Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 14:05:53 (1956)

2001-11-27 14:05:53# 127. lþ. 36.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[14:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér eru greidd atkvæði um framlag til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, fjársveltrar stofnunar sem veitir fötluðum og aðstandendum fatlaðra barna þjónustu. Það sem ég vil vekja athygli þingheims á er það sem segir í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um þennan lið í brtt. við fjáraukalagafrv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Framlagið er háð því skilyrði að ekki komi til nýrra fjárveitinga til stofnunarinnar frá því sem lagt er til í frumvarpi þessu og fjárlagafrumvarpi ársins 2002. Enn fremur er það skilyrði sett að stjórnendur stofnunarinnar geri nauðsynlegar ráðstafanir til að halda rekstri stofnunarinnar innan fjárheimilda.``

Nú er ljóst að þrátt fyrir þetta framlag og þrátt fyrir það framlag sem kveðið er á um í fjárlögum upp á 9,5 millj. kr. mun þessi stofnun búa við fjársvelti. Það verður að sjálfsögðu til umfjöllunar í umræðu um fjárlögin þegar þar að kemur, en það er mjög óeðlilegt að setja inn skilyrðandi ákvæði með þessum hætti.