Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 23:58:03 (2037)

2001-11-27 23:58:03# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[23:58]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kemur í máli hæstv. utanrrh. að í þessari till. til þál. felur Alþingi ríkisstjórninni að koma á fót sendiráði. Það er rétt. Ég dreg til baka fyrri fullyrðingu mína um að hún hefði falið í sér að könnun skyldi eiga sér stað.

Hins vegar lá það ekki fyrir --- og það er rangt hjá hæstv. utanrrh. --- að kostnaðurinn yrði þessi. Og um leið og þær tölur voru nefndar sem nú eru orðnar að raunveruleika var því mótmælt, m.a. af mér.

Af hálfu þessarar ríkisstjórnar hefur ýmsu öðru verið lofað. Því var t.d. lofað af hálfu Framsfl. fyrir kosningarnar 1999 að á næstu fimm eða sex árum yrði biðlistum fatlaðra eftir húsnæði útrýmt. Því var lofað. Það loforð var endurtekið og ítrekað á árinu 2000. Þessi loforð hafa verið svikin. Það er þessi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, þessi forgangsröðun Framsfl., þessi forgangsröðun hæstv. utanrrh. sem ég er að gagnrýna og finna að. Þegar við stöndum frammi fyrir þessum valkostum um fjárfestingar og hvernig við verjum fjármunum skattborgaranna er þetta forgangsröðun Framsfl. Þetta er forgangsröðun hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar og mér finnst það svívirðilegt.