Lögreglan í Reykjavík

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:32:55 (1888)

2001-11-21 14:32:55# 127. lþ. 33.6 fundur 206. mál: #A lögreglan í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:32]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst þetta vera nokkuð alvarlegur hlutur sem hér hefur gerst. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson leggur hér fram fyrirspurn og í fjórða tölusetta lið fyrirspurnarinnar er spurt hver sé lengstur útkallstími þar sem neyðaraðstoðar lögreglu hafi verið óskað. Og hæstv. ráðherra svarar: ,,Sjö mínútur.``

Hv. þm. kemur síðan upp og upplýsir að hann hafi dæmi um miklu lengri útkallstíma, sjö sinnum lengri en það sem hæstv. ráðherra lét uppi. Þá liggur það auðvitað fyrir að hæstv. ráðherra hefur flutt hér í þinginu rangar upplýsingar. Það er grafalvarlegur hlutur. Nú bendir allt til þess að það stafi ekki af ásetningi heldur sé hér um að ræða að hæstv. ráðherra hafi ekki fengið réttar upplýsingar.

Það skiptir hins vegar miklu máli fyrir þingið að það liggi fyrir af hverju svar ráðherrans stafar. Hæstv. ráðherra sagði að hún mundi kanna þetta mál. Það er ekki nóg fyrir mig og það er ekki nóg fyrir hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson. Það verður að upplýsa hér með einhverjum hætti, herra forseti, ekki núna en síðar þegar hæstv. ráðherra hefur fengið tóm til þess að kanna þetta mál, hvað valdi því að hæstv. ráðherra kemur hér með kolrangar upplýsingar. Það er embættisskylda hennar að greina þinginu rétt frá og hún verður að skýra okkur frá því sem veldur því að hún kemur hér fram með rangar upplýsingar og eftir atvikum munum við þingmenn meta það hvort við þurfum að fá afsökunarbeiðni frá hæstv. ráðherra.

En mér sýnist, herra forseti, að það þurfi ekki að egna neinar gildrur fyrir þennan ráðherra. Mér sýnist hæstv. ráðherra detta í allar holur sem á vegi hennar verða.