Verklag við afgreiðslu fjárlaga

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 13:32:18 (1939)

2001-11-27 13:32:18# 127. lþ. 36.91 fundur 163#B verklag við afgreiðslu fjárlaga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að vara við því verklagi sem hér á að fara að hafa við umræður og afgreiðslu fjárlagafrv. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja það til að 2. umr. um frv. til fjárlaga fyrir árið 2002 verði frestað um a.m.k. nokkra daga. Það er bersýnilega algerlega ótímabært að láta þessa umræðu fara núna fram. Það er óvandað, það er ófaglegt og það er í raun og veru óþinglegt að láta 2. umr. um frv. til fjárlaga fara fram í dag.

Meiri hlutinn í fjárln. afgreiddi málið þannig frá sér og frá nefndinni að enginn efnisþáttur frv. væri endanlega frágenginn, enginn meginmálaflokkur í frv. væri endanlega afgreiddur og unninn, hvorki á tekjuhlið né gjaldahlið. Það er því ljóst, herra forseti, að sú efnislega umræða og sú efnislega afgreiðsla á fjárlagafrv. sem á samkvæmt venjum og þingsköpum að fara fram í lok 2. umr., grein fyrir grein, getur ekki gert það á eðlilegum forsendum.

Þegar svo það bætist við að ráðherrar taka í fjölmiðlum um helgina að boða verulegan niðurskurð á fjárlagafrv., að formaður fjárln. og meiri hlutinn í fjárln. kemur af fjöllum, e.t.v. í bókstaflegri merkingu, og hefur ekki af þessum áformum heyrt, þá segir það, herra forseti, allt sem segja þarf um vinnubrögðin hér. Þau eru ótrúverðug, óvönduð og ekki til þess fallin að vekja mönnum traust hvað varðar endanlega afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Þetta eru handabakavinnubrögð, herra forseti. Eða hvernig er svipurinn á því í augum þjóðarinnar að hér við 2. umr. stendur til að hækka fjárlögin um 2,2 milljarða en við 3. umr. á að lækka þau aftur um 3 eða 4? Og hvað mundi gerast af það væri 4. umr.? Mundu þau þá hækka aftur, herra forseti?

Þetta verklag er algerlega ótækt, herra forseti, og ég hvet virðulegan forseta til að íhuga tillögu mína um að umræðunni verði frestað.