Skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:49:55 (1867)

2001-11-21 13:49:55# 127. lþ. 33.4 fundur 205. mál: #A skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt ferðamálum með því að leggja á sig að lesa skýrsluna. Hann hefur hins vegar að ýmsu leyti lesið allt annað út úr henni en þar stendur.

En fyrsta spurning hans er: ,,Þykir ráðherra eðlilegt að Suðurnesja sé ekki getið í skýrslu um menningartengda ferðaþjónustu sem nefnd samgönguráðherra skilaði fyrir skömmu?``

Um þennan lið vil ég taka eftirfarandi fram: Tilgangur skýrslunnar er að meta almennt forsendur þess að þróa menningartengda ferðaþjónustu sem vaxandi þáttar í framboði þjónustu við ferðamenn, erlenda sem innlenda. Ég tel skýrslu nefndarinnar og tillögur mjög vandaðar og gefa færi á skipulegum aðgerðum til að þróa menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi. Allar þessar tillögur eru óháðar landshlutum og varða menningarstarfsemi almennt og tengsl hennar og þýðingu fyrir ferðaþjónustu.

Því er það ekki óeðlilegt að Suðurnesja sé ekki getið sérstaklega í skýrslunni, enda er þar ekki að finna neina sérstaka umfjöllun um aðra landshluta. Það er ekki tilgangur skýrslunnar að draga upp tæmandi mynd af menningarstarfsemi eftir landshlutum. Það kemur skýrt fram í formála hennar.

Höfuðborgarsvæðið er mun lengra komið í þróun ferðamála en aðrir landshlutar. Þar skiptir m.a. máli að gerð hefur verið sérstök tilraun til að markaðssetja Reykjavík sem menningarborg og tókst það með miklum ágætum, að mínu mati, með tilstyrk borgarinnar og ríkisins. Skýrslunni er ætlað að taka tillit til raunverulegra aðstæðna í þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Hluti af þessum raunveruleika er landfræðilegur og erfitt fyrir skýrsluhöfunda að breyta því. Sá raunveruleiki einkennist m.a. af eftirfarandi staðreyndum:

Þróunin hefur verið sú að lengd ferða, einkum í ládeyðu, hefur styst. Meginþorri ferðamanna til og frá Íslandi fer um Keflavíkurflugvöll og nýtur höfuðborgarsvæðið mest þeirrar nálægðar. Tækifærin til að laða ferðamenn til að hafa hér viðdvöl á ferðum sínum eru því nokkuð afmörkuð við suðvesturhluta landsins, þar með talið Reykjanes. Þessar aðstæður hafa valdið því að mikill og góður árangur sem náðst hefur í fjölgun ferðamanna til Íslands utan háanna hefur að mestu leyti náð til höfuðborgarsvæðisins, að hluta til Reykjaness svo og til nálægra héraða á Suður- og Vesturlandi.

Markaðssetning fjarlægri landshluta utan annatímans er því vandasamt verkefni sem brýnt er að takast á við. Því eru settar fram hugmyndir um svæðisbundnar þróunaráætlanir sem miða að því að auðvelda markaðssetningu þessara svæða. Tekið er sérstaklega fram í skýrslunni að forðast beri að líta svo á að staðir utan þeirra svæða sem þar eru nefnd gegni ekki mikilvægu hlutverki í uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu.

Gengið er út frá þeirri staðreynd að staðsetning Reykjaness við túnfót höfuðborgarsvæðisins og meginsamgöngumannvirki þjóðarinnar skapi svæðinu sérstaka möguleika og aðstæður í ferðaþjónustu. Samkvæmt skýrslum Hagstofunnar hefur heildaraukning í gistinóttum árin 1995--2000 verið 37%, en á Reykjanesi hefur gistinóttum fjölgað um 53% á sama tíma. Þar er einnig besta nýting gistirýmis utan höfuðborgarsvæðisins.

Í skýrslu um heilsutengda ferðaþjónustu sem skilað var á síðasta ári er mikið fjallað um möguleika á uppbyggingu þeirrar tegundar ferðaþjónustu á Suðurnesjum og bent á það sem styrkleika svæðisins umfram önnur.

Hafa verður í huga að þær hugmyndir sem settar eru fram í skýrslunni um skiptingu eru frumhugmyndir sem eftir á að skoða og útfæra. Slíkt verður þó aldrei gert nema í samráði við heimamenn á hverju svæði og á það jafnt við um Reykjanesið og fjarlægari svæði. Er þá væntanlega vegið og metið gildi þess sem vænlegt er að nota til grunngerðar í eflingu ferðaþjónustunnar.

Seinni fyrirspurnin er: ,,Hvert er álit ráðherra á því að bæjarfélögin sunnan Reykjavíkur, þ.e. Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður, eru sett undir hatt höfuðborgarinnar í sömu skýrslu þótt fyrirliggjandi sé sértæk, metnaðarfull uppbygging í hverju þessara sveitarfélaga fyrir sig?``

Þessum lið hefur í raun verið svarað með fyrri liðnum, en auk þess liggur svarið í fyrirspurninni sjálfri í raun og veru.

Eins og ítrekað er bent á í skýrslunni hefur verkefnið Reykjavík menningarborg, sem var samstarfsverkefni borgar og ríkis, m.a. orðið þess valdandi að höfuðborgin og nágrannasveitarfélögin standa mun betur að vígi en aðrir staðir á landinu. Fyrirspyrjandi bendir á að í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði sé eins og í Reykjavík þegar fyrir hendi metnaðarfull uppbygging. Svo er hins vegar ekki á flestum stöðum úti á landsbyggðinni. Þessi bæjarfélög standa því vel að vígi eins og Reykjavík og höfuðborgarsvæðið. Þetta kemur skýrt fram í skýrslunni.