Skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:04:21 (1875)

2001-11-21 14:04:21# 127. lþ. 33.4 fundur 205. mál: #A skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Það veldur mér dálítilli undrun hversu miklu uppnámi þessi saklausa fyrirspurn mín hefur valdið. Stríður tónn hæstv. ráðherra og fleiri stjórnarliða vegna þess arna fær mig til að hugsa um það hvort ekki þurfi að fylgja þessu öllu betur eftir.

Ég sé í hendi mér að annaðhvort hef ég misskilið tilgang þessarar skýrslu eða einhverjir aðrir. Ég fæ ekki annað heyrt en að hér sé skýrsla um byggðaeflingu hringinn í kringum landið fyrst og síðast en ekki það að við ætlum að fara í útrás til þess að fjölga hér ferðamönnum til að sækja menningartengda ferðaþjónustu sem er auðvitað ákveðin lenska í heiminum í dag. Menn eru þannig að tala hér dálítið austur og vestur.

Ég tala út frá þeirri grunnforsendu að ég vil fjölga hér ferðamönnum. Þá gengur auðvitað ekki að skýrsluhöfundar og hæstv. ráðherra segi að af því að Reykjavíkurborg var menningarborg árið 2000 sé hér bara allt í standi og ekki þurfi að geta eins né neins sem hér er að gerast í höfuðborginni, í Hafnarfirði, á Suðurnesjum, á suðvesturhorninu yfirleitt, af því að hér sé allt í prýðilegu standi. Þannig er það auðvitað ekki.

Og það er auðvitað alrangt, herra forseti, þegar menn eru að láta í veðri vaka að ekki séu tíundaðir staðir í þessari skýrslu. Það eru beinar tillögur um svæðaskiptingu hringinn í kringum landið, að undanskildu suðvesturhorninu. Sá er kjarni þessa máls. Ég tek undir það sem áður hefur verið sagt og vænti þess að hér sé um áfangaskýrslu að ræða, menn taki svo til hendinni og bæti úr því sem fyrirsjáanlega vantar í þessa skýrslu. Þá er hægt að marka klára stefnu, að fjölga ferðamönnum, transit-farþegum á Keflavíkurflugvelli, og fá þá til þess að staldra hér við, dag eða fleiri. Og þá mega þeir mín vegna endilega hreint fara um landið vítt og breitt en umfram allt að þessi gluggi hér að Íslandi verði nýttur til fullnustu og hann er hér á þessu svæði okkar.