Skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:58:19 (1870)

2001-11-21 13:58:19# 127. lþ. 33.4 fundur 205. mál: #A skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., SI
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Hæstv. forseti. Þegar litið er á þessa skýrslu í heild, niðurstöður hennar og tillögur, er meginniðurstaða sú að skýrslan fjallar um alla þætti málsins án nokkurs sérstaks tillits til einstakra landshluta. Tillögurnar eru almenns eðlis. Höfundur skýrslunnar leyfir sér hins vegar að taka á meginvanda ferðaþjónustunnar sem er hægari þróun á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu utan annatímans. Það er sennilega það sem kemur hv. fyrirspyrjanda úr jafnvægi.

Ég fagna tilkomu þessarar skýrslu. Ég tel að menningartengd ferðaþjónusta eigi afar mikla möguleika á að vaxa og dafna í framtíðinni sé vel á málum haldið.