Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 23:55:48 (2036)

2001-11-27 23:55:48# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[23:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ja, þarna kom rétta andlitið fram.

Það stendur ekki í þessari þáltill. ,,að kanna``, það stendur ,,að fela ríkisstjórninni``. Og það var samþykkt hér á hv. Alþingi, ekkert að kanna. Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórninni að koma á fót íslensku sendiráði í Japan á árinu 1998, og það samþykkti hv. þm. Þá var húsnæðisverð miklu hærra í Japan. Það lækkaði verulega eftir það og var talið í algjörri lægð.

Svo segja menn hér: Ja, því miður vissi þingið náttúrlega ekkert hvað það var að tala um eða samþykkja. Ekki vissum við það, hv. þm. Nei, auðvitað ekki. Þetta er málflutningur í lagi.

Svo getur hv. þm. ekki stillt sig um það, þegar svona mál er á dagskrá, að fara að bera þessa fjárfestingu saman við afskaplega viðkvæman málaflokk. Það er honum líkt. En er það sæmandi hv. þm.? (ÖJ: Já, það er sæmandi.) Hefði þá ekki verið rétt af hv. þm. að hafa það í huga þegar hann samþykkti þessa tillögu 1998 eða voru aðstæður fatlaðra á þeim tíma miklu betri? Var engin ástæða til að hafa það í huga þegar hv. þm. var að samþykkja þá tillögu? Ber aðeins að hafa það í huga þegar búið er að koma vilja hv. þm. og annarra í framkvæmd? Mér finnst þessi málflutningur með öllu ósæmilegur, hv. þm. Ögmundur Jónasson, og ég mun ekki breyta um skoðun í þeim efnum.

Það lá alveg fyrir og hefur alla tíð legið fyrir að þetta yrði okkar dýrasta sendiráð. Það er rétt að þetta er dýrt en það hefur alltaf legið fyrir að þetta yrði dýrt. Og það vissu hv. þm. þegar þeir samþykktu þetta og það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Ögmund Jónasson eða aðra þingmenn Vinstri grænna að vera að tala um það að þeir hafi ekki vitað neitt í sinn haus þegar þeir samþykktu þetta á sínum tíma.