Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 16:56:03 (1924)

2001-11-21 16:56:03# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að endurtaka þau orð sem ég hafði hér um Byrgið. Ég tel hins vegar afar brýnt að við látum fara fram stjórnsýslu... virðulegi forseti, gæti ég fengið þann þm. hv. í salinn sem ég er í andsvari við. (GE: Heyri mætavel, opin eyru.)

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rekja hér aftur það sem ég sagði um Byrgið en ég tel afar mikilvægt að þegar við erum að vinna með og aðstoða hjálparstofnanir og félagasamtök á þessu sviði sé einmitt farið mjög vandlega í hvers konar þjónustu um er að ræða og til hvers þeir peningar eru notaðir sem almannafé er ráðstafað til. Þess vegna er verið að gera þessa úttekt á Byrginu og ég á ekki von á öðru en hún sýni afar góða niðurstöðu. En ég legg áherslu á að það er ekki eingöngu Alþingi heldur sveitarfélögin, og ekki síst sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu, sem eiga að koma til liðs við Alþingi og aðra sem eru að hjálpa til í þessu efni enda er vandinn ekki síst uppsprottinn hér á götum þessarar borgar og nágrannasveitarfélaga.

Þá vil ég einnig láta koma fram að nýlega hefur verið gerð stjórnsýsluúttekt á Krýsuvíkurskólanum og við munum nýta okkur þá úttekt til að vinna með frekari fjárveitingar til skólans. Ég er hins vegar ósammála því sem mátti lesa úr orðum hv. þm. að við ættum að láta enda ná saman og klára vanda stofnana á borð við Krýsuvíkurskóla í fjáraukalögum. Mér finnst að þingmanninum séu mislagðar hendur þegar hann í sömu ræðu hefur verið að gagnrýna það að fjárveitingar í fjáraukalögum séu --- fyrst og fremst eiga þær að vera notaðar til þess að klára aðsteðjandi vanda ársins.