Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 20:15:17 (2011)

2001-11-27 20:15:17# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[20:15]

Gísli S. Einarsson (frh.):

Virðulegur forseti. Það er alveg hægt að virða það að hæstv. forsrh. sé upptekinn. En það er ekki hægt að virða það, virðulegur forseti, að stjórnandi forseti Alþingis skuli ekki virða þingmann meira en svo að hann meti að ekki sé ástæða til að kalla eftir hæstv. forsrh. þegar eftir því er óskað. 2. umr. fjárlaga stendur yfir og verið er að ræða efnahagsumræðuna eins og hún stendur. Ég lýsi mikilli óánægju, virðulegur forseti, með þessa afstöðu þína sem stjórnanda hér á hinu háa Alþingi.

(Forseti (HBl): Það á að segja herra forseti en ekki ávarpa forseta í 2. persónu.)

Ég lýsi mikilli óánægju, herra forseti, með þær aðgerðir sem herra forseti leyfir sér að sýna þinginu með þessum stjórnarháttum.

Ég held, virðulegur forseti, að það sé einsdæmi að stjórnandi forseti, virðulegur, leyfi sér það í upphafi máls að þegja og svara ekki beiðni þingmanns. Og í öðru lagi að meta það sjálfur að ekki sé ástæða til að kveðja til viðkomandi ráðherra sem beðið er um.

Nú bið ég, virðulegur forseti, um að hæstv. samgrh. verði sóttur í hús.

(Forseti (HBl): Ég vil geta þess að þessu gefna tilefni að ég hafði verið spurður um það fyrr í dag hvort búast mætti við matarhléi kl. 19.30. Ég sagði að svo yrði en gaf hv. þm. tækifæri til að ljúka ræðu sinni. Þegar svo leit út sem af því gæti ekki orðið frestaði ég fundi í hálftíma til að hv. þm. og aðrir gætu fengið sér snæðing.)

Það er ástæða til, virðulegur forseti, að ítreka það að virðulegur forseti sagði að hann sæi ekki ástæðu til að kalla í hæstv. forsrh. Það voru þau orð sem hér féllu. Og ég segi, og ítreka það: Það er óvirðing við hv. Alþingi að stjórnandi, virðulegur forseti, hagi sér á þennan máta.

Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir að mæta hér og taka við þeim fyrirspurnum sem ég mun bera upp. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra geti svarað þeim fyrirspurnum þegar þar að kemur og geti a.m.k. íhugað það sem hér er á ferðinni.

Undir lið 10-211 sem er Vegagerðin, liður 1.13, er rætt um styrki til innanlandsflugs, ákvarðanir ríkisstjórnar, samþykkt af ríkisstjórn og merkt ríkisstjórn. Þar er farið fram á að veitt verði 30 millj. kr. framlag til að styrkja innanlandsflug til Hafnar í Hornafirði, og í frv. til fjáraukalaga 2001 er samsvarandi tillaga um 12 millj. kr. styrk en ætlunin er að gera bráðabirgðasamning í samvinnu samgrn., heilbr.- og trn. og Tryggingastofnunar um áætlunarflug og sjúkraflug. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að stefnt verði að því að bjóða flugleiðina út og er gert ráð fyrir að útboðsferlið taki um það bil þrjá mánuði. Að því loknu og á grundvelli tilboða er áætlað að gera samning við flugrekanda um rekstur áætlunarflugs á flugleiðinni ásamt sjúkraflugi.

Ég spyr hæstv. samgrh. hvort hann telji ekki að þarna geti menn verið á viðsjárverðum brautum þegar um er að ræða aðila sem verið er að styrkja sérstaklega núna í fluginu og hvort hann telji ekki að slík greiðsla geti leitt til mismununar miðað við þá einkaaðila sem nú eru í rekstri og vilja vera á flugleiðum. Þetta er kannski meginatriðið sem ég vildi spyrja hæstv. samgrh. um. Ég hef miklar áhyggjur af þeirri þróun sem er að verða og þá ekki síst út af því sem áður hefur gerst í sambandi við rekstur vélar Flugmálastjórnar þar sem ég hef ekki getað fengið staðfest að vél Flugmálastjórnar sé með flugrekstrarleyfi til farþegaflugs. Því er eðlilegt að það blandist eilítið inn í þetta. Hins vegar reikna ég með að það mál sé í þeim farvegi að Ríkisendurskoðun muni upplýsa hvort um eðlilega notkun á umræddri vél er að ræða eða hvort hún á einhvern hátt kemur truflandi inn í samkeppnisumhverfi sem ætti að ríkja varðandi flug og flugrekstur einkaflugfélaga í landinu. Þetta eru þær spurningar sem ég hef fram að færa og þær varða ekki síst þær 30 millj. sem eru ætlaðar til að styrkja innanlandsflug til Hafnar í Hornafirði. Ég hef áhyggjur af því að mönnum sé mismunað sem standa í þessum rekstri. Annað var það ekki, virðulegur forseti, sem ég þurfti að beina til hæstv. samgrh.

Það sem ég ætla hins vegar að biðja hæstv. fjmrh., sem hér er í salnum, um að koma til hæstv. forsrh. er spurningin um hverjar þær aðgerðir eru sem hæstv. ríkisstjórn hefur gripið til vegna ábendinga Ríkisendurskoðunar sem gerir fyrirvara um réttmæti fjárheimilda í ályktun sinni á ríkisreikningi árið 2000. Það liggur fyrir að á þessu ári hefur verið stofnað til útgjalda sem ekki hafa verið heimilaðar. Því spyr ég: Til hvaða aðgerða hefur hæstv. ríkisstjórn gripið til að koma í veg fyrir brot á lögum um fjárreiður ríkisins?

Ég bendi á, virðulegur forseti, að í skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2000 segir að gerður hafi verið sams konar fyrirvari í áritun á ríkisreikningi 1999 og sá fyrirvari sem ég var að nefna. Það er ástæða til þess að um þetta sé spurt, virðulegur forseti.

Ég vil ítreka það hér sem hefur margoft komið fram að það er Alþingis að ákveða hvort stofnanir skuli veita meiri og dýrari þjónustu en núverandi fjárheimildir þeirra gera ráð fyrir. Það getur með engum hætti talist eðlileg fjármálastjórn né í samræmi við gildandi lög að samþykkja eins og hér hefur verið gert ár eftir ár viðbótarheimildir til umræddra stofnana löngu eftir að þær hafa stofnað til heimildarlausra útgjalda. Það er einn meginvandi Alþingis ár eftir ár að verið er að brjóta lög um fjárreiður ríkisins.

Það er líka ástæða, virðulegur forseti, til að beina athyglinni að því að sí og æ safnast upp hjá nokkrum stofnunum ónotaðar fjárheimildir, jafnvel yfir nokkurra ára tímabil, og það er ástæða til að beina því til hæstv. fjmrh. að slíkt hefur komið fram í nefndarálitum minni hluta fjárln. a.m.k. fimm ár í röð og svo virðist sem ekki náist tök á þeim aðilum sem telja sér heimilt að vinna á þennan hátt. Því spyr ég: Til hvaða aðgerða hefur verið gripið og til hvaða aðgerða mun verða gripið til að koma í veg fyrir að fjármunum sé ráðstafað án heimilda?

Um rekstur og efnahag ríkissjóðs er svo ástatt að frá árinu 1995 til 1996 jukust skuldir úr 330.776 millj. upp í 353.723 millj. Frá árinu 1995 til ársins 2000 hafa skuldir aukist upp í 413 milljarða, úr 330 milljörðum. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að þessar tölur eru skelfilegar að mínu mati. Það er skelfilegur vitnisburður um hvernig hefur farið hjá okkur í góðærinu.

Ég hef sagt áður að það er nauðsyn að ná stöðugleika á vinnumarkaði og þá er ég að vísa til átaka um laun. Það sem getur skapað svigrúm til launabreytinga er ekkert annað en framleiðni atvinnulífsins með vísan til þeirrar hagfræði í hnotskurn sem ég hef áður vitnað til í ræðu minni. Hæstv. ríkisstjórn verður að reka trúverðuga efnahagsstefnu með skýr markmið sem tryggja stöðugleika og lága verðbólgu, jöfnun lífskjara og tryggingu tekjutryggingar, að tekjuskiptingin milli þegnanna sé sanngjörn. Ég segi bara: Eins og efnahagsstefnan hefur verið rekin hefur ekki verið tekið mið af heildarhagsmunum. En sáttin, sem allir vita til hvers vísar, er rofin. Virðulegur forseti. Sáttin er rofin og enginn ber sök á því nema hæstv. ríkisstjórn.

Í þeim átökum sem hafa orðið um það sem er til skiptanna hafa því miður sérhagsmunir í vaxandi mæli orðið ofan á. Ég tel, og beini því til hæstv. fjmrh., að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sé ekki mótuð miðað við þarfir atvinnulífsins og forsendur kjarasamninga. Það sést best á því að verðbólgan og stöðugleikinn hefur ekki verið meginverkefni ríkisstjórnarinnar eins og ætti að vera. Í því sambandi má segja að jöfnun lífskjara sé ekki viðfangsefni þeirra skattbreytinga sem nú eru boðaðar og það er ástæða til að nefna þær skattbreytingar sem eru fram undan.

Ég tel að krónan sé orðin afgangsstærð og að menn sjái engan veginn þróun hennar fyrir lengur. Ég bíð, virðulegur forseti, eftir þeim viðbrögðum sem við sjáum þegar fjárlagasetningin gengur í gildi og eftir viðbrögðum ríkisstjórnar eftir þessa umræðu sem er í rauninni, eins og einhver sagði í dag, svolítil platumræða og þess vegna hefur hún orðið að efnahagsumræðu í staðinn fyrir að beinast beint að fjárlögum. Þó vil ég geta þess, virðulegur forseti, að ég hef haft hér við höndina skýringar við einstakar breytingar við 2. umr. fjárlaga til að geta vitnað til þeirra þegar við hefur átt.

Ég vil bara segja það að sá efnahagslegi samdráttur sem við horfum upp á beint fyrir framan nefið á okkur má ekki verða til þess að gripið verði til handahófskenndra aðgerða. Ég kalla það handahófskenndar aðgerðir ef það er rétt, sem stendur hér í blaði allra landsmanna, að grípa eigi til niðurskurðar, jafnvel á samningum sem búið er að gera. Ef upplýsingar mínar eru réttar er jafnframt búið að gera samninga um að gera nýjan hugbúnað fyrir ríkisbókhald og Landsskrá fasteigna og búið að ráða til þess allt að 30 manns í vinnu. Ég veit ekki til hvers það leiðir en vissulega væri fróðlegt ef hæstv. fjmrh. gæti einhvern tíma við tækifæri upplýst hvort rétt sé eftir haft.

[20:30]

Ótrúlegt er ef grípa á til þeirra ráðstafana sem heyrst hafa nefndar, að fresta að einhverju leyti gildistöku fæðingarorlofsfrv. Við þurfum að fá skýringar á því hvort þar sé um eitthvert fleipur að ræða eða hvort það sé alvara málsins.

Það sem mér, virðulegur forseti, er þungbærast, eftir þá góðu möguleika sem við höfðum til að viðhalda hógværum stöðugleika, er að ríkisfjármálin eru í ólestri sem er best að sjá af því að útþensla ríkissjóðs hefur vaxið á örskömmum tíma úr 20% af vergri landsframleiðslu í 25%. Ég er hér að nefna lykilatriði.

Virðulegur forseti. Ég er þá kominn að þeim kafla í ræðu minni að ég vildi gjarnan geta lagt spurningar fyrir hæstv. menntmrh. Ég óska eftir því að gerðar verði ráðstafanir til þess að hæstv. ráðherra verði við þannig að hann geti tekið á móti þeim spurningum sem ég hef til hans. Ég get að sjálfsögðu rætt önnur mál á meðan gerðar eru ráðstafanir til að ná í viðkomandi ráðherra. Af nógu er að taka, virðulegur forseti. Ég hef í hyggju að ræða um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég hef í hyggju að ræða um ástandið í framhaldsskólunum og þegar hæstv. menntmrh. birtist mun ég bera fram spurningarnar hratt og örugglega þannig að hann tefjist ekki mjög frá þeim mikilvægu störfum sem hann er að sinna. Ég skil það mætavel að þannig geti það verið og vil láta þess getið, virðulegi forseti, að hæstv. menntmrh. hefur ærið oft setið í salnum þegar rædd hafa verið fjármál ríkisins við 1., 2. og 3. umr. fjárlaga. Ég er því ekki að ásaka hæstv. menntmrh. um að hafa ekki verið viðstaddur fjárlagaumræður. En ég bíð að sjálfsögðu eftir því að fá einhver viðbrögð frá virðulegum forseta þingsins við þessari ósk minni þannig að ég geti þá ákvarðað hvort ég haldi áfram með ræðu mína í öðrum málum eða hvort hæstv. menntmrh. sé á leiðinni.

(Forseti (HBl): Hæstv. menntmrh. getur kannski verið hér eftir 20 mínútur, kannski eftir hálftíma.)

Það er alveg prýðilegt, virðulegur forseti. Það er það eina sem ég á nóg af. Ég á nógan tíma. Ég þakka fyrir það og vænti að sjá hann á þeim tíma.

Það er ástæða til þess, virðulegur forseti, að hafa áhyggjur af þeim málum sem fyrir okkur ber á hverjum tíma. Það er ástæða til að nefna Greiningarstöðina. Fulltrúar Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar komu og kynntu fyrir hv. fjárln. starfsemi stöðvarinnar og þann vanda sem stöðin býr við og einnig orsök vandans. Að sjálfsögðu var þakkað fyrir að vandanum sem verið hafði áður hefði verið eytt. En Greiningarstöðin er talin búa við mikinn og alvarlegan vanda vegna þeirrar þjónustu sem henni er ætlað að veita. Því er ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvar eru mörk þess sem Greiningarstöðin á að framkvæma? Á að gera það eftir þörfum sjúklinganna eða á að gera það miðað við framsett fjárlög? Mér er alveg ljóst að þegar búið er að ákveða upphæðina sem ætluð er til starfans á ekki að fara út fyrir þá upphæð en ég vil benda á að starfsfólk þessarar stöðvar hefur lagt mjög mikið á sig á undanförnum árum til að mæta aukinni eftirspurn.

Fjöldi skjólstæðinga og tilvísana hefur tvöfaldast á sex árum á meðan stöðugildum hefur fjölgað um 10%. Þannig er auðséð að þar er mikill vandi á ferð og ástæða til að velta því fyrir sér á hvern hátt hæstv. ríkisstjórn ætlar að mæta þeim vanda sem við blasir.

Það er líka ástæða til þess að velta fyrir sér hvernig menn ætla að bregðast við ályktun sem hv. alþm. hefur borist í hendur frá stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar. Hún ályktar að þrátt fyrir fullyrðingar stjórnvalda um almenna velmegun í landinu þá vanti verulega á að svo sé. Í ályktuninni segir, með leyfi forseta:

,,Skattar á almennu launafólki eru langt umfram það sem ætti að vera, enda hafa stjórnvöld árum saman svikist um um að efna gömul loforð sín um hækkun skattleysismarka. Ef ríkisvaldið hefði staðið við þau loforð væru skattleysismörk komin hátt í 90.000 krónur.``

Þessi svik ráðamanna þjóðarinnar hafa sett fjármál þúsunda íslenskra heimila í uppnám og oftar en ekki valdið gjaldþrotum margra þeirra.

Síðar segir: ,,Sú aðgerð núverandi stjórnvalda að hækka umtalsvert skattleysismörk hátekjuskatts kemur hinum almenna launþega ekki að neinu gagni og er einungis gróf móðgun við meginþorra launafólks. Eitt af því sem gæti bjargað fjárhag margra alþýðuheimila er að hækka almenn skattleysismörk í kr. 90.000 og láta þau síðan fylgja launaþróun í landinu.``

Fundurinn skorar á Davíð Oddsson forsætisráðherra og ríkisstjórn hans að hætta að hygla sjálfum sér og hátekjufólki með skattaívilnunum og beita sér heldur fyrir bættum hag hins almenna launamanns. Slíkt gæti orðið gott innlegg í viðræður aðila vinnumarkaðarins á komandi vetri, segja þeir. Í ályktuninni segir enn fremur:

,,Davíð getur varla verið svo veruleikafirrtur að halda að hann geti blaðrað sig endalaust frá því að laga skattalegt umhverfi almenns launafólks eftir að hafa lækkað skatta á hátekjufólki. Það verður því fyrst og fremst á hans ábyrgð og ríkisstjórnarinnar ef verkalýðsfélögin neyðast til þess að segja upp kaupliðum kjarasamninga.``

Slík bréf og slíkar ályktanir sem berast til alþingismanna hljóta að vekja áhyggjur af því sem fram undan er. Það er m.a., virðulegur forseti, eitt af því sem ég hef verið að gera hér að umtalsefni, þ.e. áhyggjur sem margir aðrir deila með mér, af því hvernig ástandið verði í febrúar komandi þegar engin lausn virðist í sjónmáli til að ná verðbólgunni niður fyrir 5,9%, eins og viðmiðunin er.

Virðulegur forseti. Ég bendi á það sem er að gerast í landinu. Það er ástæða til að ræða skýrslu um kostnað vegna þjónustu við fatlaða. Þar er nákvæmlega og vel unnin niðurstaða sem hvergi sér stað í fjárlagafrv. miðað við þau tilefni sem gefin eru af embættismönnum í viðkomandi ráðuneyti.

Virðulegur forseti. Einnig væri ástæða til að velta fyrir sér þessum spurningum: Af hverju er krónan að falla? Hvert eru peningarnir að fara? Er verið að flytja fjármuni úr landi? Ég get svarað því, virðulegur forseti. Á vissan hátt er verið að flytja fjármuni úr landi. Þegar Opin kerfi kaupa Datapoint fyrir 1.700 millj. kr. eru það kannski góð kaup en það er verið að flytja fjármuni úr landi. Það reynir á íslensku krónuna og er að fella hana. Stærstu fyrirtækjakaup í íslenskri viðskiptasögu áttu sér stað fyrir skömmu. Þar voru dugnaðarmenn að verki frá fyrirtækinu Bakkavör Group sem undirrituðu kaupsamning við eiganda breska matvælaframleiðslufyrirtækisins Katsouris Fresh Food Ltd. en með þeim kaupum verður Bakkavör Group eitt af stærstu fyrirtækjum á Íslandi. (Gripið fram í.) En hvað þýðir það, virðulegur forseti? (Gripið fram í.) Þetta þýðir að það er verið að flytja fjármuni úr landi og krónan féll við þessa aðgerð. Ég vona að frammígjammið sem heyrðist hér sé rétt, að þetta muni bætt upp þó síðar verði. (KPál: Ertu á móti sterkum fyrirtækjum?)

Virðulegur forseti. Alþingismönnum berast ýmis gögn. Hér er bréf til Morgunblaðsins. Þetta hefur legið á borði hjá mér í nokkurn tíma og ég vil, með leyfi forseta, vitna í þessa grein sem ber yfirskriftina Sætt er lof í sjálfs munni. Það er ágætt að fara með þetta á meðan beðið er eftir hæstv. menntmrh. Greinin er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

,,Landsfeðurnir hafa haft nóg að gera að hrósa sjálfum sér síðan Alþingi kom saman eftir sumarfrí. Það sem hæst ber í lofsöngnum er fjárlögin og skattamál. Fjárlögin alveg frábær, hunsuðu spá Þjóðhagsstofnunar og bjuggu til sína eigin spá sem kom alveg heim og saman við fjárlög. Það er nú kannski munur að geta haft þetta allt eftir sínu eigin höfði, þá koma skattalækkanirnar --- aðeins öflug fyrirtæki fá skattalækkanir, hin mega éta það sem úti frýs.

[20:45]

Þá eru það einstaklingar, aðeins þeir sem lentu í hátekjuskatti fá lækkun, lengra niður stigann fóru þeir ekki. Hvað segir þetta? Er hægt að tala eins og þetta sé almenn skattalækkun? Þar sem engir skattar lækka sem eru undir hátekjumörkum. Svo segja þessir blessaðir menn að ekkert land í Evrópu sé með jafnlága skatta og Ísland. Skattaparadís --- eða hvað? Þeim verður varla erfitt að bjarga andlitinu með því að selja það sem eftir er af ríkiseignum og fá inn erlent fjármagn eins og hugur þeirra hefur staðið til, og þá er ekkert mál að fórna Landssímanum, ríkisbönkunum, sjónvarpi, útvarpi og öllu því sem Ísland á og þeir hafa ekki þegar selt. (KPál: Hver á Ísland?)

Er ekki nokkuð ljóst hvers vegna þessir skattar voru lækkaðir? Hefði ekki verið eðlilegra að byrja neðan frá á skattleysismörkunum og bæta fyrir þann siðferðisbrest sem varð í því máli? Það var auðvitað aldrei meiningin að lækka skatta almennt, þótt sölumenn ríkiseigna tali eins og það hafi gerst.

Ef sölumenn ríkiseigna vildu upplýsa þjóðina um hver er munurinn á skattleysismörkum á Íslandi og hjá öðrum Evrópuþjóðum mundi það vera vel þegið. Það er að sjálfsögðu æskilegra fyrir sölumennina að gera Ísland að skattaparadís fyrir erlenda fjárfesta heldur en þá Íslendinga sem þeir hafa dæmt til að lifa undir hungurmörkunum.

Fyrir sex árum, þegar fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar komst til valda, voru það þeirra fyrstu verk að hækka eigin laun, lækka skattleysismörkin og ákveða að laun aldraðra og öryrkja skyldu ekki lengur fylgja almennri launaþróun heldur geðþóttaákvörðun stjórnvalda. (KPál: Hefurðu neitað laununum þínum?) Þetta hefur valdið því, að þessir hópar hafa dregist langt aftur úr í launaþróun sem síðan hefur haft örlagaríkar afleiðingar fyrir marga einstaklinga eins og sýnir sig best á því hve margir hafa leitað til hjálparstofnana.``

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson þarf að vera að gjamma fram í á meðan ég er að lesa þetta viðkvæma bréf frá einstaklingi sem skrifaði Morgunblaðinu og ég er að vitna í það að svona er hugsunin hjá mörgum og ástæða er til að ræða það þegar við ræðum efnahagsmál. (Gripið fram í.)

,,Þetta hefur valdið því, að þessir hópar hafa dregist langt aftur úr í launaþróun sem síðan hefur haft örlagaríkar afleiðingar fyrir marga einstaklinga eins og sýnir sig best á því hve margir hafa leitað til hjálparstofnana. (Forseti hringir.)

Skyldi nokkur treysta sér til að lifa af þessum tekjum, sem þokuðust um eitt hænufet á liðnu vori ...

(Forseti (HBl): Það ber að biðja forseta leyfis hverju sinni sem vitnað er til skrifaðs máls.)

Virðulegur forseti. Í upphafi máls óskaði ég leyfis forseta til að vitna í ritað mál. Ég stoppaði ...

(Forseti (HBl): Forseti gefur ekki leyfi í eitt skipti fyrir öll, heldur ber að biðja um leyfi í hvert sinn.)

Virðulegur forseti. Ég held þá áfram lestrinum, með leyfi forseta:

,,Skyldi nokkur treysta sér til að lifa af þessum tekjum, sem þokuðust um eitt hænufet á liðnu vori --- náðu því að verða 65.132 kr., hækkun um rúmlega 200 kr. með nýjum heilbrigðis- og tryggingaráðherra Framsóknar. Það er sem sé ófrávíkjanlegt lögmál hænsnfugla að fara eitt lítið hænufet, þegar það hentar þeim. Þetta er ekki einungis smánarblettur á þeim ríkisstjórnum sem nú hafa setið í sex ár, heldur einnig íslensku þjóðarinnar. Það er erfitt að átta sig á hvernig svona lagað getur gerst hjá þjóð, sem vill telja sig meðal mestu menningarþjóða heims og er eða hefur verið talin meðal þeirra ríkustu. En svona er þetta bara, ekkert virðist geta breytt því, að minnsta kosti ekki svo lengi sem þessir stjórnarherrar sitja við völd og meðan þjóðin er í þessu ömurlega kviksyndi pólitískt séð. Það er til orðtak sem segir þangað sækir klárinn sem hann er kvaldastur og það virðist eiga einkar vel við íslensku þjóðina um þessar mundir. (KPál: Kemur þetta frá eigin brjósti?)

Lokaorð. Ég skora á Alþingi eða stjórnarandstöðuna að taka skattleysismörkin til rækilegrar athugunar. Það er ekki vansalaust fyrir Alþingi að hafa litið þetta ófremdarástand allan þennan tíma. Ég hefði haldið að skattleysismörk ættu að miðast við það sem hægt væri að láta duga til framfærslu. Treysta alþingismenn sér til að láta duga 65.132 kr. á mánuði? Þessu svívirðilega ranglæti verður að ljúka. En kannski er ekki ofmælt að margir séu siðblindir.``

Undir þetta ritar kona sem heitir Aðalheiður Jónsdóttir.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið tilvitnun í þessa grein og hv. alþm. Kristján Pálsson leyfir sér að gera grín að einstaklingi sem býr við sultarmörk og kvartar við Alþingi. (KPál: Ég var ekki að gera grín ...) Á sama tíma gjammar viðkomandi hv. þm. fram í í tíma og ótíma þegar svona viðkvæmt mál er uppi. Ég held, herra forseti, að frekar væri ástæða til að áminna viðkomandi þingmann, hv. þm. Kristján Pálsson, um að þegja meðan verið er að lesa slíkt mál sem hér var flutt. (KPál: Þú ert að misnota viðkvæmt bréf.)

Ástæða er til að nefna, virðulegur forseti, að Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum fjallað mjög ítarlega um rekstrarvanda heilbrigðisstofnana. Ýmislegt hefur gerst á heilbrigðisstofnunum, menn hafa náð betri tökum á vandanum sem verið hefur við reksturinn. Komið hefur verið á móti af sanngirni um tíma a.m.k. varðandi vanda þeirra, en nú virðist mér að allt sé að stefna á sama veginn og var fyrir þremur og hálfu ári þegar fjárln. beitti sér fyrir því að laga þann grunn sem heilbrigðisstofnanirnar urðu að búa við. Það horfir til þess, virðulegur forseti, eftir því sem ég fæ best séð, að ef allt fer sem horfir verði u.þ.b. 1 milljarðs vandi í heilbrigðiskerfinu þegar kemur fram á mitt næsta ár. Ég vara við þeirri þróun sem virðist stefna í og það er ástæða til að menn bregðist við þeim vanda sem uppi er.

Nú spyr ég virðulegan forseta: Hvað líður komu hæstv. menntmrh. í hið háa Alþingi? Hefur forseti einhverjar spurnir af því hvort hæstv. menntmrh. hafi orðið veðurtepptur á leiðinni eða fest í skafli eða hvort hann er að koma í hús?

(Forseti (HBl): Ég sagði hv. þm. að von væri á ráðherra eftir 20 mínútur til hálftíma og hálftími er ekki liðinn. Hæstv. ráðherra er stundvís maður og við því er að búast að hann kunni að koma hvenær sem er. En hv. þm. liggur mikið á hjarta svo það kemur ekki að sök þó einhver dráttur verði.)

Það er álit virðulegs forseta og það er ekki hans, virðulegs forseta, að meta hvað undirrituðum liggur á hjarta. Það er ekki hæstv. forseta að meta það. Hæstv. forseti á að vera hér til þjónustu fyrir þingmenn jafnvel þó að úr stjórnarandstöðu séu. (KPál: Samgrh. er í húsinu.) Og enn gjammar hv. þm. Kristján Pálsson.

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fara yfir mörg afglöp sem hafa átt sér stað í gegnum tíðina. Fyrir u.þ.b. tíu árum var bent á að viðveruskráning í stofnunum ætti að vera á þann veg að menn stimpluðu sig inn eða það væri skráð þegar þeir kæmu til vinnu og færu frá vinnu. Enn þann dag í dag er ástandið þannig þegar Ríkisendurskoðun var að skoða það mál að stimpilklukka er jú notuð til að fylgjast með viðveru starfsmanna hjá meiri hluta þeirra stofnana sem athugunin náði til. En samkvæmt vinnuskýrslum er það u.þ.b. fjórðungur sem skráir viðveru með öðrum hætti og ástæða er til að gera athugasemdir við það.

Það eru allt of margir sem telja sig vera frjálsa að því hvenær þeir mæta og hvernig þeir mæta í vinnu og búið er að gera athugasemd af hálfu Ríkisendurskoðunar æ ofan í æ, og er ástæða til að beina því til hæstv. ríkisstjórnar að þarna sé málaflokkur sem enn þurfi verulegs átaks við ásamt því sem ég fór með hér áðan, uppsafnaðar ónotaðar heimildir, jafnvel til margra ára í senn og oftast nær af sömu stofnunum. (Gripið fram í.) Þetta eru þau mál sem m.a. væri ástæða fyrir hv. þm. Kristján Pálsson að reyna að kynna sér.

Sama gildir um áætlanagerð og fjármálastjórn. Þar er bent á að pottur sé brotinn í þeim málum æ ofan í æ hjá mörgum stofnunum og ráðuneytum og er ástæða til að lagfæra þar. Einnig má velta fyrir sér ráðningarsamningum sem gerðir hafa verið. Það má einnig velta fyrir sér því sem ég nefndi í ræðu minni, virðulegur forseti, sem er eitt af því feitmeti sem mætti skera af.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir, með leyfi forseta, að í meginatriðum hafi aðalaskrifstofur ráðuneytanna fylgt settum reglum um greiðslur á ferðakostnaði vegna ferða erlendis á vegum ríkisstofnana. Ferðareikningar voru almennt greinilega sundurliðaðir, útfylltir og áritaðir af öllum ráðuneytum. Þó var gerð athugasemd við að skil á ferðareikningum væru ekki innan tilskilinna tímamarka hjá, virðulegur forseti, menntmrn., félmrn., iðnrn., viðskrn. og umhvrn. Einnig voru ýmsar athugasemdir gerðar við skoðun ferðareikninga vegna ferða erlendis hjá landbrn.

Virðulegur forseti. Þessar og sambærilegar athugasemdir hafa margoft komið fram frá Ríkisendurskoðun, og er ástæða fyrir hæstv. ríkisstjórn til að taka á þessum málum. Því er þetta fært í tal hér.

Enn, með leyfi forseta, segir:

,,Hjá nokkrum ráðuneytum hafa verið í gildi reglur sem kveða á um að starfsmenn þeirra sem eru í fylgd með ráðherra fái sömu kjör og ráðuneytisstjóri, þ.e. fái greidda gistingu og 80% dagpeninga. Ríkisendurskoðun telur að þetta sé ekki í samræmi við reglur um ferðakostnað. Í þeim tilvikum þar sem starfsmenn þurfa að vera í gistingu sem er verulega dýrari en gistihluti dagpeninga þá á að greiða fyrir gistingu auk almenns hluta dagpeninga.

Ríkisendurskoðun bendir á að greiðsla dagpeninga er hugsuð sem endurgreiðsla á útlögðum kostnaði en ljóst er að í mörgum tilvikum eru dagpeningar hærri en honum nemur. Ríkisendurskoðun telur að endurskoða þurfi reglur um ferðakostnað þar sem meginregla verði að útlagður kostnaður sé endurgreiddur.``

Virðulegur forseti. Ég get mætavel tekið undir athugasemdir hv. þm. Péturs Blöndals varðandi þessi atriði. Spurningin er hvort búið sé að missa þarna eitthvað úr böndum og það sé öðruvísi en ætlast var til, a.m.k. er það samkvæmt ábendingum Ríkisendurskoðunar.

Einnig má benda á að ferðakostnaður vegna ferða innan lands hjá aðalskrifstofum ráðuneytanna jókst um 5,4 millj., um 30% vegna ferða innan lands. Þetta er ástæða til að skoða ásamt svo mörgu sem er í þessari ágætu skýrslu sem ég hef verið að vitna til og mun halda áfram að gera þangað til í ljós kemur hvenær hæstv. menntmrh. hugnast að koma hér í hús og nú er liðinn sá tími ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill upplýsa hv. þm. um að nú gengur hæstv. menntmrh. í salinn.)

Takk fyrir, virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að koma hér. Ég gat um það í ræðu minni að hæstv. menntmrh. hafi á undanförnum árum verið manna iðnastur við að sitja hér og fylgjast með þeim umræðum sem eru um efnahagsmál þó að hann hafi verið vant við látinn í dag. En ástæða þess að ég óska eftir hæstv. menntmrh. er að ég vil spyrja um lausnir á þeim vanda sem blasir við í stofnunum eins og hér eru nefndar, með leyfi forseta: Menntaskólanum í Kópavogi, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Fjölbrautaskólanum á Norðurlandi vestra. Þar að auki vil ég nefna þann vanda sem Fjölbrautaskóli Vesturlands býr við, þ.e. 40 millj. kr. halla. Rekstrarhalli á þeim stofnunum sem hér er getið um er frá 40 millj. upp í 120 millj. og það er mikil og brýn nauðsyn að leysa úr rekstrarvanda þessara stofnana. Því vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. menntmrh.: Hvenær sér virðulegur menntmrh. fyrir sér að reiknilíkan framhaldsskólanna verði það mótað að hægt verði að nota það við þessa mjög svo misjöfnu skóla sem reiknilíkanið á að vinna fyrir? Þegar ég tala um misjafna skóla, þá er ég að horfa til mismunandi nemendafjölda í þessum mismunandi skólum, mismunandi tæknibúnað sem þarf við þessa skóla og sem kallar á mjög mismunandi mikið fjármagn.

Ég vil benda á að fjárskorturinn er farinn að há nemendum, ekki bara við nám heldur einnig í félagsstarfi og vegna þess að mér er kunnugt um að til eru uppsafnaðar heimildir upp á nærri 400 millj. kr. þá er ástæða til að fara að grípa inn í og ég veit að hæstv. menntmrh. er sammála um að það þarf að gera hið fyrsta.

Ég get bent á að nemendur í fjölbrautaskólum utan Reykjavíkur búa við það að þurfa að vera einni önn lengur í skóla vegna þess að það er ekki hægt að halda áfram með það nám eða þá kennslu sem viðkomandi nemandi hefur verið að sækja eftir og hefur verið í. Bara til að nefna dæmi, þá var ekki hægt að fá frönskukennslu í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi vegna þess að þar var um of fáa nemendur að ræða svo eitt dæmi sé nefnt í þeim tilvikum og ég veit að hæstv. menntmrh. er kunnugt um að mörg slík atriði hafa komið upp. En það er skilningur, auðvitað hlýtur að vera skilningur á því að ekki er hægt að halda úti bekkjardeild með tveimur eða þremur nemendum. En eitthvað þarf að gera í málinu og það er spurning á hvern hátt á að leysa það.

Virðulegur forseti. Ég hef náð því að beina þeim spurningum til hæstv. ráðherra sem ég tilgreindi að ég mundi biðja um að vera viðstadda og ég greindi frá því að ég mundi biðja um með þægilegum fyrirvara þannig að menn gætu brugðist við og komið hér. Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka þeim hæstv. ráðherrum sem komu í samræmi við þá beiðni sem ég lagði fram. En ég lýsi miklum leiðindum yfir viðbrögðum hæstv. virðulegs forseta Alþingis, sem sumir kalla fyrsta forseta. Þau viðbrögð tel ég að hafi verið, virðulegur forseti, óviðunandi að hafna því og dæma það frá eigin brjósti að ekki væri ástæða til að kveðja hæstv. forsrh. til umræðunnar.