Jöfnun námskostnaðar

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:24:58 (1911)

2001-11-21 15:24:58# 127. lþ. 33.10 fundur 290. mál: #A jöfnun námskostnaðar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:24]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kom er fyrst spurt: ,,Er fyrirhugað að breyta reglugerð um jöfnun námskostnaðar til að betur sé hægt að sinna því hlutverki að jafna aðstöðumun nemenda af landsbyggðinni, hvaðan sem þeir koma eða hvaða nám sem þeir ætla sér að stunda?``

Þessi reglugerð hefur verið í gildi síðan árið 2000 og var endurskoðuð á þessu ári. Af hálfu menntmrn. er litið þannig á að með reglugerðinni sé betur en áður hægt að sinna því hlutverki að jafna aðstöðumun nemenda af landsbyggðinni, hvaðan sem þeir koma eða hvaða nám sem þeir ætla sér að stunda. Í sjálfu sér hefur ráðuneytið því ekki áform um neinar frekari stórbreytingar á þessari reglugerð miðað við þá stöðu sem er.

Síðan er spurt: ,,Er fyrirhugað að breyta reglugerðinni þannig að námsstyrkur komi til frádráttar við ákvörðun námslána?``

Ef ég skil þessa spurningu rétt vakir það fyrir fyrirspyrjanda að þeir sem nýta sér rétt til láns úr Lánasjóði ísl. námsmanna eigi einnig að geta notið námsstyrksins. Því er til að svara að það hefur ekki verið til athugunar að menn geti notið hvors tveggja.