Staða efnahagsmála

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:08:52 (2079)

2001-11-28 13:08:52# 127. lþ. 37.91 fundur 165#B staða efnahagsmála# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér er hafin umræða af afskaplega litlu tilefni. Raunar hefur ekkert breyst frá því í gær að hv. málshefjandi tók til máls undir sama lið, um störf þingsins. Hann gat þá ekkert um það sem hann er núna að tala um. En það er rangt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að ríkisstjórnin hafi hætt að skipa þverfaglegar nefndir. Það gefur bara ekki alltaf mjög góða raun. Er þingmaðurinn búinn að gleyma því að þverpólitísk nefnd um sjávarútvegsmálin hefur nýlokið störfum? Er hann ekki sammála mér um að það hafi ekki gefið sérstaklega góða raun?

Hins vegar er það stundum þannig að það er ekki hægt að kalla alla til samráðs um öll mál. Það var t.d. ekki hægt og ekki eðlilegt þegar í undirbúningi var skattalækkunarfrumvarp, sem nú er til meðferðar í þinginu, að kalla mjög marga til ráðs um það. Slíkt mál hefur áhrif á markaðinn ef það spyrst út. Hins vegar er það rétt --- alveg eins og utanrrh., starfandi hæstv. forsrh., hefur undirstrikað --- að það er auðvitað vilji og ásetningur ríkisstjórnarinnar að eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins hér eftir sem hingað til, ekki síst á næstu vikum og mánuðum, til að afstýra því að hér verði uppnám vegna kjarasamninga og hugsanlegrar uppsagnar á þeim í febrúar eða mars á næsta ári. Auðvitað er það vilji og ásetningur ríkisstjórnarinnar að eiga gott samstarf við alla aðila um það mál og finna lausn sem komið gæti í veg fyrir uppsögn launaliðar kjarasamninganna.