Verðmæti steinbítskvóta

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:17:36 (1908)

2001-11-21 15:17:36# 127. lþ. 33.8 fundur 213. mál: #A verðmæti steinbítskvóta# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég hef ákveðna samúð með hæstv. sjútvrh. sem reynir að drepa málum á dreif með því að gera mönnum upp skoðanir, hafi þeir þær ekki fyrir og reynir þar með að halda því fram að mig greini á í skoðunum við samflokksmenn mína. Ég get huggað ráðherrann með því að svo er ekki. Mér finnst hins vegar eðlilegt að hér komi fram gagnrýni á þau handahófskenndu vinnubrögð sem viðhöfð voru í sumar. Í því felst ekkert mat á því hvort rétt var að taka steinbít út úr kvóta eða ekki.

Mér finnst mjög mikilvægt, herra forseti, að fyrir liggi hvaða heimildir hæstv. ráðherra hefur til að taka tegund út úr kvóta eða setja þar inn. Mér finnst það þurfa að vera alveg ljóst hvort hann skuli fylgja hinni vísindalegu ráðgjöf eða hvort hann getur bara gert það þegar honum eða þegar einhverjum öðrum hentar. Þetta er auðvitað grundvallaratriði fyrir okkur sem fjöllum um sjávarútvegsmál, ég tala ekki um þegar kemur að þessu stóra átakamáli, þ.e. kvótakerfinu og hvaða tegundir eru í kvóta hverju sinni.

Síðan að svarinu við þessari tilteknu fyrirspurn, herra forseti. Ég hefði vænst þess að það væri betur unnið. Það er athyglisvert að fá þessa töflu sem lýtur að 4. lið fsp., eða 3. liðnum öllu heldur. Ég var auðvitað að kalla eftir markaðsverði steinbítsins, annars vegar hvað aflamarkið hefði kostað og hins vegar aflahlutdeildin. En eftir því sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra var erfitt að fá þær upplýsingar og mönnum bar ekki saman. Menn hafa greinilega ekki treyst sér í að reikna út frá slíku.

Það er líka dálítið merkilegt, herra forseti, að í þessu kerfi sem við vinnum með, aflahlutdeildarkerfi sem er með framseljanlega aflahlutdeild, framseljanlegan kvóta, skuli ekki vera hægt að fá upplýsingar um þessi mál.