Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:13:18 (1966)

2001-11-27 16:13:18# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:13]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst inngangur ræðu hv. formanns fjárln. nokkuð skondinn, þegar hv. þm. bar sig mannalega gagnvart þeim aðstæðum sem öll þjóðin hefur fylgst með, þar sem ríkisstjórnin hefur haft fjárln. eða meira hluta hennar, formanninn ekki síst, að engu og boðað þjóðinni í gegnum fjölmiðla hvernig farið verði með fjárlagafrv. Það var eiginlega grátbroslegt að heyra það.

Það blasir við hvílíkur bútasaumur þetta er. Það segir í raun alla söguna að nú er verið að afgreiða hér brtt. frá meiri hluta fjárln. um hækkun upp á 2,2 milljarða en svo er boðuð lækkun aftur upp á 3--4 milljarða. Ég vil þá spyrja hv. formann fjárln.: Á hann von á því að eitthvað af liðunum sem hækka núna við 2. umr. verði lækkaðir aftur við 3. umr.? Er það verklag sem hv. formanni fjárln. finnst almennt til fyrirmyndar og til þæginda?

Ég segi bara aftur það sem ég sagði hér fyrr í dag: Ja, það er eins gott að umræðurnar eru ekki fleiri. Þetta yrði ljóta vinnan ef alltaf væri verið að hækka og lækka fjárlögin á víxl milli umræðna.