Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:09:17 (1963)

2001-11-27 16:09:17# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera hv. þm. Jóni Bjarnasyni nokkur atriði fullljós. Ríkisstjórnin lagði fram fjárlagafrv. og þess vegna er eðlilegt að hún leggi fram tillögur um breytingar á því á meðan á meðferð þess stendur. Það gerir hún að sjálfsögðu í samráði við oddvita fjárln. Ég fagna því að komið hafi fram skýr skilaboð frá hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., skilaboð sem íslenski markaðurinn hefur tekið mark á, sem styðja þær tillögur og ummæli formanns fjárln. að það verði gripið til aðgerða.

Ég fagna þess vegna þessum ummælum oddvita ríkisstjórnarinnar sem styðja það sem ég hef sagt hér og taka af allan vafa um að Alþingi ætlar með stuðningi ríkisstjórnarinnar að standa við þau markmið sem við höfum sett okkur með þessu fjárlögum, að skila þeim með góðum afgangi og styðja þannig efnahagsbata þjóðarinnar.