Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 18:30:07 (1928)

2001-11-21 18:30:07# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[18:30]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að margar af þeim upphæðum sem eru ákveðnar hér eða lagt hefur verið til við afgreiðslu fjáraukalaga að ákveða hafa verið teknar fyrr á árinu og meira að segja sumar þeirra meðan þing sat enn að störfum á sl. vetri. Þá hefði fjmrh. verið í lófa lagið að leita heimilda til þeirra. Þau tilvik sem hv. þm. og formaður fjárln. gat hér um að grípa hefði þurft til er heimilt að gera samkvæmt fjárreiðulögum en eins og stendur í núverandi fjárreiðulögum er fjmrh. skylt að gera fjárln. Alþingis grein fyrir ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær. Ég sit í fjárln., herra forseti, og mér hefur ekki verið kunnugt um marga fundi á árinu, eða frá því fjárln. lauk afgreiðslu sinni við fjárlög á sl. ári, þar til hún kom saman í haust þar sem fjmrh. hefur verið að gera henni grein fyrir nauðsynlegum útgjöldum sem hann taldi sig þurfa að samþykkja og taka ákvörðun um á grundvelli fjárreiðulaga.

Herra forseti. Þó að mörg af þessum málefnum séu bestu mál og brýn nauðsyn, sem ég legg áherslu á að hægt eigi að vera að bregðast við, á samt að gera það löglega og það á að gera fyrir atbeina þingsins með beinum hætti fyrir fram en hitt heyri til undantekninga, að ákveða gjöldin fyrst, og þá í neyðartilvikum sem lögin að sjálfsögðu heimila.