Verðmæti steinbítskvóta

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:16:20 (1907)

2001-11-21 15:16:20# 127. lþ. 33.8 fundur 213. mál: #A verðmæti steinbítskvóta# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Til að taka af öll tvímæli þá vil ég taka fram að ég er í þessum útvalda, fámenna og góðmenna hópi sem studdi alltaf ákvörðun hæstv. ráðherra um að taka steinbítinn út úr kvóta. Ég tel reyndar að það hafi sýnt sig að sú ákvörðun geti verið mjög til farsældar vegna þess að það er hægt að stjórna þessum veiðum, eins og allir vita, með öðrum aðferðum en magnbundnum aflakvótum.

Varðandi spurninguna sem hér er lögð fram þá held ég að svarið við henni undirstriki kannski vandann við að reyna að átta sig á því hvað veldur í raun verðlagningu á aflahlutdeild og aflamarki. Við sjáum að áður en til þess kom að ákvörðun var tekin um að taka steinbítinn út úr kvóta hafði aflamarkið verulega lækkað í verði. Það var kannski ekkert óeðlilegt yfir hávertíðina en engu að síður --- þarna er auðvitað verkfallstími inni í --- sjáum við það t.d. varðandi þorskinn að leiguverð á þorski hefur rokið upp en verðið á varanlegri aflahlutdeild hefur hins vegar ekki lækkað. Þetta sýnir okkur að það virðist ekki alltaf vera fullkomið rökbundið samhengi þarna á milli.