Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:47:27 (2004)

2001-11-27 17:47:27# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SvH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þetta er að vísu sérkennileg staða sem fjármálin okkar í umræðum á Alþingi eru komin í. Frá gamalli tíð þóttist ég vera nokkuð kunnugur málsmeðferð en hún hefur tekið miklum stakkaskiptum, sér í lagi á þessu þingi.

Það er að vísu rétt að hæstv. ríkisstjórn á hverjum tíma hlýtur að hafa úrslitaáhrif á það hvernig fjárlög eru úr garði gerð. En eftir að fjárlagafrv. er lagt fram fær fjárln., fyrrv. fjárveitinganefnd, málið til meðferðar og starfar að frágangi þess. Jafnóðum, hygg ég, hefur verið siður að gefa nefndinni upplýsingar um hvert stefna bæri og sér í lagi um höfuðmál, höfuðþætti frv.

En hvernig bar það að formanni fjárln., hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, og varaformanninum, sem er nú hlaupinn af vettvangi? Það bar að með þeim hætti að hæstv. forsrh. skýrði frá stefnunni í útsendingu í Silfri Egils. Og ég verð að segja að ég sakna þess að hæstv. forsrh. skuli ekki mæta hér til að strá um sig af nægtaborði ríkisstjórnarinnar hæstv. eins og hann gerði þar. Þar þreif hann í sínar hendur silfur Egils og stráði því um, alsjáandi með góða heyrn, svo ekki þarf að fara frekari orðum um tilvitnanir í forn fræði.

Reynt er að bera í bætifláka fyrir þessi vinnubrögð en það er um það sem vill, að dæma.

Hér fór hann mikinn, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, 5. þm. Vestf., um ástæður þess hvernig komið væri og aðstæður aðrar í efnahagsmálum okkar. Hann heldur sömu ræðuna þing eftir þing þar sem hann kennir um launastöðunni í landinu, og sér í lagi færir hann að því rök að á því beri samtök opinberra starfsmanna ábyrgð.

Ég rifja upp og spyr: Hvar var hv. þm. þá, þegar tekin var ákvörðun um 30% hækkun á launum þingmanna og ráðherra? Hann var varaformaður fjárveitinganefndar. þá. Dettur honum í hug að það hafi engin áhrif haft? Daginn eftir kosningar var þessi ákvörðun tekin.

Það er ekki þrætt um það að ýmsir njóta góðra launa í þjóðfélaginu og það er ekki þrætt um það að meginhluti þeirra opinberu starfsmanna sem knúið hafa fram kröfur sínar áttu kröfu til þess að fá laun sín bætt. Það sem menn deila um, og hv. þm. virðist aldrei veita athygli, er misskipting fjárins. Það eru nefnilega nógir andskotans peningar til í þessu þjóðfélagi. Það reynist a.m.k. svo vera þegar hægt er að afhenda örfáum sægreifum milljarða á milljarða ofan. Ætli meginástæðan fyrir öllu gengishruninu sé ekki að sjávarútvegurinn var kominn á heljarþröm, aðalútflutningsatvinnuvegur okkar, vegna þess að það er búið að stela svo miklu fé út úr þeim atvinnuvegi?

Nei, þetta er ekki svona einfalt eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárln., vill kalla það, að það sé hægt að leita til einhverrar einnar stéttar um ástæður þess hvernig komið er fyrir okkur í þessari miklu verðþenslu, miklu spennu, þessum gífurlega viðskiptahalla. Og mér reiknaðist svo til af því sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, formaður nefndarinnar, sagði að nú mundi á árinu sem er að líða viðskiptahallinn verða 66 milljarðar, held ég að ég hafi tekið eftir. Þá og eftir þeim prósentutölum sem hann fór með má gera ráð fyrir að hann verði um 50 milljarðar á þessu ári og 44--45 milljarðar á árinu 2002.

Þetta er auðvitað óbærilegt. Erlendar skuldir okkar eru komnar upp úr öllu valdi.

Hv. þm., formaður nefndarinnar, talaði um breyttar forsendur í efnahagsmálum. Mér skildist á varaformanninum að ekkert hefði breyst um árabil annað en að kaup hefði hækkað of mikið hjá launþegum ýmsum enda eru þessar forsendur sem nú liggja til grundvallar í efnahagsmálum okkar ekkert nýjar þótt menn flýi til 11. september með þær. Þær eru ekkert nýjar. Flettið upp í ræðum stjórnarandstæðinga við afgreiðslu fjárlaga í hittiðfyrra og í fyrra. Þar er varað við öllu þessu ástandi og ríkisstjórnin brýnd á því að ekki geti gengið svo fram sem horfði, og hefur horft og horfir enn.

Hv. formaðurinn lagði áherslu á það í ræðu sinni að festa og agi yrðu að vera í fjármálum ríkisins. Það er mikið víst og rétt en hvernig var festan og aginn í fjármálunum við afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir árið sem er að líða? Er það kannski rétt hjá mér að þau hafi hækkað milli ára um 20% með fjáraukalögunum, um 1/5, þegar öllum mönnum átti að vera ljóst að það hefði þurft að draga úr útgjöldunum um 1/5? Ég er ekki að segja að það hefði verið framkvæmanlegt en þarna tekur steininn úr.

Svo halda hæstv. ráðherrar áfram að eyða 14 milljörðum umfram eins og ekkert sé. Þetta er látið svo til alveg átölulaust, a.m.k. ekkert gert í málinu af hálfu þeirra sem hafa atkvæðin í stjórnarflokkunum.

Nei, vinnubrögðin við afgreiðslu fjárlagafrv. nú eru stórfurðuleg og sanna enn einu sinni að hæstv. ríkisstjórn umgengst þessa þjóna sína eins og henni sýnist, með óvirðingu sem mest má vera. Að yfirmennirnir í nefndinni skuli frétta það á skotspónum, eins og ég kalla þetta snakk sem var í Silfri Egils, að niðurskurður standi til og ríkisstjórnin sé tilbúin með tillögur er fyrir neðan allar hellur. Hæstv. forsrh. veigraði sér við því að fara með þær tillögur í Silfrinu, og þykir engum mikið. Það lá sem sagt fyrir að ekki væri til neins að ræða innihald fjárlaganna af því að hér ætti eftir að afgreiða höfuðatriði máls.

Mér skilst að hækkun sé á milli tveir og þrír milljarðar frá fjárln. nú en ríkisstjórnin sjálf er með --- hvað, fjóra milljarða, og líklega verður að stroka út eitthvað af því sem hv. fjárln. lagði til við þessa umræðu. Þetta eru gersamlega vonlaus vinnubrögð.

Málin standa nefnilega þannig að aðalvopnið sem ríkisstjórn á hverjum tíma hefur til að beita gegn þenslu eru fjárlög, útgjaldaliður fjárlaga, höfuðvopnið, og ég nefndi hvernig því var beitt. 20% hækkun milli ára. Og hvert stefnir það núna? Fjárlagafrv. sem lagt var fram boðaði stórhækkun. Þetta er bara smávægilegt fikt og lítils virði, það sem menn eru að velta á milli sín hér, fjárln. með hækkun upp á þrjá milljarða og ríkisstjórnin með lækkun upp á fjóra.

Á liðnu sumri lýstu tveir forustumenn iðnaðarins í landinu, formaður og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, því yfir að blindflug í efnahagsmálum væri bráðhættulegt og vísuðu því beint til hæstv. ríkisstjórnar, sögðu að hún stundaði slíkt framferði. Framkvæmdastjórinn sagði að góðærið á Íslandi væri knúið áfram með erlendri skuldasöfnun. Marka menn ekkert þessi orð? Og hvað segja okkar köldu staðreyndir um skuldastöðuna?

Bullandi gengishrap. Og svo er talað um að ekki sé beitt gömlum, úreltum aðferðum. Hvað var verið að gera þegar þeir lofuðu genginu að hrynja? Var það einhver ný aðferð í erfiðri stöðu útflutningsatvinnuveganna? Það er verið að tala um þessa gömlu aðferð, úreltu aðferð, að fella gengið til þess að rétta við hag útflutningsatvinnuveganna. Hvað skeði? Það einfaldlega skeði að menn létu það hrynja til að rétta af útflutningsatvinnuvegina, einkum og sér í lagi sjávarútveginn. Þar var gömlum aðferðum auðvitað beitt.

Ég gef mér ekki tíma til þess nú, af því sem þessi umræða er hvort sem er ómark, að fara í einstaka þætti málanna. Til þess gefst tími við 3. umr. þegar væntanlega öll kurl verða komin til grafar. En ég, forseti, kemst ekki hjá því að víkja hér að sérstöku viðtali hæstv. forsrh. við Morgunblaðið hinn 22. nóv. sl. Menn geta svo sem fengið að leiða augum hér fréttir í blöðum sem ekkert hefur verið mótmælt, ,,gjaldþrotahrina er mesta ógnunin``. Og það er upplýst að það séu ,,tvö fyrirtæki á dag sem fara á hausinn`` og ,,framtíð lánastofnana í mikilli tvísýnu``.

Það er talið að aðeins sterkustu og elstu bankarnir muni standa af sér áföllin. Og verðbréfafyrirtækin í uppnámi en ég, satt að segja, verð að játa af hreinskilni að ég hef ekki miklar áhyggjur þótt þá fjárhættuspilara setji niður. En það er kannski alveg óþarft að vera með einhverjar áhyggjur.

Það var einu sinni hér á dögum kunningi minn sem var mjög karskur maður og þóttist vita hluti betur en aðrir menn. Meðal annars þóttist hann vera viss upp á sína tíu fingur um heimsmet í íþróttum, og nú nefndi hann dæmi um heimsmet í íþróttum en kunningjarnir sem nærri voru þóttust vita betur. Hann þrætti áfram og málið komst í þverúð og heitingar. Þá sóttu kunningjarnir nýja heimsmetabók Guinness og sýndu honum að þeir hefðu haft rétt fyrir sér. Þá sagði hann: Prentvilla. Upplýsingar sem hafa birst í Morgunblaðinu eru kannski prentvillur.

[18:00]

Ef það er rétt sem hæstv. forsrh. segir í þessu viðtali þá eru allar fréttir í Morgunblaðinu um margra mánaða skeið prentvillur þar sem hefur verið rakið hvernig ástæðurnar eru í efnahagsmálunum, peningamálum og vaxtamálum. Ég skýt því hér inn í að það er dálítið ömurlegt að horfa á það þegar menn eru að reyna að draga úr verðþenslunni með ógnarlegum okurvöxtum, að þá taka þeir upp á því til þess að borga á sig í augum þjóðarinnar að birta tillögur sínar um skattalækkanir. Þetta tvennt vegur hvort annað upp. Þetta eru ráðstafanir sem ganga þvert hvor á aðra. En það þarf ýmislegt að gera þegar herðir að til þess að slá ryki í augu manna.

Með leyfi forseta, vitna ég í þessa grein, fyrst svona:

,,Davíð Oddsson forsætisráðherra`` --- hæstv. --- ,,segir að þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu megi ekki gleyma því að allar efnahagsforsendur séu í lagi.``

Annaðhvort er prentvilla, þetta eða það sem Mogginn hefur áður haldið fram. Ég held áfram að vitna:

,,Davíð segist hafa trú á að gengi krónunnar muni fara hækkandi. Mikil framlegð í sjávarútvegi og öðrum útflutningsgreinum muni fyrr eða síðar skila sér í hækkandi gengi.``

Er þá ekki ráð að halda áfram að kolfella gengið fyrst það út af fyrir sig mun gera það að verkum að gengið muni hækka síðar? Það er talað um ógnarlega framlegð sjávarútvegsgreinanna og það muni þegar það kemur fram og verður flutt til landsins orsaka hækkun gengisins. Guð láti gott á vita. Svo segir, með leyfi forseta:

,,Verðbólga á síðustu 12 mánuðum er rúm 8%, en ef litið er til skemmri tíma er hún 5--6% og stefnir í að hjaðna meira á næsta ári.``

Það var þessi hæstv. forsrh. sem stóð hérna úti á Austurvelli árið 2000 og tilkynnti að verðbólgan væri að hjaðna. Og hann segir hér, með leyfi forseta, að það sé þýðingarmikið að þessi ferill um lækkun verðbólgunnar muni ekki ruglast, og hann segir, með leyfi forseta, orðrétt:

,,Ég er því bjartsýnn á að menn muni sjá hag sínum best borgið með því að feta ekki hina gömlu slóð sem menn fóru áður.``

Sem sagt gengisfellingarleiðina. Þetta er aðalefnahagsaðgerð þeirra og sú eina raunar því þeir halda áfram að eyða og spenna eins og ekkert sé.

Með leyfi forseta:

,,Davíð sagði að þegar menn væru að tala um hugsanlega uppsögn kjarasamninga mætti draga þá ályktun að kaupmáttur væri að rýrna, en enn sem komið væri stæðu menn ekki frammi fyrir þeirri staðreynd.``

Þessu var haldið fram af hæstv. forsrh. í fjölmiðli eigi alls fyrir löngu. Morguninn eftir mætti í fjölmiðli hagfræðingur Alþýðusambands Íslands og sagði, og færði rök fyrir því, að kaupmáttur 1/3 hluta allra félaga Alþýðusambands Íslands hefði rýrnað um 5%.

Og svo, með leyfi forseta:

,,Vandamálið er það að gengið hefur sigið meira en nokkur telur vera frambærilegar skýringar á, a.m.k. á efnahagurinn ekki að leiða til þess.``

Hvað er það þá? Er það handafl þeirra? Hvað leiðir til þess að gengið fellur nema markaðurinn sjálfur? Ég held áfram, forseti:

,,Það er alveg ljóst að framlegð í sjávarútvegi og í útflutningsatvinnugreinum er að aukast gríðarlega. Fyrr eða síðar mun það skila sér í mjög hækkandi gengi. Það gæti meira að segja þurft að gæta þess að gengið hækkaði ekki of ört.``

Það er verst að enginn er hér til andsvara, en þarna er talsmaður fjárln. og ég spyr: Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að hamla gegn því að gengið hækki of ört? Ég er að vitna í hæstv. forsrh. sem sagði að það gæti meira að segja þurft að gæta þess að gengið hækkaði ekki of ört bara strax upp úr áramótunum. Ef mikil hætta er á því, hvaða gagnráðstafanir hafa þá verið gerðar? Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta. Enn, með leyfi forseta:

,,Það er ekki vafi í mínum huga að þó að þessi óróleiki sé núna og hinn svokallaði markaður sé svona undarlega stemmdur núna, kannski vegna innkaupa sem tengjast jólunum, muni gengið hækka þegar frá líður.`` (Gripið fram í: Og fylla Smáralind.)

Þá muni gengið hækka þegar frá líður. Hér er gert lítið úr hinum svokallaða markaði, einu aðalhólsatriði þessara frjálshyggjumanna, það er markaðurinn sem á að ráða og peningarnir eiga að ráða. En nú er hann bara svokallaður markaður, og svo eru menn að kaupa inn til jólanna og flytja inn allan óþarfann. Með leyfi forseta:

,,Fyrr í haust þegar gengi krónunnar féll sem hraðast og dollarinn var kominn rétt upp fyrir 100 krónur sagði Davíð að engar efnahagslegar forsendur væri fyrir þessu gengi.``

Er það í 111 kr. núna? Mér er spurn. Engar efnahagslegar forsendur væru fyrir þessu gengi. Og svo, með leyfi forseta, áfram:

,,Davíð var spurður hvort þetta hefði ekki verið rangt mat í ljósi þess að gengið hefði haldið áfram að falla og dollarinn stæði núna í 109 krónum.`` --- Eins og var 22. nóvember.

Og svarið, með leyfi forseta:

,,Ég hygg að það sem var sagt þá hafi verið rétt.``

Það er verst að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hérna svo að hægt sé að skemmta honum með því að rifja þetta upp og hnykkja enn á öllum fullyrðingunum. Hins vegar segir hann, með leyfi forseta:

,,Það tekur hins vegar tíma fyrir menn að átta sig á að gengisbreytingarnar og hátt raunverð á okkar helstu afurðum skila miklu inn nú þegar í efnahagslífið.``

Hvernig er þessu varið og hvaða breyting hefur átt sér stað í verðlagi á vöru okkar erlendis? Það hefur verið mjög gott verð á vörum okkar erlendis, gífurlega hátt verð og hagstætt. En hefur eitthvað breyst í því við það að menn hér heima fái meira fyrir dollarinn sinn í íslenskum krónum heldur en áður var, milli 30--40% hærra? Hvaða verðmætaaukning er það, með leyfi? Hvernig á að skilja þetta endemis tal?

Auðvitað var sjávarútvegurinn kominn á heljarþröm vegna þess hve mikið hefur verið tekið af fjármunum út úr þeim atvinnuvegi. Ég heyrði einhvern hv. þm. ræða það hér að 80% af öllum gjafakvótanum mun hafa skipt um hendur. Vilja menn ekki reikna út fjármunina? Allir vita að sægreifarnir hafa farið með stórfé úr landi skattfrjálst og komið því fyrir, m.a. í Lúxemborg. Þegar þeir flytja heim aftur hefur þetta hækkað í krónum um 30--40% en ekkert af þessu verður til þess að efla heildarefnahagslífið okkar. Það bjargar sjálfsagt sjávarútveginum. En meðan við fáum ekki nema sama verð í dollurum úti þá er enginn gróði hér heima fyrir þjóðfélagið sjálft. Með leyfi forseta, segir svo í þessu makalausa samtali:

,,Að vísu er það svo að helstu erfiðleikarnir hér hafa verið þeir að útlánakerfið þandist allt of hratt út og menn notfærðu sér hið nýfengna frelsi af dálítið óhóflegri gleði.``

Þarna er verið að vísa til þess að vegna hins mikla vaxtamunar hér heima og úti dældu bankarnir inn fjármunum hingað, ekki eingöngu í atvinnuvegina heldur alla einstaklinga sem um það báðu og það er rétt bráðum komið að skuldadögunum og menn vita hvernig skuldir heimilanna hafa hækkað. Áfram, með leyfi forseta:

,,Fyrirtækin eru að reyna að nota innkominn gjaldeyri til að borga niður skuldir vegna þess að bankarnir geta ekki fjármagnað þær lengur með venjulegum hætti með lántökum.``

Þetta vissu allir á liðnu sumri og frá því í vor, að bankarnir gátu ekki lánað sjávarútveginum meira. Hann var við það að stöðvast. Hvað var þá gert? Brugðið var á gamla úrelta ráðið um að hrinda krónunni fyrir borð og snarfella hana. En hæstv. forsrh. segir:

,,Þetta er allt saman í raun jákvætt, en það þýðir hins vegar að þessir peningar skila sér ekki inn á þessu augnabliki til að hækka gengið eins og þegar frá líður.``

Það var sem sagt 22. nóvember sem stóð á því að fá þessa peninga inn til þess að hækka gengið í snarheitum og eini vandinn eiginlega sem fram undan er er að það hækki ekki of ört þó að ekki fylgi röksemd fyrir því hvað mundi þá gerast. Nei, það segir hér að ekki verði gripið til efnahagsaðgerða. Með leyfi forseta:

,,Ýmsir hafa orðið til að benda á að þörf sé á meira aðhaldi í rekstri ríkisins. Davíð var spurður hvort hann tæki undir að þörf væri á meira aðhaldi í fjárlögum.

,,Menn hafa beðið um það og knúið á um það að dregið sé úr þenslu. Það er verið að gera það, en það þýðir aftur á móti að tekjur ríkisins minnka. Menn verða auðvitað að átta sig á að þeir geta ekki sett ólíkar óskir í sömu körfuna og fengið þær allar uppfylltar.````

Þeir geta sem sagt ekki farið fram á að fjárlögunum verði beitt til þess að draga úr þenslu því að þá dregur úr tekjum ríkisins og þessar óskir má ekki setja í sömu körfuna því að ekki er hægt að fá þær báðar uppfylltar. Það er mikil ábyrgð í þessu tali og áfram, með leyfi forseta:

,,Ég tel að þrátt fyrir samdrátt geti menn skilað ríkissjóði með viðunandi afgangi.``

Afgangurinn er eitt út af fyrir sig til þess að borga niður skuldir en meginmálið er það að dregið verði úr útgjaldahliðinni en ekki aukið um 20% eins og gerðist á þessu ári sem er að líða. Með leyfi forseta, orðrétt:

,,Efnahagsforsendurnar eru allar í lagi og menn þurfa að átta sig á því og skilja það.``

Efnahagsforsendurnar eru allar í lagi og menn verða að átta sig á því og skilja það. Ég endurtek að allt sem okkur hefur verið flutt um margra vikna skeið í öllum fjölmiðlum hlýtur, ef þetta er rétt, að vera prentvilla eða röng umsögn. Og áfram, með leyfi forseta:

,,Kaupmáttur hefur verið að aukast ...``

Nú er ekki eins og hér stóð fyrr í greininni að hann hafi staðið í stað og ekki rýrnað. Hann hefur verið að aukast. Það kemur ný tilkynning hér síðast í viðtalinu.

,,Kaupmáttur hefur verið að aukast, atvinnuleysi hefur minnkað og staða útflutningsgreina fer mjög ört batnandi.``

Var það að furða að það batnaði aðeins þegar sjávarútvegurinn fær 35% hærra verð í krónum fyrir dollarann sinn en áður. Áfram með leyfi forseta:

,,Afkoma og umhverfi útflutningsgreinanna er afar gott um þessar mundir. Ef þetta heldur þannig áfram efast ég ekkert um að gengið styrkist.``

[18:15]

Þá hefur nú aðeins dregið niður í því að menn þurfi að hafa sérstaka gát á sér ef gengið styrktist og hækkaði of ört. Og, með leyfi forseta:

,,Það er ekki fyrirhugað að hlaupa eftir einhverjum gamaldags aðgerðum eða reddingum eins og tíðkuðust í gamla daga.``

Tilvitnun lýkur og endanlega.

En hverjar voru ráðstafanirnar? Bara þessi eina, þetta gamla ráð um að kolfella gengið. Ekkert annað, engu hefur verið beitt, síst í að draga saman útgjöld.

Svo mörg voru þau orð, herra forseti, og ástæðulaust að þreyta þetta lengur. Það kemur að því að við höfum frammi heildartillögur með fullbúnu fjárlagafrv. og ástæðulaust að víkja að einstökum atriðum í þessu fjárlagadæmi þess vegna.

Það að allar efnahagsforsendur séu í lagi sjáum við m.a. á því hvernig þjóðfélagið logar stanslaust af verkföllum. Við sjáum það á þeirri verðbólgu sem hér er þreföld á borð við það sem er í viðskiptalöndum okkar, þreföld. Með sama áframhaldi --- með því að beita ekki fjárlögunum t.d. --- stefnir í enn hærri verðbólgu. Skuldaaukningin vegna hins gegndarlausa viðskiptahalla er nú orðin slík að við erum í erlendum skuldum komin yfir landsframleiðslu á heilu ári. Það hefur verið rifjað upp í blöðum að eitt sinn sat hér fjármálaráðherra sem tók fram að ef erlendar skuldir færu yfir 60% af landsframleiðslunni þá mundi hann segja af sér.

Nú sitja náttúrlega þeir menn sem þessu stjórna sem fastast, enda eru allar efnahagsforsendurnar í lagi. Betur að satt væri. Þá þyrfti maður ekki að bera þann ugg í brjósti sem allir hljóta að gera vegna þessarar stefnu. Enginn hlakkar yfir þessum óförum og allra síst þeir sem að þessum málum vinna og í fylkingarbrjósti standa hér á hinu háa Alþingi.