Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 22:24:18 (2025)

2001-11-27 22:24:18# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[22:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég gæti tekið undir þær óskir sem settar hafa verið fram af fyrri ræðumönnum, t.d. þeim sem hér talaði í kringum kvöldmatarleytið, að æskilegt væri að hæstv. ráðherrar og formenn stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., væru viðstaddir þessa umræðu. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að þessir hv. þm., hæstv. ráðherrar, ættu að sjá sóma sinn í að vera hérna óumbeðið eins og aðstæður eru við þessa fjárlagaumræðu. Auðvitað ættu fagráðherrar að hafa það sem reglu að vera við 2. umr. fjárlaga hið minnsta þegar hin efnislega umræða um einstaka málaflokka fer fram og útgjöld eru, ef allt er með felldu, ákvörðuð til þeirra ráðuneyta.

Og það er auðvitað, herra forseti, umhugsunarefni fyrir okkur öll hvernig sambúð Alþingis og ríkisstjórnar er orðin, og sést m.a. í þessu og á framkomunni við fjárln. hverjir telja sig hafa völdin hér í landinu og hverjir telja sig þurfa að vera upp á Alþingi komnir.

Ef ég heyrði rétt svaraði hæstv. forseti, sá sem þá var á stóli, hv. þm. Gísla Einarssyni þannig hér fyrr í kvöld að hann sæi ekki ástæðu til að kveðja hæstv. forsrh. til fundar og upplýsti síðan að hæstv. forsrh. væri á förum til útlanda og hann mundi ekki fara að standa fyrir því að kveðja hann hingað í þingsal. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér blöskrar þetta. Mér blöskrar að borið sé á borð fyrir okkur að af því að hæstv. forsrh. kunni að vera að fara til útlanda á morgun eða hinn daginn sé hann bara heima að pakka og megi ekki vera að því að koma hingað í þingið og sinna þingskyldum sínum eins og aðrir. Ég segi bara alveg eins og er að þessum mönnum er ekki vandara um en okkur hinum að hafa sig í það að vera hér í sinni vinnu. Það er ansi langt gengið, herra forseti, ef menn neita óskum um að ráðherrar komi hingað og séu viðstaddir umræður um fjárlög. Þá er skörin farin að færast upp í bekkinn.

Og ég spyr, herra forseti: Mega þessir menn vera að því að stjórna landinu, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh.? Ja, þeir sjást ekki mikið hér. Og ég tek það ekki gilt að mennirnir geti ekki vaknað í fyrramálið og farið til útlanda ef það er það sem fyrir þeim liggur og verið hér samt á kvöldfundi. Ég mótmæli því, herra forseti, að þessir hv. þm. og hæstv. ráðherrar skuli ekki sjá sóma sinn í að vera hér.

Einhvern tímann hefði verið beðið um hæstv. ráðherra af minna tilefni en því að þeir eru margsaga í viðtölum við fjölmiðla nú um helgina og í dag um stöðu fjárlagavinnunnar, hvað sé í vændum varðandi niðurskurð á ríkisútgjöldum og annað í þeim dúr. Þannig segir til að mynda hæstv. forsrh. í viðtali við Morgunblaðið, og ekki lýgur Morgunblaðið eða hvað? Allra síst skulum ekki reikna með að Morgunblaðið ljúgi upp á formann Sjálfstfl. En þar er, með leyfi forseta, haft eftir hæstv. forsrh.:

,,Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í ljósvakamiðlunum í gær að fjárlögin yrðu skorin niður um 3--4 milljarða við lokaafgreiðslu þeirra og niðurskurðurinn næði til allra ráðuneyta.`` --- Punktur. Engir fyrirvarar. Þetta er svona, segir forsætisráðherra.

Hvað segir hæstv. utanrrh. í næstu setningu?

,,Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir að starfshópurinn hafi skilað ákveðnum tillögum sem verði ræddar á næstu dögum. Ekkert sé enn frágengið og þingmenn hafi ólíkar hugmyndir um hvar bera skuli niður í niðurskurðinum.``

Er mikill samhljómur í þessu? Hvað segir hæstv. fjmrh.? Er búið að afmunstra hann? Kemur honum þetta ekki við? Ja, það mætti halda það. Ég hef ekki heyrt tíst í hæstv. fjmrh. um þessi mál og á þó að heita svo að málaflokkurinn heyri undir hann, fjárlög ríkisins og fjárlagagerðin af hálfu ríkisstjórnar. Hann hefur líklega ekki komist í sjónvarpið um helgina, ekki komist í útvarp, þannig að hann hefur ekki getað flutt þjóðinni boðskapinn um hvað í vændum sé því það er ekki til siðs að tilkynna slíkt hér á þingi. Nei, það skal gert í gegnum fjölmiðlana og helst áður en þingmenn hafa hugmynd um hvað er að gerast.

Svo kemur hv. formaður fjárln. og sperrir sig í ræðustólnum í dag og talar drýgindalega um hið veigamikla hlutverk fjárln. en sat við útvarpið eða framan við sjónvarpið eins og þægur stubbur um helgina og tók við tilkynningunum frá ráðherrunum. Þannig er þetta, herra forseti, og þarf ekkert að vera að mylja það neitt með sér. Þetta er svona.

Það koma tilskipanir frá forsrh. og það er bersýnilegt af þessum textum að meira að segja formaður hins stjórnarflokksins vissi ekki hvað var í vændum. Það þarf ekki mikla reynslu af þátttöku í stjórnmálum til að sjá að formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., er hér á kurteislegan hátt að segja að forsrh. hafi ekki haft neitt umboð til þess að tala í framsöguhætti eins og hann gerði í sjónvarpsþáttum um helgina. Það er allt óákveðið. Það er verið að byrja að ræða tillögur, segir hæstv. utanrrh., og menn eru sammála sumu og ósammála öðru. Er þá ekki útkoman ófyrirséð? Jú, auðvitað. Verða þetta þá endilega þrír eða fjórir milljarðar? Hver veit? Og hvar koma þeir niður? Hjá öllum ráðuneytum eins og forsrh. segir? Hver veit það?

[22:30]

Hvorum á að trúa? Á ég að vitna betur í hæstv. utanrrh.? Hvar er hæstv. utanrrh. --- er hann kannski farinn úr landi líka? Ætlar hann að fara svona sem skírari á undan forsrh. úr landi? Þeir eru stundum erlendis samtímis. Ég spyr aftur: Mega þessir menn vera að því að stjórna landinu, herra forseti? Þeir mega alla vega ekki vera að því að sinna skyldum sínum í þinginu. Er ekki hægt að senda menn heim og hjálpa forsrh. að pakka þannig að hann verði fljótari að því og komist hingað niður eftir. Það væri hægt að troða ofan í eins og eina tösku handa honum ef það er vandamálið hér í kvöld.

Hæstv. utanrrh. segir áfram í Morgunblaðinu:

,,Þetta er allt enn á umræðustigi og við erum enn að velta á milli okkur hugmyndum. Sumt finnst okkur koma til greina en ekki annað.``

Hver segir þetta? Það er hæstv. utanrrh., formaður annars stjórnarflokksins sem talar þannig að það er algjörleg bersýnilegt að af hans hálfu, að hans mati, mati annars stjórnarflokksins er þetta algjörlega óútkljáð, óákveðið. Er boðlegt, herra forseti, að láta svo 2. umr. fjárlaga fara fram við þessar aðstæður? Ég segi nei.

Enn má vitna í þessa kostulegu texta sem Morgunblaðið hefur eftir utanrrh. og innan gæsalappa:

,,Þetta hefur borið nokkuð brátt að ...``, segir hæstv. (Forseti hringir.) utanrrh.

(Forseti (HBl): Hv. þm. á að biðja leyfis forseta í hvert ...)

Það var margbúið að biðja um leyfi, herra forseti. Áður en (Forseti hringir.) að þessi forseti kom í forsetastólinn var ég búinn að biðja um leyfi forseta til að vitna í þessa texta úr Morgunblaðsinu.

(Forseti (HBl): Ég vil áminna hv. þm. um að hlíta þingsköpum og honum ber í hvert skipti sem hann vitnar til prentaðs máls að óska eftir leyfi forseta.)

Herra forseti. Ég held að það væri hyggilegt fyrir forseta að kynna sér hvað farið hefur fram í forsetastóli og í þingsalnum áður en forseti kom þangað. Ef það er svo að það þurfi að biðja um leyfi til þess að lesa í eina tiltekna prentaða heimild í hvert einasta skipti þá eru það nýjar þingvenjur. Ég hélt að venjan væri sú að þegar maður hefði með leyfi forseta hafið að vitna í tiltekið prentað mál þá gæti maður gert það og skotið inn í setningum. En ef hæstv. forseti vill hafa þetta svona í kvöld þá skal ég verða við því.

(Forseti (HBl): Ég vil segja við hv. þm. að hann á að hlíta þingsköpum. Það er afdráttarlaust í þingsköpum að í hvert skipti sem vitnað er í prentað mál ber að biðja forseta leyfis. (SJS: Já, herra forseti.) Ég vil biðja hv. þm. að halda sig við þingsköp svo að óþarfi sé að veita honum oftar áminningu.)

Hefur forseti lokið máli sínu?

Herra forseti. Það er ekki í fyrsta skipti nú að sá sem hér talar verður fyrir því að sá virðulegi forseti sem nú situr á forsetastóli leggur sig fram um að hjálpa mér að fá að flytja mál mitt í samfellu án þess að ég sé mikið truflaður. Það er ekki í fyrsta skipti og eftir því er auðvitað tekið. Ég mun að sjálfsögðu reyna að halda mig við þingsköpin í allra þrengstu merkingu þeirra og eins og hæstv. forseta þóknast að túlka þau í kvöld. Ef það er verulega frábrugðið því sem venja er þá bið ég um leiðbeiningar þannig að ég geti orðið við óskum forseta um að viðhafa þá aðferð sem hæstv. forseta býður í skap hverju sinni.

(Forseti (HBl): Ég vil benda hv. þm. á að í 58. gr. þingskapa stendur:

,,Eigi má, nema með leyfi forseta, lesa upp prentað mál.``

Ég vil biðja hv. þm. án útúrsnúninga að halda sig við þingsköp.)

Herra forseti. Ég hafði sem sagt beðið þann forseta sem var á stóli, áður en núv. hæstv. forseti kom þangað, leyfis um að vitna í þetta prentaða mál í Morgunblaðinu, tvívegis ef ég man rétt. Að sjálfsögðu voru ekki gerðar athugasemdir við það þannig að öllum sem á mál mitt hlýddu hér í salnum var ljóst að ég var ítrekað að vitna í þessa texta úr frétt í Morgunblaðinu í dag. En ég skal gera það áfram ef ég má, með leyfi virðulegs forseta, Halldórs Blöndals, 1. þm. Norðurl. e., með mikla þingreynslu, vitna í Morgunblaðið í dag. Vill forseti gera mér ljóst hvort þetta sé leyft.

(Forseti (HBl): Hv. þm. ber hverju sinni að óska leyfis forseta sem vitnað er í prentað mál.)

Já, ég held að það sé vissara að fá líka staðfest að leyfið sé veitt eins og liggur á forseta í kvöld.

Með leyfi forseta, segir hæstv. utanrrh. áfram:

,,Þetta hefur borið nokkuð brátt að ...``

Hingað var ég kominn, herra forseti, þegar forseti truflaði mig áðan og í það hafa farið einar fimm mínútur.

,,Þetta hefur borið nokkuð brátt að og við fengum þessar hugmyndir um helgina.``

Þetta segir hæstv. utanrrh. í viðtali við Morgunblaðið í dag sem ég hef nú vitnað í, með leyfi forseta.

Og hvað er verið að segja þarna? Hæstv. utanrrh. er að segja að hugmyndir um 3--4 milljarða niðurskurð á fjárlögum hafi komið upp um helgina. Þeir hafi bara fengið þessa flugu í höfuðið, því hafi bara slegið inn. Það er verst að vita ekki hvort þetta var á laugardagskvöldið eða fyrri part sunnudagsins sem þeir fengu þessa snjöllu hugmynd, að fara í niðurskurð á fjárlögunum upp á 3--4 milljarða króna.

Þetta er auðvitað þannig, herra forseti, að allar kringumstæður þessa máls eru stórkostlegar, ótrúlegar. Svo er verið að reyna að segja okkur að þetta sé allt saman mjög yfirvegað, útreiknað og pælt --- ha! En er það ekki svolítið svona merkilegt að þeim skyldi bara allt í einu detta í hug um helgina að fara í að skera niður fjárlögin um 3--4 milljarða? Ja, það er a.m.k. alveg á hreinu að hæstv. utanrrh. var ekki með það í kortunum fyrr en þarna var komið að þetta gæti verið sniðugt. Og reyndar er hæstv. utanrrh. svo hreinskilinn að viðurkenna að það hefði nú kannski verið betra að vera búinn að þessu áður en 2. umr. fjárlagafrv. færi fram, en það sé sennilega betra að hafa hana á tilskildum tíma og láta sig hafa það að sullast í gegnum hana með aðstæður allar eins og raun ber vitni.

Efnahagsaðstæðurnar, herra forseti, í kringum afgreiðslu þessa fjárlagafrv. eru náttúrlega þannig, eins og margoft og rækilega hefur verið lýst og þegar í haust var farið að blasa við og hefur reyndar verið fyrirsjáanlegt um eins til tveggja ára skeið, að það gat aðeins verið tímaspursmál hvenær efnahagsástandið á Íslandi hlaut að snarversna. Ég held að öllum hugsandi mönnum sé ljóst að ekki gat haldið áfram sem horfði. Í raun og veru er nokkurn veginn öruggt mál að því fyrr sem menn hefðu séð að sér og farið að takast á við þessa erfiðu glímu, sem það verður að ná aftur tökum á efnahagsstjórn og hagstjórn í landinu, þeim mun auðveldara hefði það orðið.

Það munar um hvert árið, herra forseti, sem keyrt er áfram í 8--10% viðskiptahalla miðað við landsframleiðslu. Það munar um hverja 50--80 milljarðana í erlendum skuldum sem bætast við á ári með slíku áframhaldi. En á þetta var auðvitað ekki hlustað. Þess vegna er svo komið að uppsafnaður viðskiptahalli á sl. fjórum árum, að viðbættu því sem nú er spáð að verði á næsta ári, því sem þetta fjárlagafrv. tekur til, verður um 250 milljarðar kr. Það verða fjárlögin eða þar um bil svona í grófum dráttum, ein íslensk fjárlög sem orðin eru uppsafnaður viðskiptahalli á þessu fimm ára tímabili. (Gripið fram í.) Það tekur nú í að hafa slegið fyrir fjárlögunum erlendis á eins og fimm árum.

Við fórum yfir meiri og kannski enn þá afdrifaríkari vatnaskil síðasta sumar þegar hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins í heild fór yfir 100%, fram úr þessum 740--750 milljörðum kr. sem landsframleiðslan verður á þessu ári og stefnir í 112--115% eða a.m.k. vel yfir 110% í lok þessa árs.

Hagsveiflan, herra forseti, hefur sem sagt snúist við. Þá gerist það sem hefur verið fyrirsjáanlegt og er vel þekkt og hæstv. fjmrh. ætti að vita manna best um núna, að tekjur ríkissjóðs dragast hratt saman en útgjöldin halda áfram að aukast. Það er nákvæmlega það sem er að gerast núna, það sem gerðist þegar við gerðum upp ríkisreikning síðasta árs og á eftir að koma enn betur í ljós þegar öll kurl koma til grafar frá yfirstandandi ári, að tekjur ríkissjóðs eru á hraðri niðurleið og nú er tekjuhliðin ofmetin en gjaldahliðin vex. Nú verður ekki eins gaman að vera fjmrh., nú verður það ekki eins létt.

Og ég spái því, herra forseti, að þegar þetta fjárlagafrv. verður gert upp verði því lokað eitthvað nálægt þeim nótum sem nú er verið að tala um, með sýndarmennskuafgangi upp á nokkra milljarða króna, eftir rúmt ár mun það reynast í verulegum mínus. Það er næstum því alveg borðleggjandi eins og hagsveiflan teiknar til allra hluta nú um stundir.

Það versta, herra forseti, við þetta er auðvitað að þessi kreppa, þessi vandi, er að því leyti öðruvísi en erfiðleikatímabil á umliðnum árum, ef við tökum tvö, þrjú síðustu erfiðleikatímabil, að hún er að langmestu leyti heimatilbúin. Þetta er ekki sambærilegt við erfiðleikaárin 1968 þegar síldin hvarf. Hún er ekki horfin. Þvert á móti er verið að veiða heldur meira af síld. Það gengur að vísu illa á vertíðinni þessar vikurnar út af brælu og ógæftum og dyntóttri síld en stofninn er til staðar.

Þetta er ekki eins og þegar olíuverðsprengingin mikla setti hér allt úr skorðum 1974. Þetta er ekki eins og þegar Íslendingar urðu að hætta loðnuveiðum í heilt ár 1982. Þetta er ekki eins og þegar við þurftum að skera þorskkvótann harkalega niður í kringum 1990, ár eftir ár. Nei, ekkert af þessu er til staðar núna.

Viðskiptakjörin eru tiltölulega góð. Það er ekki framleiðslubrestur eða óáran af því tagi sem setur hér hlutina úr skorðum. Þetta er heimatilbúinn efnahagsvandi, óstjórn í efnahagsmálum.

Hér er viðtal í ágætu tíðindabréfi, Félagstíðindum Starfsmannafélags ríkisstofnana, við Má Guðmundsson, aðalhagfræðing Seðlabanka Íslands. Það er afar athyglisvert viðtal og ég hvet þá sem ekki eru reglulegir lesendur þessara tíðinda að lesa a.m.k. þetta ágæta viðtal. Þar er ekkert dregið undan með það að efnahagsvandinn er heimatilbúinn.

,,Vandinn er heimatilbúinn,`` segir þar, með leyfi forseti, ef ég má nú fara að vitna í prentað mál.

,,Vandamálið er heimatilbúið. Útflutningur hefur ekki dregist saman heldur aukist ef eitthvað er. Ef litið er á ytri skilyrði þjóðarbúsins þá er ekkert sem bendir til annars en að við eigum að geta náð tökum á ástandinu. Álverð hefur að vísu lækkað að undanförnu, en hins vegar er olíuverð í lágmarki, fiskverð mjög hátt og sjávarútvegurinn stendur ágætlega.``

Síðan er það rakið hvernig verstu samdráttarárin hafi yfirleitt ævinlega tengst einhverjum innri eða ytri áföllum af því tagi að það hafi orðið aflabrestur, að viðskiptakjör hafi snöggversnað eða aðrir hlutir af skyldum toga sett efnahagslíf okkar úr skorðum.

Aftur, með leyfi forseta, í sömu prentuðu heimild segir Már Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans:

,,Þetta er meira eins og eftir langt fyllerí þegar menn verða að taka út timburmennina.``

Ég hef nú verið svo hógvær að kalla þetta veislu en einkennin eru þau sömu. Þetta er auðvitað mergurinn málsins, herra forseti. Þetta blasir við öllum og er alveg sama hvernig okkar góði vinur, hæstv. forsrh., rembist við að reyna að segja okkur að þetta sé einhvern veginn öðruvísi, það gengur ekki. Staðreyndirnar tala bara sínu máli. Það þýðir ekkert að ætla að afgreiða okkur í stjórnarandstöðunni út af borðinu í þessari umræðu með því að segja að þetta sé allt saman svartagallsraus í okkur.

Í hvað er verið að vitna? Hvað hef ég verið að nota hér, herra forseti, þegar ég hef verið að nefna tölur? Þjóðhagsáætlun, lagða fram af forsrh. Þar koma þessar tölur fram og ég þarf væntanlega ekki leyfi núna, herra forseti, af því ég er ekki að vitna í hana beint. Þar koma fram þessar tölur um viðskiptahallann og um hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af landsframleiðslu. Ég get heldur ekki fallist á að það sé svartagallsraus að leyfa sér að vitna í viðtal við aðalhagfræðing Seðlabankans.

[22:45]

Staðreyndirnar eru einfaldlega svona. Þær blasa við okkur. Það er langskynsamlegast og miklu vænlegra til árangurs, til að fá menn til að takast á við þessa hluti að koma niður á jörðina og ræða málin eins og þau eru. Þau eru svona og þau eru grafalvarleg.

Þó ekkert annað kæmi til, herra forseti, heldur en það að við höfum nú um eins árs skeið horft framan í verðbólgu sem á ákveðnum tímabilum, jafnvel nokkra mánuði í senn, hefur mælst í tveggja stafa tölu. Hvað segir það þessari þjóð þegar verðbólgan er orðin 10% eða í nágrenni við það? Ég hef áður sagt að ég tel að það eigi að vera eins og köld sturta yfir okkur öll. Svo alvarlegt er það ef við erum að missa verðbólguna úr böndunum í þeim skilningi að hún er orðin þrefalt, fjórfalt eða fimmfalt meiri en í nágrannalöndunum.

Okkur þótti verðbólgan mikil hér þegar hún var á árabilum kannski 20--30%. En þá var hún þó iðulega ekki nema svona tvöfalt til þrefalt meiri en í nágrannalöndunum. Það var mikið. En þá var verðbólgan mun meiri víðast hvar í nágrannalöndum okkar og helstu viðskiptalöndum líka. Þá dregur auðvitað að sama skapi hratt í sundur ef ástandið er eins og það er núna, að verðbólga er kannski að meðaltali 2--3% á okkar helstu viðskiptasvæðum erlendis en 8--10% hér.

Herra forseti. Ég ætlaði að víkja síðan lítillega að útgjöldum á tveimur málasviðum í þeim þingnefndum sem ég á sæti í, þ.e. í félmn. og utanrmn. Ánægjulegt hefði verið ef hæstv. utanrrh. hefði séð sóma sinn í að vera viðstaddur umræðuna eins og aðrir fagráðherrar og hæstv. félmrh., sem er frár á fæti og gæti sjálfsagt brugðið sér hingað niður eftir ef spurt væri um hann. Það væri alveg sérstaklega ástæða til, herra forseti, að hæstv. utanrrh. sýndi umræðum um ríkisfjármál alúð vegna þess að hann er fá talsverðan skerf til sín, til síns málaflokks. Sennilega hafa fáir ef nokkrir málaflokkar í fjárlögunum aukið svo sinn hlut sem einmitt utanrrn. Það tekur mun stærri sneið af kökunni nú og er í þessu frv. ætlað meira en það hefur áður gert eða gerði a.m.k. fyrir fáeinum árum.

Á sviði félmn. vil ég sérstaklega nefna stöðu sveitarfélaganna. Þegar við höfðum gjaldahlið fjárlagafrv. á sviði félagsmála til umsagnar í félmn. kölluðum við fyrir okkur talsmenn sveitarfélaganna. Ég vil gjarnan inna hæstv. fjmrh. eftir því hvort farið hafi fram viðræður milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna undanfarna daga eða hvort standi til að svo verði áður en fjárlögunum verður lokað. Mér segir svo hugur um að þar séu ýmis óútkljáð mál, a.m.k. líta sveitarfélögin svo á að óútkljáð séu allmörg mál sem varði ýmis samskipti þessara aðila.

Þannig á t.d. að lækka útgjöld til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en talsmenn sveitarfélaganna telja að umtalsvert fjármagn vanti í Jöfnunarsjóð vegna breytinga á álagningarstofni fasteigna, vegna útvíkkunar á grunni húsaleigubóta með lögum nr. 52/2001, og vegna einsetningar skóla, þar sem sveitarfélögin telja að halli verulega á sig. Ónefnt er þá að nú um þessi áramót á að falla niður 700 millj. kr. sérstök fjárveiting til sveitarfélaganna sem þau hafa fengið í þrjú ár í röð. Vegna hvers? Jú, þau hafa m.a. fengið þá fjárveitingu til þess að hægt væri að koma til móts við illa stödd sveitarfélög sem hafa orðið fyrir mikilli fólksfækkun og þar með tekjuhruni.

Það hefur skipt svo miklu fyrir þessi sveitarfélög að aðlaga sig að þessum annars erfiðu og dapurlegu aðstæðum, að hafa fengið stuðning til þess að mæta tekjufallinu í gegnum þessi sérstöku framlög. Nú á þetta að falla niður. Ég leyfi mér að spyrja: Er þetta kveðja ríkisstjórnarinnar til þeirra sveitarfélaga á landsbyggðinni sem eru að missa frá sér fólk í stórum stíl, t.d. á þessu ári, og hefðu samkvæmt fyrri tilhögun fengið framlög í samræmi við það á næsta ári?

Hinn helmingur þessa framlags hefur farið sem viðbótartekjujöfnunarframlög og þar með runnið til tekjulægstu sveitarfélaganna. Þetta á nú hvort tveggja að falla niður.

Mér er nákvæmlega sama þó menn segi að þetta hafi verið ákveðið til þriggja ára einhvern tíma í fortíðinni. Þörfin og aðstæðurnar eru enn til staðar nákvæmlega eins og verið hefur. Ekki verður það auðveldara fyrir sveitarfélögin úti á landi sem hér eiga í hlut að mæta þessum breytingum eftir því sem áföllin eru langvinnari og fólkinu fækkar ár eftir ár.

Síðan vil ég nefna, herra forseti, hina hörmulegu frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í húsnæðismálum og í samskiptum við sveitarfélögin hvað þau varðar. Það er alveg yfirgengilegt að þau mál skuli dankast ár eftir ár eins og raun ber vitni. Þetta er klafi á herðum sveitarfélaganna þannig að þau eru mörg hver að brotna undan því og á harðahlaupum að reyna að selja eignir, ýmist frjálst eða þvingað til að bjarga sér frá þroti. Það er ekkert í hendi með almennar ráðstafanir til að taka á þeim vanda sem blasað hefur við allan tímann að þurfti að fara í.

Það er líka ljóst, herra forseti, að ríkið var að losna frá stórfelldum framtíðarskuldbindingum sem ella hefðu fallið á það á komandi árum þegar félagslega húsnæðiskerfinu var lokað. Eða hafa menn farið yfir það og framreiknað það hvað áframhaldandi vaxtaniðurgreiðsla á nýjum lánum í gegnum Byggingarsjóð verkamanna í sama kerfi hefði þýtt inn í framtíðina fyrir ríkið? Frá þessu losaði ríkið sig með breytingum á húsnæðismálum fyrir þremur árum, eða hvað það nú er, en hefur síðan algjörlega svikið að taka á vandanum gagnvart fortíðinni með sveitarfélögunum. Það er meira að segja svo níðingslegt, herra forseti, að þær 50 millj. sem talað var um að að lágmarki færu sem framlag á hverju ári í viðbótarsjóð, afskriftasjóð viðbótarlána, hafa ekki verið greiddar nema í eitt skipti. Það stendur því algjörlega út af að efna þessi fyrirheit nánast að öllu leyti. Þegar spurt er um þetta hér, hvort sem það er í tengslum við hina frægu sölu á Orkubúi Vestfjarða eða eitthvað annað, þá er málið í nefnd. Og það er búið að vera það svo lengi sem menn muna og í raun og veru allan tímann frá því þetta mál hóf sögu sína.

Sveitarfélögin hafa þarna eins og stundum áður borið skarðan hlut frá borði í samskiptum við ríkisvaldið og mæta engu nema vanefndum í þessum samskiptum, þar sem neytt er aflsmunar eins og venjulega. Hér stjórnar ríkisvaldið í skjóli löggjafarvaldsins og meiri hlutans á Alþingis sem endalaust hlýðir.

Herra forseti. Ég skilaði í utanrmn. séráliti í umsögn til fjárln. Ég gat með engu móti neitað mér um að vekja þar athygli á nokkrum hlutum sem ég reiknaði ekki með að félagar mínir í meiri hlutanum, hvað sem öðrum liði, mundu taka undir með mér. Gott hefði auðvitað verið ef svo hefði verið. Ég held að þar sé einna helst varpað ljósi á hluti sem þar hafa verið að gerast. Ég bendi mönnum á þetta nefndarálit. Það er fylgiskjal með áliti bæði 2. minni hluta fjárln. og eins fylgir það með meirihlutaálitinu.

Herra forseti. Fyrst er um að ræða almenna útgjaldaaukning sem orðið hefur til utanrrh. á undanförnum árum. Ég verð að játa að ég varð nokkuð hugsi þegar ég fór yfir það hversu myndarlega þetta ráðuneyti hefur aukið hlutdeild sína á undanförnum árum.

Og hvernig er það, herra forseti, þarf að biðja um leyfi til að vitna í prentað mál ef það er í þingskjölum?

(Forseti (HBl): Já.)

Þá þarf líka að gera það?

(Forseti (HBl): Já, já.)

Fyrirfinnst þá nokkurt prentað mál sem ekki þarf að biðja um leyfi fyrir, jafnt þó verið sé að lesa upp úr þingskjölum?

Í þessu áliti minni hluta utanrmn. til fjárln. er komið inn á þetta og þar er m.a. í töflu fjallað um það hvernig útgjöld til utanrrn., sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkissjóðs, hafa þróast á fimm ára tímabili, þ.e. frá 1998 til og með 2002, ef frv. í aðalatriðum gengur fram. Menn kunna að segja að þetta séu ekki mjög háar tölur, að þetta hafi farið úr 1,76% eða 1,75 eins og það var á árunum 1998 og 1999 í 2,09% af heildarútgjöldum ríkissjóðs, eins og stefnir í samkvæmt frv. En það munar um það, herra forseti, þegar um er að ræða allmarga milljarða eins og þarna eiga í hlut.

Þetta hefur t.d. aukist um rétt tæpan milljarð króna milli ára samkvæmt fjárlagafrv., úr 4.084 millj. sem voru 1,86% af fjárlögum yfirstandandi árs í 5.012 á árinu 2002, sem þá eru orðin 2,09% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Þarna kemur náttúrlega ýmislegt inn í eins og menn vita, hin frægu útgjöld til sendiráðs í Japan og t.d. aðild okkar að Schengen-samstarfinu sem auðvitað er að koma á daginn að reynist ærið dýru verði keypt. Þess sér víða stað, í rekstrarútgjöldum hjá flugstöðinni í Keflavík og hjá embætti sýslumanns og tollstjóra í Keflavík sem fellur að vísu undir dómsmrn. Þannig er t.d. færður undir dómsmrn. í frv. áætlaður 74 millj. kr. rekstrarkostnaður af Schengen eins og hann er færður þar. Þá er allt hitt eftir sem lýtur að starfseminni á öðrum sviðum, gæslunni sem færist undir lögreglustjóra, tollstjóra, sýslumann o.s.frv.

Herra forseti. Fyrsta atriðið sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni í útgjöldum til utanrrn. er auðvitað hinn margfrægi utanríkisráðherrafundur NATO. Mér finnst nöturlegt að einmitt þessa dagana þegar aðstæður eru eins og raun ber vitni í fjárlagagerðinni sé verið að sturta hér í gegn breytingartillögum, bæði í fjáraukalagafrv., sem afgreitt var í dag til 3. umr., og svo hér í fjárlagafrv. og í breytingartillögum meiri hlutans, þar sem tuga og hundruða millj. kr. útgjöldum er bætt við í þetta gæluverkefni.

Ég velti því aðeins upp, herra forseti, í þessu nefndaráliti, hvernig ákvarðanir um þessi ríkisútgjöld eru teknar. Ég tók eftir því að hv. formaður fjárln. sem vonandi heyrir til mín --- vonandi er hann ekki farinn heim að sofa eða á leið til útlanda eins og fleiri frammámenn þjóðfélagsins. (ÓÖH: Ég hlýði með athygli á hvert orð.) Mikið er ég nú ánægður að heyra þetta. Ég heyrði að formaður fjárln. sagði hér, og var bara nokkuð rogginn með sig, að það væri mjög til vansa hvernig fjárveitingavaldið stæði stundum frammi fyrir gerðum hlut af hálfu framkvæmdarvaldsins. Mig minnir að hv. formaður fjárln. hafi nefnt verksamninga í þessu sambandi. Hann nefndi að t.d. væru alls konar verksamningar gerðir og ákvarðanir sem ráðherrar væru búnir að taka og Alþingi stæði frammi fyrir gerðum hlut. Hann taldi þetta ekki gott mál, ef ég skildi hv. formann fjárln. rétt. Hann taldi fjárveitingavaldið og ákvarðanavaldið komið út um dal og hól í þessum efnum.

En hvað er þá svona mál þegar hæstv. utanrrh. er einhvers staðar á fundi í útlöndum og býður heim, býður vinum sínum hjá NATO heim? ,,Komiði strákar, bara til mín í júní á næsta ári. Við skulum bara vera hjá mér næsta vor --- ha! Við skulum bara vera hjá mér. Komiði bara til Íslands.`` Svo er komið heim og ekki endilega víst að það fyrsta sem hafi verið gert hafi verið að hringja í formann fjárln. Nei, það skyldi nú vera. Hér dúkka upp mánuðum og missirum seinna víxlar upp á tugi og hundruð milljóna til að greiða reikningana vegna heimboðsins sem boðið var í þarna útlöndum. Svona gerist þetta nú. Það er ósköp einfaldlega svona sem þetta gerist.

[23:00]

Látum nú vera þótt um sé að ræða reglubundið samstarf og eitthvert svona minni háttar útstáelsi sem kostar kannski fáeinar milljónir eins og venjulegar ráðstefnur og fundir. Nei, þessi ósköp kosta fleiri hundruð milljónir króna. Núverandi áætlun er í augnablikinu upp á 350 millj. plús. Og það eru eiginlega allir sannfærðir um að hún muni ekki halda því kostnaðurinn stefnir svo hratt upp á við að menn mega varla blikka auga, þá eru komnar tíu milljónir í viðbót. Á nokkurra daga tímabili hækkuðu þær áætlanir sem utanrmn. fékk í sinn hlut um tugi milljóna króna. Nú er maður dauðhræddur við að vita hvað kemur á fundinum í hádeginu á morgun því þá koma þeir einu sinni enn frá utanrrn. og ræða við utanrmn. Það skyldi nú ekki vera að þar hafi orðið hækkun síðan við hittum þá síðast. Eins gott að fara að hætta þessum fundum.

Herra forseti. Verið var að afgreiða í fjáraukalagafrv. í dag að setja þarf 30 millj. kr. inn á fjáraukalög handa utanrrn. til að undirbúa fundinn á þessu ári þótt hann verði ekki fyrr en í júní á næsta ári. Og maður veltir því vissulega fyrir sér hvort einhverjir séu kannski ekki að smyrja svolítið á sneiðina. Getur verið að það komi sér svona vel í almennu samhengi fyrir þá að fá þessar 30 millj.? Og er nú alveg víst að allt saman fari nákvæmlega í þetta? En látum það nú vera. 30 millj. þar til utanrrn. í fjáraukalagafrv. Í skýringum í fjárlagafrv. eins og það var lagt fram 1. október stendur að af 181 millj. og 400 þús. kr. sem eru áætlaðar í ráðstefnur hjá utanrrn. á næsta ári séu 170 millj. ætlaðar í utanríkisráðherrafund NATO. Þá erum við komin í 200. Og hvað er í brtt. meiri hluta fjárln., hins aðhaldssama, svona til að hita upp fyrir niðurskurðinn upp á 3--4 milljarða? Það er 60 millj. kr. hækkun í viðbót.

Þá erum við komin í 260 millj. handa utanrrn. einu. Mikil óvissa að þetta dugi. Þá á eftir að reikna allan kostnaðinn sem færist á aðra aðila og embætti í undirstofnunum og þar á meðal einar 60--80 millj., að lágmarki, sem talið er að dómsmrn. þurfi að fá sérstaklega vegna öryggisgæslunnar. Því viti menn --- það kom ekki upp fyrr en í umfjöllun um þetta í utanrmn. að talan sem menn höfðu hent á milli sín dagana þar á undan um kostnað var fyrir utan öryggisgæsluna. Og þá brá mönnum í brún því menn höfðu verið að reyna að gefa sér sem skýringu á þessum ósköpum að þessi rosalegi kostnaður utanrrn. væri vegna þess að það yrði svo dýrt að passa upp á höfðingjana og gæta öryggis þeirra. En nei, ónei, það var allt þar fyrir utan. Það átti eftir að gera ráð fyrir því og það virtist hafa verið misskilningur í gangi milli ráðuneyta um hver ætti að borga þann reikning. En það var sorterað út og niðurstaðan var þessi: Þetta er kostnaður utanrrn. fyrir utan öryggisgæsluna. Fyrir utan allar byssurnar sem á að kaupa, leigja, eða lána eða hvernig sem það nú allt verður og allt hitt dótið. Ég segi alveg eins og er, herra forseti, mér finnst að menn eigi að sjá að sér og hætta við þessa vitleysu.

Er ekki bara hægt að segja eins og er að mönnum þyki þetta ansi dýrt? Og ekki bætir ástand í heiminum úr. Er ekki hægt að láta þessa höfðingja funda einhvers staðar í herstöð eða einhvers staðar annars staðar? Ég spyr nú bara að því. Þarf að vera að taka þessi ósköp inn í eitt land, setja þar allt á hvolf og kosta til þess hundruðum milljóna með þessum hætti? Geta þeir ekki fundað á flugmóðurskipi eða þar sem þeir telja sig sæmilega örugga og þar sem ekki þarf að leggja í þennan ógurlega kostnað, herra forseti?

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég nefna aðeins málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem falla líka undir utanrrh. Og enn sakna ég þess að hæstv. utanrrh. skuli ekki frekar en aðrir ráðherrar sjá sóma sinn í að vera viðstaddur umræðuna. Hefði þó verið fróðlegt að heyra hæstv. utanrrh. fara yfir það hvað hefur breyst síðan stofnað var hlutafélag um reksturinn í Keflavík og haldnar hátíðir í tilefni þess og allt átti að komast á nýjan og betri grunn, sérstaklega af því að þessir töfrastafir hf. bættust aftan við nafnið á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Og sjá menn ekki muninn --- sérstaklega hv. þm. Pétur Blöndal --- hvað þetta breytir rosalega miklu? (PHB: Best að selja það.) Það breytir rosalega miklu að fá þá stafi, hf.

En hver hefur reyndin orðið? Hvernig hefur þetta gengið síðan? Jú, það er þannig að þarna er allt í skötulíki. (PHB: Það er hægt að selja það.) Hér eru upplýsingar um það sem ég dró út úr utanrrn., m.a. með því að fá uppgjör, árshlutareikning félagsins Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. fyrir fyrsta hálfa árið sem það var í rekstri. Og hvað kemur þá í ljós, herra forseti? Það kemur í ljós að skuldirnar, langtímaskuldirnar, eru rétt tæpir sex milljarðar. Þær eru örugglega komnar yfir það núna vegna þess að þetta var miðað við gengið fyrir nokkrum vikum. Sex milljarðar króna. Sex þúsund milljónir. Er það ekki ansi mikið á einni svona byggingu þó að hún sé nokkuð stór? Og við svo kúnstugan arkitektúr hefur ekki reynst mjög ódýrt að eiga, t.d. að byggja við? Þar til viðbótar eru lausaskuldir upp á allmörg hundruð milljóna, einar 460 millj. í lausaskuldir og lífeyrisskuldbindingar ef við tökum þær nú með, og þá eru skuldirnar komnar líklega á áttunda milljarð.

Rekstrartekjurnar jukust hins vegar nánast ekkert milli ára. Og hvað varð þá um allar fínu áætlanirnar sem okkur voru sýndar í tengslum við hlutafélagavæðinguna, að með breyttum áherslum í rekstri, auknum leigutekjum og alls konar hagræðingu ætti þetta allt saman að blómstra? Nei, niðurstaðan varð sú að rekstrartekjurnar jukust á þessu tímabili, þ.e. fyrir tímabilið frá 1. janúar til 30. júní 2000 miðað við sama tíma í ár, úr 1.880 millj. rúmum í rúmar 1.930. Það var allt og sumt þannig að áform um einhvern stórkostlegan tekjuauka fóru út í veður og vind.

Hvernig var svo afkoman? Jú, hún var rekstrartap upp á litlar 580 millj. kr. og hafði þó verið tekjufærður skattafrádráttur upp á rúmar 220 millj. Nú ætlar hæstv. fjmrh. að lækka tekjuskatt og þá verða þeir hjá flugstöðinni að fara að reikna þetta allt til baka því þetta er auðvitað miðað við núverandi tekjuskattsprósentu og er sýnd veiði en ekki gefin í öllu falli, því það teiknar ekki til þannig hagnaðar af Flugstöð Leifs Eiríkssonar á allra næstu árum að það hafi mikla merkingu að tekjufæra þennan tapfrádrátt sem e.t.v. mætti einhvern tímann inni í framtíðinni minnka. Og mörg fyrirtæki láta það vera að gera það í ársreikningum sínum en ekki Flugstöð Leifs Eiríkssonar enda má hún illa við því, því að rekstrartapið fyrir skatta er sem sagt yfir 800 millj. kr. á fyrri helmingi ársins.

Auðvitað er þarna gengisniðurfærslan stór hluti, það er alveg ljóst, fjármagnsliðir eru neikvæðir upp á rúmlega 1.100 milljónir. En það er alveg sama þótt tekið sé tillit til þess, þetta er samt afar bágborin afkoma. Og hver hefur niðurstaðan af þessu orðið? Hún er sú að öll áform um að þetta fyrirtæki stæði sjálft undir endurfjármögnun skulda sinna og afborgunum eru runnin út í sandinn. Nú er komið og beðið um sérstaka ríkisábyrgð vegna afborgunarinnar sem gjaldfellur í desember. Menn eru hættir við endurfjármögnun lána og er talað um að fá sérstaka ríkisábyrgð fyrir þeim þegar þau verða á gjalddaga hverju sinni. Svona er þetta, herra forseti.

Ég læt það eftir mér að taka í þetta nokkrar mínútur vegna þess að ekki vantaði derringinn í menn þegar verið var að boða fyrirmyndarríkið í formi hlutafélagavæðingar og þeirra áherslubreytinga sem þarna átti að gera. Þá reyndu sumir að mæla varnaðarorð. Ég taldi t.d. áform um stórauknar tekjur algjörlega óraunhæfar eftir að hafa aðeins kynnt mér afkomu leigutakanna í flugstöðinni og fleiri þætti. Ég tel að það sé að koma á daginn að þarna fegruðu menn allar forsendur og byggðu slík áform og plön meira og minna á sandi. Hvaða tilgangi þjónar það? Hverjum eru menn að gera greiða með því?

Þá er það enn eftir, herra forseti, sem ég gagnrýni að engar upplýsingar fengust um það hvernig menn ætla að taka þarna á málum þegar augljóst er að það stefnir í mikinn vanda. Það hlýtur að vera þannig þegar við tökum mið af verulegum samdrætti í umferð og þeim miklu rekstrarerfiðleikum sem margir og þar á meðal mjög mikilvægir leigutakar í flugstöðinni standa núna frammi fyrir. Eða hafa menn t.d. ekki heyrt fréttir af afkomu Íslensks markaðar, hvernig hún hefur hefur verið sl. tvö, þrjú ár? Og hvernig staða þess fyrirtækis er sem eins stærsta leigutakans í byggingunni fyrir utan opinbera aðila? Við rukkuðum um upplýsingar um þetta í utanrrmn. en fengum engar.

Þar með leyfi ég mér að segja, herra forseti, að skil séu alls ekki fyrir hendi í þessu máli sem ættu auðvitað að vera þegar menn eru að fjalla um þetta við afgreiðslu fjárlaga. Það er auðvitað alveg ljóst að það er enginn annar en ríkið sem á bak við þetta stendur samanber það að fyrirtækið kemur til mömmu gömlu, ríkisins, og biður um ríkisábyrgðir þegar það er komið í vandræði með afborganirnar og þær eru komnar á gjalddaga.

Að síðustu, herra forseti, ætla ég að nefna aðeins þróunarsamvinnuna af þeim málum sem heyra undir utanrrn. Ég lét taka saman hvernig það hlutfall væri að þróast sem hlutfall af landsframleiðslu. Því hafði verið heitið á árinu 1997, ef ég man rétt, að nú skyldi þetta aukið í áföngum á komandi árum. Það leit út fyrir að vera svo og maður gladdist að sjálfsögðu yfir því þótt í litlu væri sem gamall baráttumaður fyrir því að hífa þetta hlutfall eitthvað upp, manni þótti gott að verið væri að stefna í þá átt. En af ýmsum ástæðum fannst mér rétt að láta líta á hvernig þetta hlutfall væri í reynd að þróast. Þetta er sá mælikvarði, og sá mælikvarði einn, sem er marktækur í þeim efnum, þ.e. hvernig við stöndum okkur gagnvart þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum undirgengist sem eitt af hinum þróuðu ríkjum Sameinuðu þjóðanna, að reyna að verja um 0,7% af landsframleiðslu til þróunarsamvinnu og hvetja til þess að aðrir óopinberir aðilar, hjálparsamtök og aðrir, leggi þar 0,3% á móti og þannig náist 1% markið sem hin Norðurlöndin hafa flestöll uppfyllt og sum rúmlega það.

En því miður, herra forseti, kemur sú dapurlega niðurstaða að í reynd hefur þetta hlutfall nánast staðið í stað, og gerir á næsta ári miðað við það sem var t.d. fyrir þrem eða fimm árum. Og það er vegna þess að landsframleiðslan hefur á tímabilinu aukist að vísu, en sem hlutfall hefur þetta nánast staðið í stað. Þannig var það t.d. 0,1% af landsframleiðslu bæði árin 1995 og 1997, en verður á þessu ári og hinu næsta 0,1--0,2%. Það eru sem sagt aðeins 0,02% af landsframleiðslu sem þarna hafa þokast upp á þessum fjórum, sex árum ef við tökum það tímabil.

Þetta eru mikil vonbrigði, herra forseti, því satt best að segja hafði ég, eins og sjálfsagt flestir aðrir, trúað því að þetta hlutfall væri raunverulega á uppleið og við værum að ráðstafa, með þeim hækkunum sem ákveðnar voru 1997, vaxandi hlutfalli af landsframleiðslu okkar í þetta verkefni en svo er ekki. Við erum hins vegar ólöt að minna á það þegar það hentar að Íslendingar séu fjórða, fimmta ríkasta þjóð heimsins og það segir náttúrlega sína sögu að samt sem áður skulum við vera einna aftast á merinni allra OECD-ríkja, ef ekki í botnsætinu sem ég reyndar óttast nú að sé, með framlög á þessu sviði. Við leggjum þarna minna af mörkum en ríki þar sem þjóðartekjur á mann eru langtum minni en þær eru hér.

Herra forseti. Það hefði verið gaman að nefna síðan aðeins samgöngumálin ef hæstv. samgrh. hefði verið í salnum. Því miður var það svo, og er, að í fjárlagafrv. er boðaður næstum 1.500 millj. kr. niðurskurður til vegamála borið saman við það sem vegáætlun gerði ráð fyrir. Menn hafa reynt að útskýra það þannig og afsaka sig með því að þetta geti orðið að mestu leyti einhvers konar frestun framkvæmda innan ársins og annað í þeim dúr. En nú óttast maður, og heyrist að jafnvel sé verið að tala um enn fekari niðurskurð, eða hugmyndir séu uppi um slíkt. Þá fer það að taka dálítið í óttast ég, miðað við vegáætlun, ef bæta á einhverju í nýja pakkanum við þær næstum 1.500 millj. sem samkvæmt greinargerð fjárlagafrv. eru þegar til staðar í frv. miðað við vegáætlun. Og væri fróðlegt að heyra um það ef eitthvað væri af því að frétta.

[23:15]

Þá væri nú nærtækt líka, herra forseti, að nefna byggðamálin og þá grafalvarlegu stöðu sem þar er uppi. Ekki mun það leggjast með mönnum í erfiðri varnarbaráttu í hinum dreifðu byggðum ef enn á að höggva í þann knérunn.

Að lokum, herra forseti, það er erfitt að spá og einkum um framtíðina. Ég ætla svo sem ekki að halda því fram að ég sé spámannlegar vaxinn en t.d. hæstv. forsrh., sem er út af fyrir sig prýðilega vaxinn til að spá fyrir um óorðna tíð. En ég get ekki deilt bjartsýninni með hæstv. forsrh. á að efnahagsástandið muni snarlagast og gengi krónunnar styrkjast að miklum mun strax á fyrstu mánuðum næsta árs. Ég sé ekki hinar efnislegu innstæður fyrir slíkum spádómi. Ég get ekki dregið þann lærdóm af sögunni.

Þegar maður skoðar hvernig okkur hefur tekist, eftir því sem það hefur tekist, að vinna okkur út úr erfiðum aðstæðum í efnahagsmálum held ég að eitt sé nokkuð sammerkt með þeim tímabilum sem tekið hafa við í kjölfar samdráttar og óróleika, hvort sem við tökum tímabilið 1987--1988, 1973--1974 eða núna nær okkur í tíma, að það hefur aldrei gerst öðruvísi en að við þyrftum að vinna okkur hægt og bítandi út úr erfiðleikunum. Það hefur oftast nær tekið einhver ár að koma skútunni á rétta siglingu. Er eitthvað sem bendir sérstaklega til að þetta verði öðruvísi núna? Ég sé það ekki.

Ég vona auðvitað, eins og við öll, að okkur vegni vel í þessu. Það er mikið í húfi, að við náum tökum á þeim óróleika sem nú er auðvitað allt um kring. Það væri ekki nýtt þó að það tæki hálft til eitt ár þannig að ef vel gengur og maður reynir að vera bjartsýnn á forsendurnar mundi maður vilja trúa að með haustinu árið 2002 gætu málin farið að róast. Þá tæki við, ef vel gengi aftur, tveggja, þriggja ára tímabil þar sem við færum vonandi að lyfta okkur hægt og bítandi upp úr öldudalnum. Þannig sýnist mér miklu líklegra að þetta gæti orðið ef vel tækist til.

Ég held að óraunsæ bjartsýni og spádómar út í loftið, um að þetta muni allt saman lagast af sjálfu sér innan nokkurra mánaða, séu ekki til þess fallnir að fá menn til að trúa því að þeir sem sitja við stjórnvölinn hafi sérstaklega góð tök á hlutunum. Það er heldur ekki trúverðugt þegar landsfeðurnir eru út og suður í ummælum sínum um efnahagsmál og ríkisfjármál og fjárlög eins og þeir hafa verið undanfarna daga. Ég þykist hafa sýnt fram á það með dæmum, m.a. úr prentuðu máli, sem ég hef fengið góðfúslegt leyfi forseta til að vitna í af og til í kvöld.