Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:51:30 (1983)

2001-11-27 16:51:30# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hluta fjárln. við 2. umr. um fjárlagafrv.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2002 kemur nú til 2. umr. Endurskoðuð tekjuáætlun og lánsfjáráætlun liggur ekki fyrir. Nánast ekkert hefur verið rætt í nefndinni hvernig bregðast á við mikilli fjárþörf stórra málaflokka.

Á stuttum fundi í fjárlaganefnd sl. sunnudagskvöld, þegar nefndarálitið var tekið út af hálfu meiri hlutans, tilkynnti formaður nefndarinnar að ekki hefði verið lokað einum einasta útgjaldalið í frumvarpinu og væru þeir allir til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. Engu að síður vildi formaðurinn að frumvarpið yrði tekið út úr nefnd til 2. umr. Ekki var minnst einu orði á að fyrir dyrum stæði niðurskurður eða breytingar á öllu fjárlagafrumvarpinu. Því kom það mjög á óvart að heyra vitnað í fjölmiðlum til sjónvarpsviðtals sl. sunnudag, 25. nóvember, við hæstv. forsrh. þar sem hann boðaði að niðurskurðartillögur frá ríkisstjórninni yrðu lagðar fyrir þingflokka ríkisstjórnarinnar á mánudag. Allir þekkja svo umræðuna sem farið hefur fram síðan að ítrekað hafa birst viðtöl og tilvitnanir í hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. og formann Framsfl. um að niðurskurðartillögur séu á leiðinni, hafi verið í undirbúningi af hálfu ráðuneytanna og hér í umræðunni hefur verið upplýst að bæði formaður og varaformaður fjárln. hafa tekið þátt í þeirri vinnu fram hjá fjárln. og Alþingi.

Engu að síður er það stórmál að boða niðurskurðartillögur eða breytingar upp á milljarða kr. við frumvarpið án þess að þær tillögur komi fram í þinginu fyrst og þar sé gerð grein fyrir því hvernig ætlunin er að þær komi niður. 2. umr., sem hefur að venju snúist að mestu um gjaldahlið frumvarpsins, er því að meira eða minna leyti marklaus eða marklítil þegar í vændum eru stórar tillögur með háum upphæðum sem eiga að breyta allri gjaldahlið frumvarpsins.

Herra forseti. Í ljósi alls þessa er það fullkomin sýndarmennska að taka fjárlagafrumvarpið svo búið til 2. umr. Það er ekki heldur vel til fallið að auka einmitt trúverðugleika á fjármálastjórn landsins að vinna með þeim hætti að boða breytingar á fjárlagafrv. og fjármálum ríkisins í fjölmiðlum utan þings. Annar minni hluti leggur til að 2. umr. verði frestað uns nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum hafa komið fram og um þær hefur verið fjallað í fjárlaganefnd.

Þessi mikli vandræðagangur ríkisstjórnarinnar þarf ekki að koma á óvart. Gengi krónunnar er fallandi og hefur náð sögulegu lágmarki þessa dagana, en gengisvísitalan er nú komin yfir 150 stig. Þetta gerist þrátt fyrir 9% vaxtamun við útlönd og að Seðlabankinn hafi varið digrum sjóðum í erlendum gjaldeyri krónunni til varnar. Enn fremur er spáð 8,5% verðbólgu á árinu sem er langt umfram þau markmið sem Seðlabankanum voru sett við stjórn peningamála á vordögum. Þjóðhagsstofnun spáir nú 0,3% samdrætti í landsframleiðslu á næsta ári og fari svo er það í fyrsta skipti síðan 1992 sem landsframleiðsla dregst saman. OECD spáir enn meiri samdrætti eða 0,6% á næsta ári. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 1% hagvexti.

Aðstæður heimila og fyrirtækja hafa einnig snúist til verri vegar að undanförnu. Verðbólgan rýrir hratt kaupmátt launþega og setur kjarasamninga í hættu á almennum vinnumarkaði. Stýrivextir Seðlabankans eru nú 10,1% og þeir, ásamt þenslu á innanlandsmarkaði, eru þungur baggi á atvinnulífinu. Því er ljóst að efnahagsuppsveiflu undangenginna ára er lokið en hversu snörp niðursveiflan mun verða er enn óvissu hulið. Hættumerkin í þróun efnahagsmála hafa þó blasað við sl. tvö til þrjú ár, svo sem mikill viðskiptahalli, erlendar lántökur og mikil aukning útlána bankakerfisins, en hægt hefði verið að bregðast við þeim áður en komið var í óefni. Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru nú orðnar hærri en nemur árlegri landsframleiðslu. Ríkisstjórnin með forsætisráðherra og fjármálaráðherra í broddi fylkingar hefur allt til þessa dags þverneitað allri gagnrýni og fullyrt að allt væri í stakasta lagi í stjórn efnahagsmála.

Herra forseti. Það væri þó hreint oflof að segja að ríkisstjórnin hafi flotið sofandi að feigðarósi því að flestar árar hafa verið úti til þess einmitt að róa þjóðarskútunni í öfuga átt. Í stað þess að styrkja innviði atvinnulífsins, byggð og búsetu í landinu öllu, hefur ríkisstjórnin blásið upp tímabundið ,,góðæri`` með einkavæðingu og skertri almannaþjónustu, gífurlegri byggðaröskun og skuldasöfnun þjóðarbúsins erlendis. Ein afleiðing þess er sú að tekjur ríkisins dragast hraðar saman en tekjuáætlun fjárlaga gerir nú ráð fyrir. Reyndar eru tekjur ríkissjóðs þegar farnar að minnka mjög hratt að mati Seðlabanka Íslands, samanber nýjasta hefti Peningamála. Nú er viðurkennt að forsendur fjárlagafrumvarpsins halda engan veginn, eins og þær voru kynntar hér á haustdögum. Sala ríkisfyrirtækja, svo sem Landssímans og bankanna, er í fullkominni óvissu enda hvorki viðskiptalegar né samfélagslegar forsendur fyrir sölu þeirra um þessar mundir.

Herra forseti. Þótt hinir hörmulegu atburðir í Bandaríkjunum 11. september sl. og stríðsástand víða í heiminum hafi skapað mikla óvissu í þróun efnahagsmála og heimsviðskipta á næstu mánuðum væri það mikil sjálfsblekking að kenna því ástandi einu um stöðuna hér í efnahagsmálum og horfurnar fram undan.

Veltum aðeins fyrir okkur hvað hefur farið úrskeiðis. Í 35. tölublaði Viðskiptablaðsins frá í ágúst 2001 segir m.a.:

[17:00]

,,Erlend lántaka leiddi til mikils innflæðis fjármagns sem aftur varð til þess að gengi krónunnar styrktist. Seðlabankinn og ríkisvaldið hefðu átt að taka höndum saman um að koma í veg fyrir hækkun krónunnar, t.d. með með því að nota innflæðið til að greiða niður erlendar skuldir ríkisins.

Afnema átti vikmörk krónunnar miklu fyrr en gert var í mars á þessu ári. En vikmörkin voru eins konar ríkisábyrgð á gengi krónunnar og urðu til þess að einstaklingar og fyrirtæki vanmátu þá gengisáhættu sem fylgir erlendum lántökum.

Fara átti varlegar í að rýmka heimildir lífeyrissjóða til erlendra fjárfestinga. Það er eðlilegt að lífeyrissjóðirnir kaupi erlendar eignir, en sú þróun verður að ganga í smáum skrefum svo þjóðhagslegum stöðugleika sé ekki raskað.``

Ég er reyndar ekki svo viss um að lífeyrissjóðirnir hafi nýtt sér þá heimild og það hafi orðið fjárhag og gjaldeyrisstöðunni til tjóns en þó má það vera í einhverjum tilvikum.

,,Aðhald í ríkisfjármálum hefði mátt byrja miklu fyrr, en fjárlögin 1998 og 1999 báru töluverðan keim af kosningum sem þá voru. Aðilar í atvinnulífi og stjórnkerfi fóru inn í þessa uppsveiflu innblásnir af kenningum kenndum við ,,nýja hagkerfið`` sem urðu til þess að möguleikar tæknifyrirtækja sem og framleiðsla hagkerfisins í heild voru stórlega ofmetnir. Það leiddi til bólu á hlutabréfamarkaði.``

Mistökin liggja einnig, að mati þess sem hér talar, í ofurtrú á hagkvæmni stærðarinnar og einkavæðingu í almannaþjónustu. Hröð og skipulagslaus sala hlutabréfa í ríkisfyrirtækjum á sl. 3--4 árum reynist nú efnahagslífi þjóðarinnar dýrkeypt. Ríkisbankarnir voru einkavæddir og þeim heimilað að auka hlutafé sitt og selja á uppboðsmarkaði. Einkavæðing og sala hlutafjár í eignum ríkisins fór fram með miklum gusugangi og boðaföllum. Atgangurinn, herra forseti, minnti helst á hugmynd Egils Skalla-Grímssonar forðum sem var orðinn ellimóður en átti þá hinstu ósk að fara með kistur sínar, bróður- og sonarbætur, og dreifa á Þingvöll þá er Alþingi var háð og sjá allan þingheim berjast um fjölskyldusilfrið. Einstaklingar slógu lán og keyptu hlutabréf. Peningastofnanir og fjölmörg fyrirtæki tóku erlend lán til að kaupa hluti hvert í öðru og spenntu upp verðgildi stofnana og fyrirtækja langt umfram raunvirði. Uppboðsmarkaður verðbréfa á þessum tíma var eins og torg múgsefjunar. Æðstu ráðamenn þjóðarinnar töluðu fjálglega um nýja hagkerfið sem leysti allra vanda og gæti ekki leitt til annars en gróða. Forn gildi og almenn skynsemi þyrftu þar víst hvergi að koma nærri. Þess er einnig skemmst að minnast að í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir fjárlagafrumvarpinu fyrir ári var ,,hið nýja hagkerfi`` mært ótæpilega.

Herra forseti. Margir einstaklingar, fyrirtæki og heimili hafa orðið fórnarlömb í oftrú á þessum nýja markaði og margir eiga nú um sárt að binda og erfiðleika í sínum fjármálum. Margir höfðu þó varað við ,,netbólunni`` svokölluðu og lýst hlutabréfum sumra fyrirtækja ,,sem nokkurs konar keðjubréfum og mörgum verðbréfamiðlurum sem áköfum póstmönnum``. Athyglisvert er að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa ekki minnst á ,,nýja hagkerfið`` síðustu mánuðina.

Herra forseti. Það verður að breyta um kúrs. Það verður að breyta um stefnu í efnahagsmálum. Ein af forsendum byggðar og blómlegs atvinnulífs er nærtæk almenn grunnþjónusta. Þetta á við um verslun, síma, fjarskipti, póstþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntun og jafnvel eldsneytistöku á bíla og vélar svo að nokkuð sé nefnt. Búseta og heimilishald krefst þess að hafa góðan aðgang að lágmarksþjónustu í sínu nánasta umhverfi. Sú þróun sem stjórnvöld hafa hvatt til í íslensku atvinnulífi er samruni og miðstýring sem leiðir til aukinnar fjarlægðar stjórnenda fyrirtækja frá því samfélagi sem þeim er ætlað að þjóna. Það er ekki langt síðan, herra forseti, að styrkur atvinnulífs hér á landi var einmitt fólginn í dreifræði. Fyrirtækjum var stjórnað þar sem þau þjónuðu og ákvarðanir voru teknar af fólki sem þekkti staðhætti vel.

En nú hefur orðið mikil breyting, mikil samþjöppun í íslensku atvinnulífi og almannaþjónustu. Stækkun eininga í atvinnulífi og samfélagsþjónustu, einkavæðing með tímabundna arðsemi fjármagns sem höfuðmarkmið hefur í raun verið stefna stjórnvalda síðustu ár. Einnig þessi sýn á sér takmörk eins og nú er að koma á daginn. Tengsl atvinnulífs og umhverfis rofna, fyrirtækin trénast upp og tapa sveigjanleika og aðlögunarhæfni, enda hafa eigendurnir ekki lengur samfélagslega skírskotun. Gildir þar einu þótt í byrjun sé hlutaféð í eigu starfsmanna eða annarra sem eru nátengdir grasrótinni. Áður en varir hafa hlutirnir verið seldir og afdrif fyrirtækjanna eru þá í annarra höndum. Hagkvæmni og arðsemi snúast í andhverfu sína. Samkeppni snýst í fákeppni og einokun, hófleg arðsemiskrafa breytist í hömlulausa fégræðgi, siðferði og samfélagsábyrgð eru fyrir borð borin.

Dapurleg dæmi þessa dagana eru fréttir af áframhaldandi skerðingu póstþjónustu á Vestfjörðum með tilheyrandi uppsögnum starfsfólks og minnkandi þjónustu Landsbankans sem lokar nú útibúum sínum eða skerðir þjónustu á Norðausturlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Það kann að virðast einföld framkvæmd, herra forseti, að loka pósthúsi eða bensínafgreiðslu, leggja niður bankaútibú og segja starfsmönnum upp. En með slíku er í raun verið að auka rekstrarkostnað bæði heimila og fyrirtækja svo að um munar. Meint hagræðing kemur oft fram sem örlítil aukning á hagnaði í byrjun, en getur falið í sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þær byggðir og þá einstaklinga sem eiga í hlut.

Bankarnir hafa það meginhlutverk að vera þjónustustofnanir, taka við innlánum og lána síðan út peninga. Þeir eru hins vegar orðnir umsvifamiklir aðilar á hlutabréfamörkuðum, kaupa upp fyrirtæki sem eru í viðskiptum við þá og reka þau svo áfram. Þannig verða til hættuleg hagsmunatengsl þar sem ekki er alltaf ljóst hvort á stærri hlut í hinu, fyrirtækið í bankanum eða bankinn í fyrirtækinu. Sú hætta skapast að peningastjórn bankans og útlánastarfsemi verði ekki lengur hlutlaus eða með almannahagsmuni að leiðarljósi, ekki einu sinni hagsmuni eigenda sinna. Í ritstjórnargrein tímaritsins Íslenskur iðnaður frá í nóvember sl. er það einmitt gagnrýnt að bankarnir reki svona tvöfalda starfsemi og varpi tapi af hlutabréfaviðskiptum sínum út í vexti og þjónustugjöld hjá viðskiptavinum sínum. Herra forseti. Þar er tekið dæmi úr níu mánaða uppgjöri Landsbankans og, með leyfi forseta, vitna ég til þess sem þar stendur: ,,Gengistap af hlutabréfum nam 1.610 milljónum króna`` --- þetta er hjá Landsbankanum sem nú er að stæra sig af því að hann verði að hagræða í litlu byggðunum úti á landi, í þeim litlu byggðum sem einmitt hafa staðið undir útgerð og fiskvinnslu víða um land, og bankinn einmitt tekið arðinn sinn af þeirri þjónustu. Einmitt sá banki er til umfjöllunar í tímaritinu Íslenskur iðnaðar, og þar segir: ,,Gengistap af hlutabréfum nam 1.610 milljónum króna`` --- gengistap af hlutabréfum og þetta er banki sem á að hafa það hlutverk að stunda inn- og útlán --- ,,og eru umskiptin frá fyrra ári um tveir milljarðar króna.`` Hreinar vaxtatekjur bankans jukust um 44%. Hver var að tala um okurvexti í þjóðfélaginu? Hreinar vaxtatekjur bankans jukust um 44% eða um 1.892 milljónir króna í samanburði við fyrstu níu mánuði ársins 2000. Og áfram með tilvitnun í þessa ágætu grein í tímaritinu Íslenskur iðnaður -- fréttabréfi Samtaka iðnaðarins: ,,Þarf frekari vitna við?`` spyr ritstjórinn. ,,Lántakendur`` --- viðskiptavinir bankans --- ,,eru umsvifalaust látnir greiða tapið af hlutabréfaeign bankans.``

Herra forseti. Að mínu viti getur heilbrigð og virk bankaþjónusta vart gegnt hlutverki sínu við þessar aðstæður. Bönkum sem stunda almenna útlánastarfsemi ætti ekki að vera heimilt að fjárfesta í hlutabréfum og fullkomlega fráleitt er að þeim sé heimilt að fjárfesta í samkeppnisatvinnurekstri hvort sem það er kjúklingasláturhús, kjúklingabú eða verslun á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vilja aðra forgangsröðun í tekjuöflun og útgjöldum ríkisins en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Fjárlögum ríkisins á að beita til þess að auka jöfnuð í samfélaginu svo að enginn þurfi að líða vegna aldurs, fötlunar eða búsetu. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, jafnframt að stefna í atvinnumálum taki fullt mið af sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og tekið verði upp grænt bókhald þegar meta skal arðsemi í atvinnurekstri og við ákvörðun framkvæmda. Mikil byggðaröskun, stöðugir fólksflutningar á höfuðborgarsvæðið og sá mikli viðskiptahalli sem við höfum búið við síðustu ár sýnir það ótvírætt að viðskipta- og þjónustugeirinn á suðvesturhorninu hefur vaxið langt umfram það sem aukning í þjóðarframleiðslu gefur tilefni til. Þessu verður að snúa við ef við eigum að ná eðlilegum hagvexti, jafnvægi í viðskiptum og greiða niður skuldir þjóðarbúsins við útlönd. Því miður hefur á síðustu árum þróast hér hagkerfi, efnahags- og atvinnulíf sem nærist á viðskiptahallanum og verður háð honum. Það verður þrautin þyngri að snúa af þeirri braut. Krafa um hagræðingu sem tekur einungis tillit til tímabundinna arðsemiskrafna fjármagnseigenda og ofurtrú á hagkvæmni stærðarinnar hefur villt stjórnvöldum sýn og leitt atvinnulífið inn á villigötur sem þjóðin öll sýpur nú seyðið af.

Herra forseti. Ég dreg í efa að þjóðin treysti ríkisstjórninni til að hafa dug og myndugleika og sýn til að snúa af þeirri villubraut sem hún er á í efnahagsmálum, í atvinnumálum, í byggðamálum og í fjármálaumsýslu ríkisins. Það væri því hið mesta þjóðþrifaverk að hún gerði sér grein fyrir stöðu sinni og færi frá.

Herra forseti. Með nál. fylgja fylgiskjöl sem ég vil geta um. Ég vil nefna þá ágætu ritstjórnargrein sem birtist í tímaritinu Íslenskum iðnaði -- fréttabréfi Samtaka iðnaðarins, sem heitir ,,Hver borgar brúsann?`` og fjallar einmitt um hvernig bankarnir hegða sér í viðskiptakerfi okkar. Ég vil einnig nefna grein sem hv. þm. Ögmundur Jónasson skrifaði í Morgunblaðið 6. október varðandi skuldasprengingu sem orðið hefur í þjóðarbúskapnum, en þar kemur einmitt fram að skuldir þjóðarbúsins við útlönd nú eru að verða hærri en árslandsframleiðslan. Ég vil líka vekja athygli á því að hér er líka fylgiskjal frá minni hluta utanrmn., frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þar sem einmitt er ítarlega rakið hvernig útgjöld utanrrn. og til ákveðinna gælumálaflokka þar hafa vaxið gífurlega á síðustu árum. Sömuleiðis er hér álit frá 1. minni hluta samgn., þar sem varað er við niðurskurði til samgöngumála og sérstaklega úti um land. Þá er einnig fylgiskjal álit frá minni hluta menntmn., þar sem einmitt er dregið fram og lögð áhersla á að það verður ekki til að auka hagvöxt hér eða bæta framtíðina að auka skólagjöld, hvort sem það er á nemendur í háskólum eða í framhaldsskólum.