Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:05:30 (1960)

2001-11-27 16:05:30# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er kannski dasaður eftir að hafa lesið þessa löngu og ágætu ræðu. Svo virðist sem hv. þm. hafi ekki numið spurninguna sem ég varpaði fram. Ég spurði hv. þm.: Hverjar telur hann að séu orsakir þess mikla viðskiptahalla sem varð til á síðustu árum?

Ég get fyrir mitt leyti, herra forseti, svarað þeirri spurningu. Ég tel að ríkisstjórninni hafi orðið á ákaflega mörg og alvarleg mistök við stjórn efnahagsmála. Ríkisstjórnin beitti sér fyrir aðgerðum sem beinlínis ýttu undir þenslu. Þessi þensla leiddi til þess að viðskiptahallinn varð til. Hæstv. ríkisstjórn gerði líka hrossakaup við lífeyrissjóðina sem leiddi til þess að þeir fengu að flytja miklu meira fé úr landi en áður. Þetta leiddi til viðskiptahallans.

Þessi viðskiptahalli skapaði þá vá að forveri hv. þm. varaði við honum hér fyrir ári. Nú spyr ég hv. þm.: Telur hann ekki að ríkisstjórnin beri nokkra ábyrgð á viðskiptahallanum og afleiðingum hans?