Staða efnahagsmála

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:02:02 (2076)

2001-11-28 13:02:02# 127. lþ. 37.91 fundur 165#B staða efnahagsmála# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér að eiga orðastað við hæstv. forsrh. en er tjáð að hann sé staddur erlendis í embættiserindum. En það fór ekki í verra því hér er staddur starfandi forsrh., hæstv. utanrrh., og mér þykir ekki verra að eiga orðastað við hann.

Tilefnið er sú alvarlega staða sem nú er uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Eins og okkur er öllum ljóst blikka nú flest rauð ljós sem eiga að vara okkur við í þeim efnum. Það er nánast sama hvert er litið, til gengisins, til verðbólgunnar, til vaxtanna, til erlendra skulda --- allt er þetta komið út fyrir þau mörk sem við getum sætt okkur við.

Vegna þessarar þróunar, herra forseti, er verðbólgan orðin miklu meiri en spáð var á sínum tíma þegar kjarasamningar voru gerðir á almenna vinnumarkaðnum í mars árið 2000. Þegar þeir voru gerðir var verðbólgan á 12 mánaða grunni innan við 6% og forsenda þeirra samninga var eins og menn muna að verðbólgan færi lækkandi. Það hefur ekki orðið. Verðbólgan á sama grunni er núna um 8,1%. Það er alveg ljóst að yrði farið eftir bókstaf samninganna þá yrði þeim sagt upp.

Allir eru sammála um að stöðugleikinn hefur raskast og hann er í uppnámi. Eins og allir vita var grundvöllurinn að þeim stöðugleika sem við höfum búið við lagður með þjóðarsáttarsamningunum 1990 í tíð vinstri stjórnar sem þá sat. Ég held að menn séu almennt sammála um það líka að ákaflega erfitt verði að ná stöðugleikanum aftur og komast hjá óróa á vinnuamarkaði nema í góðu og nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Í ljósi þeirrar stöðu vil ég spyrja hæstv. starfandi forsrh. hvort ríkisstjórninni finnist ekki tímabært og eðlilegt að endurreisa þær forsendur sem þjóðarsáttin var gerð á og kalla verkalýðshreyfinguna, þ.e. aðila vinnumarkaðarins, til formlegra viðræðna um aðgerðir til þess að endurheimta stöðugleikann aftur.