Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 23:21:23 (2027)

2001-11-27 23:21:23# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[23:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það virðingarvert hjá hv. 3. þm. Vestf. að koma til varnar sínum arfakóngi og herra, hæstv. utanrrh., eins og góðum liðsmönnum sæmir. Honum tókst það út af fyrir sig ágætlega því það er alveg rétt sem hv. þm. segir, auðvitað eru utanríkisviðskiptahagsmunir okkar mikilvægir og við þurfum að gæta þeirra enda er það sérstaklega tekið fram í áliti minni hluta utanrmn. Þar segir m.a., með leyfi forseta --- það hefði verið laglegt hefði ég gleymt því:

,,Minni hlutinn tekur fram að hann hefur stutt það að utan ríkisþjónustan væri efld og Íslendingar yrðu að gæta hagsmuna sinna á alþjóðavettvangi og kosta þar nokkru til. Þetta gildir einnig um opnun nýrra sendiráða, t.d. í Kanada og Afríku. Hitt er annað að þegar í ljós kom hversu gríðarlegur kostnaður yrði samfara opnun sendiráðs í Japan hefði e.t.v. átt að endurskoða þá ákvörðun eða leita leiða til þess að ná þessum kostnaði niður, t.d. með því að fara í samstarf við aðrar Norðurlandaþjóðir um rekstur þess. Af öðrum nýtilkomnum útgjaldatilefnum sem augljóslega hleypa upp kostnaði á vegum utan ríkisráðuneytisins er nærtækt að nefna aðild okkar að Schengen-samstarfinu en ljóst er nú að sú aðild reynist ærið dýru verði keypt.``

Aðildin að Schengen á ekkert skylt við það í sjálfu sér að gæta utanríkisviðskiptahagsmuna okkar heldur er það pólitísk ákvörðun sem mun reynast okkur mjög dýr. Hún er það nú þegar, í miklum stofnkostnaði, t.d. í Keflavík, og í tugmilljóna kr. ef ekki hundruða millj. kr. rekstrarkostnaði árlega.

Tilefni þess að ég geri útgjöld til þessa ráðuneytis sérstaklega að athugunarefni er annars vegar að ég sit í utanrmn. og það er mitt verksvið og hins vegar að þegar það er skoðað hefur þetta ráðuneytið óumdeilanlega verið að auka hlut sinn mjög hratt. Það hefur hækkað sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Fyrir því geta verið rök að einhverju leyti, ég er ekki að mótmæla því. En það hlýtur að vera rétt og skylt að athuga hvað er að gerast og viðhafa þarna aðhald og gát eins og annars staðar. Ég neita því ekki að ég var nokkuð hugsi yfir því þegar ég sá hversu háar ýmsar af þessum tölum voru.