Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 19:05:14 (1934)

2001-11-21 19:05:14# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 1. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[19:05]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eins og hv. þm. Kristján Pálsson sé veruleikafirrtur og fylgist ekki með því sem er að gerast í landinu. Hann sagði áðan að fólk væri almennt með lán í skilum. Ég minni á, virðulegur forseti, að 8., 9. og 10. nóvember sl. voru heilsíðuauglýsingar á hverjum degi og rúmlega það, um nauðungaruppboð og þar af var u.þ.b. helmingur af þeim síðum með framhaldsuppboð, nauðungaruppboð. Hvað segir þetta okkur? Segir þetta okkur að ástand sé gott og almennt séu menn með hlutina í skilum? Nei, það gerir það ekki.

Og fyrir þá þingmenn sem ekki vita að þegar gerðir voru samningar í febrúar árið 2000 var miðað við 5,6% verðbólgumarkmið, að verðbólgan mætti ekki fara upp fyrir það sem hún þá var, þá væru kjarasamningar í uppnámi eða lausir, þeir þingmenn þyrftu nú hreinlega að kynna sér um hvað kjarasamningar snúast. Þetta er nákvæmlega það mál sem um er að ræða. Það er býsna alvarlegt ef menn sem eru að vasast með fjármál þjóðarinnar og útgjöld ríkissjóðs vita ekki einu sinni hvaða verðbólgumarkmiðum er gengið út frá.

Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að þvarga um þessi mál hér. Ég mun fara yfir málin nákvæmlega í umræðum um fjárlög nk. þriðjudag og þá fá menn að heyra alveg svart á hvítu hvað eru verðbólgumarkmið og að hverju er stefnt og hvernig menn hafa stjórnað.