Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 21:31:16 (2021)

2001-11-27 21:31:16# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[21:31]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hvort þessar tillögur muni verða áfram inni í fjárlagafrv. við 3. umr. Ég á ekki von á öðru, en ég get að sjálfsögðu ekki lofað fyrir neinn nema mig. Ég mun að óbreyttu, ef ekki koma fram nýjar upplýsingar, styðja það að þær tillögur verði í frv. og að það verði að lögum með þessum breytingum.

Fjárln. hefur alltaf haft heimildir enda er fjárln. með þær heimildir í sínum höndum að bæta inn framkvæmdum eða breytingum á ýmsum liðum ef hún hefur talið það réttlætanlegt. Það var einu sinni þannig, og ekki mjög langt síðan reyndar, að fjárln. fór með allar umsóknir og fagnefndirnar höfðu ekkert með það að gera í flestum tilvikum, nema þá gamla menntamálaráðið og nú menntmn. varðandi úthlutun listamannalauna eða eitthvað slíkt, en að mestu leyti hefur þetta verið þannig að fjárln. hefur haft með allt þetta að gera. Það var síðan, ef ég man rétt, fyrir þremur eða fjórum árum að fagnefndirnar fengu til sín stóran hluta af því sem sneri að sérsviði þeirra.

Oft hefur verið rætt um það í fjárln. hvort ástæða sé til að halda því áfram vegna þess að fagnefndirnar taka því illa ef eitthvað er verið að gera öðruvísi en þær vilja. En auðvitað er þetta meira hugsað, a.m.k. lít ég svo á, sem ráðgjöf sem ekki endilega er skylda að fara eftir --- en betur sjá augu en auga.