Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 23:59:45 (2038)

2001-11-27 23:59:45# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[23:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það lá alveg ljóst fyrir þegar sendiráðið í Kína var opnað að miklu dýrara yrði að opna sendiráð í Japan þannig að það er ekkert nýtt undir sólinni í því.

Síðan fer hv. þm. í vandræðum sínum að tala um kosningamarkmið Framsfl. Ég þakka honum kærlega fyrir það, hann mætti lesa þau oftar. (ÖJ: Ég var að tala um svik ykkar.) Ég held (ÖJ: ...mundi gera þetta.) að hv. þm. ætti að hafa aðaláhyggjur af eigin svikum en ekki annarra. (ÖJ: ...að koma ykkur út úr fimm stjörnu hótelunum og inn í íslenskan veruleika.) Fimm stjörnu hótelum, ég er afskaplega sjaldan á fimm stjörnu hótelum. (ÖJ: Fatlað fólk bíður í biðröðum ...) Ég býst við að hv. þm. hafi einhvern tíma komið inn á bærilegt hótel á vegum þingsins, ef ég þekki rétt til. Menn eru yfirleitt settir á sæmileg hótel og ég efast um að utanrrh. sé á eitthvað miklu betri hótelum en hv. þm. en mér finnst (ÖJ: ...) þetta ekki vera sæmandi málflutningur.

Aðalatriðið er að ákveðið var að gera þetta, það var ákveðið af Alþingi. Og menn eiga að vera menn að meiri og standa við ákvörðun sína eins og hv. þm. tók þátt í, ber alla ábyrgð á (ÖJ: Þú skalt ekki svíkja fatlaða.) en núna vill hann komast undan því... (ÖJ: Níðast á fötluðum og öryrkjum og láglaunafólki.) Herra forseti, er þetta við hæfi að kalla hérna ...?

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gefa ...)

... að kalla ræðumenn hér níðinga og ég veit ekki hvað? (Gripið fram í.) Er þetta sæmandi hér á hv. Alþingi? (ÖJ: Það er ekki sæmandi að svíkja gefin loforð.)

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að stilla sig við frammíköll.)

Herra forseti. Ég treysti mér ekki til að vera í ræðustól hér á Alþingi við þessar aðstæður.