafna okkar, eldgosa og ýmissa annarra náttúruhamfara. Auðvitað líta þingmenn svolítið alvarlega á þessa kæru eins og hér hefur komið fram í líflegum umræðum.

En það er alveg ljóst að fuglastofnunum stafar ekki hætta af því hvernig við höldum á málum í dag, þau er í eðlilegum farvegi. Hins vegar ef skógræktin væri algjörlega skipulagslaus og í meira mæli en hún er, þá ættu menn að hafa áhyggjur. En það er bara ekki þannig. Unnið er eðlilega að málum og ég benti á það svari í mínu að í lögunum um mat á umhverfisáhrifum sem þingmenn ákváðu hvernig ættu að útfærast er alveg ljóst að nýræktun skóga á 200 hektara svæði eða stærra og á verndarsvæðum er tilkynningarskyld og þá þarf Skipulagsstofnun að fara yfir það hvort slík skógrækt eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum eða ekki.

Ég tel að Fuglaverndarsamtök Íslands sem eru að vinna með BirdLife International í þessu máli hafi ekki uppi réttan málflutning þegar þau hafa verið að kæra íslensk stjórnvöld í þessu. Ég tel að málin séu í eðlilegum farvegi og þessi sógræktarverkefni séu jákvæð og æskileg. Hins vegar ef þau væru algjörlega óskipulög, þá ættum við að hafa áhyggjur. En þannig eru málin ekki.