Smávirkjanir í sveitum

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:44:47 (1893)

2001-11-21 14:44:47# 127. lþ. 33.11 fundur 284. mál: #A smávirkjanir í sveitum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér hreyfði hv. þm. Gunnar Pálsson afar mikilvægu máli því að ekkert er ofsagt í því sem kom fram hér áðan, að mikill hugur er í mörgum varðandi það að geta virkjað bæjarlækinn, eins og sagt er. Hins vegar hefur verið fjallað býsna mikið um þetta mál án þess þó að þeim sem mestur hugurinn er í finnist nokkuð þokast að gagni.

Af því að hæstv. ráðherra vitnaði áðan í nefndarálit og tillögur sem þar komu fram þá væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra vildi segja þinginu frá því hér: Hvert var innihald þeirra virkjanaleyfa sem hún undirritaði líka í júní, og greinilega þá á nokkuð svipuðum tíma og nefndarálitið varð til?

Fram kom að hún hafði þá undirritað tvö virkjanaleyfi, annars vegar vegna framkvæmda í Súgandafirði og hins vegar Ólafsfirði. Vegna stöðu þessara mál þá held ég að afar mikilvægt sé að hér komi fram hvað þessi virkjanaleyfi fólu í sér, hverjar forsendur þeirra voru og skilyrði.