Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 16:27:17 (1919)

2001-11-21 16:27:17# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[16:27]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil að hv. þm. hafi ekki allar upplýsingar um málið við höndina og tel það því skýringar á því hversu óljós svör hv. þm. voru við ýmsum af þeim spurningum sem ég lagði hér fyrir. Ég mun að sjálfsögðu fara nánar yfir þetta mál í ræðu minni hér á eftir því ekki er gerlegt að fara nákvæmlega yfir málið á svo stuttum tíma sem hér er veittur til andsvara.

En vegna þess að hv. þm. nefndi þær 25 millj. sem sérstaklega voru færðar inn við 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2001, og taldi þá upphæð algjörlega óháða þeirri tillögu sem hér er, er auðvitað eðlilegt að velta fyrir sér til hvaða framkvæmda er þá verið að veita þessum 38 millj. kr. vegna þess að í skýringum við þessar 25 millj. er sérstaklega tekið fram að um tímabundna hækkun fjárveitinga sé að ræða til að ljúka endurskipulagningu á húsnæði.

Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Veitt er 25 millj. kr. tímabundin hækkun fjárveitinga til að ljúka endurskipulagningu á húsnæði Alþingis sem hafin var með leigutöku Austurstrætis 8--10 og 10a. Breyting verður á notkun Austurstrætis 12--14, Þórshamars, Vonarstrætis 8 og Blöndahlshúss, Kirkjuhvoll verður tekinn úr leigu og hluti Austurstrætis 12, en þriðja hæð Austurstrætis 10a verður tekin á leigu. Í tengslum,`` herra forseti, segir hér, ,,í tengslum við þessar breytingar er heimild í 7. gr. til að selja Skólabrú 2, en söluandvirðið rennur í ríkissjóð.``

Herra forseti. Það er augljóst mál að hér er verið að tala nokkuð skýrt um það í hvað þessar 25 millj. áttu að fara, þannig að ég hlýt, herra forseti, að draga þá ályktun af orðum hv. þm. að þessar 38 millj. sem hér er gerð tillaga um hljóti að renna til einhverra annarra framkvæmda.

Því endurtek ég spurningu mína: Um hvaða framkvæmdir er verið að ræða?

Það er auðvitað algjörlega nauðsynlegt að við fáum nákvæma skýringu á því hvað hér er á ferðinni vegna þess að hið háa Alþingi hlýtur eðlilega að eiga að vera fyrirmynd annarra stofnana í því hvernig áætlanir eru gerðar og hvernig farið er með opinbert fé.