Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 21:29:04 (2020)

2001-11-27 21:29:04# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[21:29]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í þessu andsvari vil ég gera að umræðuefni þá upptalningu hv. þm. á sérstökum verkefnum sem heyra flestöll undir fjárlagalið 919 Söfn, ýmis framlög. Ég rifja það upp, herra forseti, að í fjárlagafrv. var þessi fjárlagaliður lækkaður frá fyrra ári um 106 millj. kr. Meðal þess sem tekið var út af fjárlagaliðnum var Galdrasýning á Ströndum, Sögusafn í Reykjavík, Sögusetur á Hvolsvelli, endurbygging vélbátsins Blátinds, Hvalamiðstöðin á Húsavík, Síldarminjasafn á Siglufirði, Faktorshús í Neðstakaupstað og endurbygging Tryggvaskála á Selfossi.

Síðan gerist það að fjárln. setur alla þessa liði, sem ég hef tínt til, aftur inn í formi breytingartillagna og hækkar þannig liðinn. Ég á sæti í hv. menntmn. þingsins og menntmn. fékk til umsagnar ákveðnar umsóknir á safnliði ráðuneytisins. Menntmn. var treg til að gefa umsagnir af því að hún hafði reynt á fyrri árum að fjárln. hækkaði iðulega safnliði eftir að menntmn. hefur skilað tillögum sínum. Nú hafði menntmn. ekki þetta svigrúm þegar hún fjallaði um tillögur eða úthlutanir af safnliðum sem fjárln. síðar gaf sér.

Nú vil ég spyrja hv. þm.: Býst hann við að þessir liðir, sem einu sinni voru skornir út en eru settir aftur inn, verði áfram inni við 3. umr.? Eru þetta tillögur sem þingmaðurinn hefur trú á að nái fram að ganga?

Í öðru lagi: Hvers vegna fékk menntmn. ekki tækifæri til að veita umsögn um þá liði sem hv. þm. fjallaði hér um? Hvers vegna fékk menntmn. ekki þetta svigrúm sem fjárln. gaf sér?