Lögreglan í Reykjavík

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:16:53 (1881)

2001-11-21 14:16:53# 127. lþ. 33.6 fundur 206. mál: #A lögreglan í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Umræða um löggæslumál hefur verið mikil umliðin missiri, einkanlega löggæslumál í borginni og raunar víðar um landið. Bæði hafa lögreglumennirnir sjálfir kvartað yfir því í vaxandi mæli að möguleikar þeirra til að sinna þjónustu við borgana hafi minnkað sökum manneklu í röðum lögreglumannanna sjálfra og eins hafa borgarar lýst yfir áhyggjum sínum í þá veru að lögreglan sé ekki jafnsýnileg og áður hefur verið. Enn fremur er hitt, og sýnu alvarlegast, að möguleikar lögreglunnar til að halda uppi lögum og reglu hafa að sama skapi minnkað. Jafnvel heyrast kvartanir í þá veru að viðbragðsflýtir lögreglunnar hafi af þessum orsökum minnkað til muna og jafnvel að þegar leitað er eftir lögreglu af brýnum orsökum þá hafi bílar lögreglunnar of oft verið uppteknir annars staðar og ekki komist á staðinn fyrr en eftir langan tíma.

Ég ætla ekki í þessari fyrirspurn að velta vöngum yfir fjölda lögreglumanna eða fara í þá umræðu. Það er fyrirliggjandi og margir halda því fram að æ fleiri lögreglumenn séu nú, miðað við fyrri tíð, uppteknir við störf innan húss, að ríkislögreglustjóri taki til sín æ stærri hluta kökunnar, þ.e. þess fjármagns sem veitt er til löggæslu í landinu. Þetta er talið leiða til þess að lögreglumenn á vettvangi, þ.e. á bílum ellegar gangandi í miðborginni séu umtalsvert færri en verið hefur.

Ég ætla ekki að fara í almenna umræðu um þessi mál. Tölurnar tala yfirleitt sínu máli og þess vegna hef ég í fimm fyrirspurnum, sem eru sumar dálítið umfangsmiklar, óskað eftir því að hæstv. dómsmrh. leiði það til lykta hvort á þessu hafi orðið breytingar, hvort viðbragðsflýtir lögreglunnar hafi minnkað eða breyst á síðasta áratug eða svo. Einnig spyr ég um hitt sem haldið hefur verið fram í mín eyru, hvort þess séu dæmi að lögreglan hafi ekki getað sinnt brýnum beiðnum fyrr en eftir dúk og disk og hvort svo sé jafnvel komið að lögreglan beiðist undan því að sinna óskum um aðstoð, minni háttar aðstoð sem betur fer, sem hún hafi sinnt áður vegna þess að hún hafi öðrum hnöppum að hneppa.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, herra forseti. Fyrirspurnirnar er að finna á þskj. 231. Ég hirði ekki um að lesa þær. Ég þekki það hins vegar frá fyrri árum vegna starfa minna sem lögreglumaður á áttunda áratugnum að það skiptir mjög miklu máli að starfsumhverfi lögreglumannanna sjálfra sé tryggt, að nægilegur mannafli sé hverju sinni til að takast á við þau viðfangsefni sem við blasa. Því miður heyrir maður í auknum mæli dæmi um að þannig sé ekki í pottinn búið.