Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 23:46:13 (2032)

2001-11-27 23:46:13# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[23:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé rétt hjá mér að það eina sem hv. þingmenn Vinstri grænna hafa sagt um málið standi ekki í þessu nál. Þeir hafa látið hafa ýmislegt annað eftir sér í fjölmiðlum um þetta mál í Japan.

En aðalatriðið er að hv. þingmenn Vinstri grænna stóðu að þessari tillögu og hvöttu til þess að þetta sendiráð yrði opnað og það er náttúrlega mikilvægt að menn séu samkvæmir sjálfum sér í því.

Auðvitað ber að leita leiða til að halda kostnaði í hófi og það var gert (Gripið fram í: Nei.) og sú áætlun, sem upp var sett, stóðst. Hún var lögð fyrir hv. utanrmn. --- það má vel vera að hv. þingmenn hafi ekki mætt á þann fund --- og það var samstaða í nefndinni um að fara þessa leið og hv. þingmenn geta farið í bækur utanrmn. til að kynna sér það.

Að því er varðar NATO-fundinn, það er út í bláinn að halda því fram að það skipti engu máli fyrir íslenska ferðaþjónustu að hótelin hér í borginni fyllist öll um miðjan maí, að það skipti engu máli að fá umfjöllun í helstu sjónvarpsstöðvum heimsins, að það skipti engu máli að þetta fólk kemur að meira eða minna leyti með íslensku flugfélagi til landsins. Það má vel vera að íslensk ferðaþjónusta mundi vilja eyða einhverjum peningum öðruvísi, það veit ég ekki.

En það skiptir líka máli að við rækjum hlutverk okkar sem aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Við gætum líka sparað peninga með því að leggja niður sendiráð okkar í Brussel eins og hv. þingmenn hafa margoft lagt til (Gripið fram í: Nú?) í sambandi við NATO. Ég kannast við það frá fyrri árum þegar verið var að flytja brtt. um að spara jafnvel það sem við borgum til NATO. Er það rangt?