Verklag við afgreiðslu fjárlaga

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 13:38:45 (1942)

2001-11-27 13:38:45# 127. lþ. 36.91 fundur 163#B verklag við afgreiðslu fjárlaga# (aths. um störf þingsins), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Í framhaldi af þeim málflutningi sem hér var hafður uppi af hálfu stjórnarandstöðunnar vil ég vísa á bug þeim efnisatriðum og enn fremur þeim stóryrðum sem sett voru fram. Í gær óskuðu fulltrúar Samfylkingarinnar eftir fundi í fjárln. þegar allt lá fyrir, bæði samþykkt fjárln. og enn fremur yfirlýsingar sem hér er vitnað til, og þá var þessum fulltrúum ásamt hv. fulltrúa Vinstri grænna í lófa lagið að óska eftir því að 2. umr. yrði frestað. Allar þær upplýsingar sem hér er vitnað til og hrópað út af lágu fyrir. Það komu hins vegar engar óskir frá þessum aðilum um að fresta umræðunni.

Dagskrá fjárln. hefur lengi legið fyrir. 27. nóvember sem nú er upp runninn hefur lengi verið ákveðinn sem dagur 2. umr., og 3. umr. fer fram 7. desember. Þess vegna er þetta ómálefnaleg framsetning.

Virðulegur forseti. Ég mæli með því að við hefjum störf og komum okkur til verka að því sem hér liggur fyrir í dag en drepum málum ekki á dreif með því upphlaupi sem stjórnarandstaðan hefur haft uppi.