Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:44:50 (2002)

2001-11-27 17:44:50# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ljóst er að umræðan sem hér á sér stað um fjárlög fyrir íslenska ríkið árið 2002 er í skötulíki. Hver á fætur öðrum eru hv. stjórnarþingmenn á flótta frá umræðunni og vilja helst ekkert ræða efnið af ótta við að eitthvað verði sagt eða gert sem veikir íslensku krónuna sem hefur verið í frjálsu falli undanfarið.

Við skulum ekki gleyma því að gengisviðmiðun krónunnar var 125 stig þegar breytingin var gerð hjá Seðlabankanum. Í hverju er hún í dag? Núna verða menn helst að líta á viðmiðunina á mínútu fresti til að sjá hver sveiflan er. Ætli hún sé ekki 150 stig eða eitthvað svoleiðis núna?

Herra forseti. Ég spyr hv. þm. Einar Odd Kristjánsson vegna þess að mér finnst að þeir hafi aðallega verið skammaðir sem hafa fengið launahækkun: Gæti ekki líka verið að kerfisbreytingar og það að menn gengu full hratt um gleðinnar dyr hafi komið í afturendann á okkur? Ég nefni dæmi frá síðasta ári. Fjárstreymi frá landinu var upp á 25 milljarða en aðeins 10 milljarðar komu inn til fjárfestinga. (Gripið fram í: ... í afturendann.)