Verklag við afgreiðslu fjárlaga

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 13:40:30 (1943)

2001-11-27 13:40:30# 127. lþ. 36.91 fundur 163#B verklag við afgreiðslu fjárlaga# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að mótmæla óvönduðum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og tel með öllu fráleitt að ganga nú til 2. umr. um frv. til fjárlaga. Að mínu mati er Alþingi ekki boðlegt að hefja umræðuna án þess að tillögur sem boðaðar eru í fjölmiðlum í véfréttastíl séu kynntar fjárln. og Alþingi og án þess að endurskoðuð tekjuáætlun og lánsfjáráætlun liggi fyrir.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur útbúið brtt. við fjárlagafrv. en við munum ekki leggja þær fyrir að svo stöddu í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir enn um sjálfan grunn fjárlaganna.

Eitt virðist þó óumbreytanlegt og fastur punktur í tilveru þessarar ríkisstjórnar, þ.e. að hér skuli haldinn fundur á vegum Atlantshafsbandalagsins fyrir mörg hundruð millj. kr. á næsta ári, og annað sem fast er í tilveru hæstv. forsrh. og þessarar ríkisstjórnar hans er að fjáraustri verði haldið áfram í einkavæðinguna og alla ráðgjafana sem henni tengist. Við munum leggja fram við þessa umræðu ef af henni verður tillögur um að spara þjóðinni þessi óþarfaútgjöld.

Herra forseti. Ég leyfi mér að ítreka kröfu okkar um að þessari umræðu til fjárlaga, þessari platumræðu, verði skotið á frest þar til ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hefur unnið heimavinnu sína og þar til ríkisstjórnin hefur gert upp við sig hvernig hún hyggst bregðast við fjárþörf stórra málaflokka sem nú eru í fullkomnu uppnámi.